Sunday, May 28, 2006

Spádómur

Ég spái því hér með að Orkuveita Reykjavíkur verði komin í eigu Finns Ingólfssonar og félaga áður en kjörtímabilið 2006-2010 er liðið. Þetta verður prísinn sem Framsóknarflokkurinn setur upp fyrir að styðja Sjálfstæðisflokkinn í borginni.

Ganga Íslandsvina í gær mun hafa heppnast býsna vel þótt aðalnúmerið (mig) hafi vantað. Svona er að vera næturvörður: Stundum missir maður af einhverju merkilegu. Reyndar missti ég líka af öðru, sem var talsvert meira spælandi, og skrifast alfarið á minn reikning. Hef ekki fleiri orð um það.
Hafin er undirskriftasöfnun gegn hlutdrægum fréttaflutningi Sjónvarpsins í umfjöllun um stóriðjustefnuna og náttúruvernd. Lesið um það á Egginni.

Kommadistró Íslands er ennþá til og nýjasta varan er æsispennandi að mínu hógværa mati. Íslensk framleiðsla og allt.

Í Nepal eru viðræður hafnar með undirbúningsfundum fyrir fyrsta fund Koirala við sjálfan Prachanda, og menn virðast vera frekar bjartsýnir. Hvernig getur byltingarsinnaður flokkur slegið úr í kröfum sínum um byltingu og ennþá verið byltingarsinnaður? Vilja maóistarnir ekki uppgjör við auðvaldið? Ekki það, að út af fyrir sig má búast við miklum framförum í ríkinu, jafnvel lýðveldisstofnun, þótt of snemmt sé að fullyrða nokkuð um það. Það er ekki alveg ljóst hvort tilvonandi stjórnlagaþing er háð með skilyrðum eða ekki. Eða, réttara sagt, það er ekki ljóst hvort skilyrði Gyanendra konungs reynast nokkurs virði. Það er heldur ekki líklegt að honum þyki árennilegt að sölsa aftur til sín aukin völd með vopnavaldi, eftir uppþotin um daginn. Nú er spurning hvort almenningur í borgum Nepals öðlast pólitíska forystu sem getur leitt hann til frekari framfara frá sjónarmiði stéttabaráttunnar. Ég veit ekki hvort maóistarnir eru líklegir til þess, og í öllu falli er óvíst hvort almenningur í borgunum er fús að fylgja forystu maóista. Óvíst, segi ég, því það er auðvitað ekkert útilokað heldur.

Í Nepal voru annars að finnast leynilegar fangamúðir þar sem hundruð fanga sættu kerfisbundnum pyntingum og illri meðferð. Það gæti tengst maóistunum 49 sem kóngsmenn þykjast engin deili geta sagt á, sem voru í haldi þeirra en eru núna "horfnir" -- væntanlega dauðir.

Í Frakklandi er Chirac hvergi banginn, og lýsir stuðningi við vinstrisinnaða leiðtoga Suður-Ameríkuríkja. Segir þá lýðræðislega kosna, sem er auðvitað satt og rétt. Ég þykist finna lykt af lýðskrumi. Ætli hann sé að reyna að skora stig hjá róttækum vinstrimönnum í Frakklandi, sbr. rósturnar í haust og vor sem leið?

No comments:

Post a Comment