Friday, December 29, 2006

Sýndarréttlæti er ekki réttlæti

Saddam enn "í haldi Bandaríkjamanna" segir Moggi. Heyr á endemi, eins og hann sé ekki jafnraunverulega í haldi Bandaríkjamanna þegar hann er kominn í hendurnar á strengjabrúðum þeirra?? Og þessi kvislingur, al-Maliki, sem segir að "enginn" geti mótmælt þessari niðurstöðu þar sem dómstóll hafi komist að henni. Nú jæja, þá getum við víst í leiðinni hætt að nöldra yfir ýmsum öðrum réttarhöldum. Ég meina til dæmis, var það ekki dómstóll sem dæmdi Búkarín, Kamenev og Sinovév? Að píslarvottum Íraks sé sýnd vanvirðing með því að mótmæla dauðadómi yfir Saddam -- úff! Ef einhver er að sýna einhverjum vanvirðingu, þá eru það Bandaríkjastjórn og leppar hennar sem fjölga stöðugt umræddum píslarvottum!
Ég vona að írösku andspyrnunni auðnist það sem fyrst, að hrekja innrásarherinn af höndum sér og veita al-Maliki og hans líkum þá ráðningu sem þeir eiga skilið!
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Svo er annað: Sómalía. Ég þoli ekki þegar menn geta ekki drullast til að kalla hlutina sínum réttum nöfnum. Svona er þetta í alvörunni: (1) Bandalag íslamskra dómstóla eru ekki uppreisnarmenn. Þeir eru aðeins ein fylking í borgarastríði sem hefur varað í mörg ár. Þeir hafa verið sigursælir upp á síðkastið, og það er gott. Ef það er eitthvað sem Sómalía þarfnast, fyrir utan góða maóistahreyfingu, þá er það friður og öryggi. Friður og öryggi koma innanfrá. Hreyfing sem sprettur upp meðal fólksins sjálfs, sem á í hlut, og nær yfirhöndinni, hlýtur það ekki að vera hreyfingin sem eðlilegast er að taki völdin? (2) Bráðabirgðastjórn Sómalíu er hlægileg strengjabrúða Eþíópíustjórnar og annarra útlendinga sem ásælast áhrif og völd í Sómalíu. Það er hreint og beint bjánalegt að kalla stríðsmenn hennar "stjórnarherinn", vegna þess einfaldlega að hún er engin ríkisstjórn! Stjórn sem er ekki stjórn, og hefur ekki stjórn, hefur eðlilega engan stjórnarher heldur. "Bráðabirgðastjórnin", spilaborg dubbuð upp af íhlutunarsömum útlendingum, er bara enn ein fylkingin í borgarastríðinu. (3) Eþíópíuher er innrásarher og ætti að drullast heim til sín. Réttast væri að bandalag íslömsku dómstólanna sparkaði þeim öfugum aftur til baka. Eþíópíustjórn gengur ekkert til annað en eigingirnin, og er í slagtogi við Bandaríkjastjórn, sem hefur lengi viljað koma böndum á Sómala, aðallega til að tryggja siglingaleiðina um Aden-flóa.

No comments:

Post a Comment