Sunday, December 31, 2006

Enn um Saddam -- og Valgerði

Mér geðjaðist aldrei að Saddam, frekar en öðrum með álíka syndaregistur. Ég er undrandi á þeim merkilega árangri Bandaríkjastjórnar, að fá mig til að hafa samúð með honum. Sú var tíðin að ég gat ekki hugsað mér svo slæm örlög að mér fyndist hann ekki eiga þau skilin, en þegar réttlæti sigurvegarans hrósar sigri, þá er ég bara með óbragð í munninum.

Ég býst við að það þýði að ég sé betri, eða alla vega þroskaðri, manneskja en ég var einu sinni.

Staða mannréttinda sést af því hvernig farið er með verstu glæpamennina. Dauðarefsingar eru óréttlætanlegar. Að íslensk stjórnvöld "virði" niðurstöðuna [1] finnst mér næg ástæða í sjálfu sér til þess að fordæma þau. Að "virða" morð?? Ég er hræddur um að þetta sýni innri mann Valgerðar frænku minnar enn eina ferðina. Sveiattan. Lepjandi upp rassgatið á hvaða stórbokka sem getur veitt bitlinga eða vegtyllur. Ég eftirlæt lesendum mínum að giska á hvað ég kalla slíka hegðun.

Valgerður Sverrisdóttir sýndi það enn og aftur, hvað hún hefur fágætt lag á að spæla mig. Hitt er mér ljúft og skylt að taka fram, að ég varð fyrir vonbrigðum með leiðtoga stjórnarandstöðunnar líka. Hispurslaus fordæming er það eina sem á við í máli sem þessu. Sá sem ekki tekur eindregna afstöðu gegn svona morði -- og fordæmir það jafn eindregið og óheflað og við á -- missir einfaldlega marks.

Saddam dó eins og karlmenni. Það er meira en hægt er að segja um suma.

No comments:

Post a Comment