Thursday, November 9, 2006

9. nóvember, Gúttóslagurinn

Í dag eru 74 ár frá sigri verkamanna í Gúttóslagnum. Fyrir þá sem ekki muna, var kreppan mikla í algleymingi á haustdögum 1932, og bæjarstjórn íhaldsins ákvað að fækka störfum í atvinnubótavinnu og lækka auk þess launin -- hjá sveltandi mönnum. Mannfjölda dreif að Gúttó, húsinu þar sem bæjarstjórn fundaði og stóð fyrir aftan Alþingishúsið, til að skora á bæjarstjórn að láta þetta ógæfuverk ógert. Lögreglulið með kylfur réðst á mannfjöldann. Í stað þess að tvístrast tóku verkamenn á móti, og eftir snörp átök lá meirihluti lögreglunnar óvígur. Bæjarstjórnin sá sitt óvænna og hætti við kjaraskerðinguna.
Að þessum sigri unnum blasti sú spurning við íslenskum byltingarsinnum hvort ætti að láta kné fylgja kviði og gera byltingu. Niðurstaðan varð sú að reyna það ekki, enda væri ekki byltingarástand í landinu; ekki forsendur til byltingar. Eftir slaginn sló valdstjórnin mjög í klárinn, og kom m.a. upp ríkislögreglu. Varnarsigur örvæntingarfullra verkamanna varð átylla til að stórauka valdstjórnina í landinu, tilhneiging sem gætti um öll Vesturlönd.

No comments:

Post a Comment