Sunday, May 14, 2006

Partí umhverfisverndarsinna 15. maí

Af www.baratta.blogdrive.com [orðalags- og leturbreytingar hér]:

Alþjóð er boðið í partí þann 15. maí, við Nordica Hotel, milli kl. 8 og 19 til þess að mótmæla þeirri stefnu sem ríkisstjórnin og framámenn viðskiptalífsins hafa markað í iðnaðar- og viðskiptamálum.
Hafið þið velt því fyrir ykkur, hvers vegna svo fáir mæta í íslensk mótmæli? Við höfum svarið við því. Það er vegna þess að þau eru svo leiðinleg og molluleg að þau eru betur fallin til þess að drepa niður baráttuandann fremur en hitt.
Einhverra hluta vegna virðist hafa skapast hefð fyrir því að íslenskir mótmælendur standi stirðir og þegi þunnu hljóði hvar sem þeir koma saman, og í okkar huga vekur það spurningar eins og: Hver hlustar á þá sem þegja? Þessu viljum við breyta og höfum við því ákveðið að gera tilraun til þess þann 15. maí. þegar The Economist heldur ráðstefnu sem kostuð er af ALCOA, FL Group, Landsbankanum og KOM (sjá nánar).
Eins og sjá má í bæklingnum um ráðstefnuna sem birtist á heimasíðu Ögmundar Jónassonar byrjar ráðstefnan kl. 8 og þá ætlum við sem nú erum að undirbúa þetta partí að vera komin þar saman til að snæða morgunverð og undirbúa okkur fyrir langan og hávaðasaman dag. Mótmælin munu standa jafn lengi og ráðstefnan, frá 8 um morguninn til 7 um kvöldið. Ætlunin er að fá tónlistarmenn til að troða upp og vera með nokkra gjörninga og fleira.


Lesa tilkynninguna í heild sinni og síðuna að öðru leyti.
Ég hef hugsað mér að heiðra samkunduna með nærveru minni. Ég er sammála því að íslensk mótmæli mættu vera fjörugri ... en fellst samt ekki alveg á að þau séu áberandi þögul.

No comments:

Post a Comment