Monday, October 9, 2006

Norður-Kórea gerir kjarnorkutilraun

Rússar fordæma Norður-Kóreustjórn fyrir vel heppnaða kjarnorkutilraun sína. Tala um að Norður-Kórea „hundsi einróma vilja alþjóðasamfélagsins“. Heyr á endemi! Rússar tala út um afturendann á sér. Það er auðvelt fyrir þá að rífa sig yfir því að fleiri vilji koma sér upp fælingarmætti, þeir hafa verið með kjarnorkuvopn áratugum saman. Sama með Bandaríkjastjórn, Kínastjórn og aðrar ríkisstjórnir sem ráða yfir kjarnorkuvopnum. Ríkisstjórn sem ræður sjálf yfir kjarnorkuvopnum hefur engan rétt til að æsa sig yfir því að Norður-Kórea vilji komast í hópinn. Engan rétt. Norður-Kórea hefur sama rétt til að verja hendur sínar og hvaða annað land sem er.
Og hvað viðvíkur „einróma vilja alþjóðasamfélagsins“ þá er hann ekki til. Almennur vilji alþjóðasamfélagsins er hins vegar til og hann er sá að Kóreustríðið verði ekki endurtekið. Öruggasta leiðin til þess að fyrirbyggja að það gerist er að Norður-Kórea sé ekki framar skotspónn fyrir heimsvaldasinna. Það fokkar enginn í þeim sem á kjarnorkusprengjur, sjáiði til. Þegar Kórea getur varið sig, þá er líka útséð um þreifingar bandarísku heimsvaldastefnunnar um frekari áhrif á Kóreuskaga.
Ég er ekki hrifinn af kjarnorkuvopnum né, ef út í það er farið, öðrum vígatólum. Hins vegar ber ég kennsl á rétt landa til að verja íbúa sína. Þegar eitt land er höfuðsetið af heimsvaldasinnum, hvað á það þá að gera? Hvað á Kim Jong-il að gera? Halda áfram að vera peð í valdatafli stórveldanna, halda áfram að láta Kínverja nota Kóreu fyrir tromp eða jafnvel að þeir fórni henni í einhverjum samningum? Nei, Kórea á ekki að vera leiksoppur neins. Hún ætti hvorki að vera háð Kínverjum né neinum öðrum um öryggi. Sá sem er háður öðru ríki um öryggi getur eins sleppt því að kalla sjálfan sig sjálfstæðan. Hvaða þjóðfrelsi er það, sem þrífst í skjóli erlends valds?
Já, það er leitt að til þessa hafi komið. Ég get hins vegar ekki með nokkru móti áfellst Kóreumenn. Hvernig á ríkisstjórn Norður-Kóreu að segja íbúum landsins að annað Kóreustríð sé hugsanlegt? Svarið er einfalt: Hún getur það ekki. Það er fullkomlega skiljanlegt að þjóð sem hefur einu sinni gengið í gegn um Kóreustríð geri allt -- ég endurtek: allt -- til þess að fyrirbyggja að það endurtaki sig. Það er leitt að Kóreumenn hafi neyðst til að ganga þetta langt, en um leið viss léttir yfir því að óvissan sé ekki lengur fyrir hendi.
Norður-Kórea ræður yfir kjarnorkuvopnum og nú skulu heimsvaldasinnar bara reyna að hræða hana.

No comments:

Post a Comment