Thursday, May 18, 2006

Bólivía, Nepal

George Monbiot skrifar um það þegar Evo Morals tilkynnti endurþjóðnýtingu á jarðgasi í Bólivíu -- með tilheyrandi neikvæðum viðbrögðum vestrænna leiðtoga -- og ber saman við það þegar Idriss Deby, forseti Chad, ríkisvæddi olíulindir ríkisins á dögunum, og vestrænir leiðtogar sátu hjá og sögðu ekki neitt. Þetta, gott fólk, heitir hræsni. Þeir geta rifið kjaft út af Morales -- hann er sósíalisti og liggur því vel við höggi -- en þegar Deby snýr á þá með klóku samspili af pólitískum klækjum og ofbeldi, þá halda þeir sér saman. Hræsni, segi ég og skrifa.
Annars voru Bólivíumenn að tilkynna að landbúnaðarjörðum yrði skipt upp á milli fátækra. Það er gott.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Ný ríkisstjórn Nepals býr sig undir að klpiia flugfjaðrirnar af kónginum, segir í þessari frétt. Vonandi að það gangi eftir -- en ég er efins. Kóngurinn hefur ennþá heilmikil völd. Lætur hann bjóða sér það, að eitthvað þing, stjórnlagaþing eða fulltrúaþing eða hverju nafni sem það kallast, setji hann bara af sisona? Þetta er maður sem hefur þúsundir byssumanna á sínum snærum. Lætur hann setja sig af eins og hund? Mig skyldi undra. Mótmælin fyrir nokkrum vikum grófu auðvitað hrikalega undan valdastöðu hans og strípuðu utan af honum trúverðugleika hans sem leiðtoga ... en engu að síður er hann hvergi nærri af baki dottinn. Spurningin er, ætli hann telji það gerlegt að halda völdum með vopnavaldi, eða ætli hann telji fýsilegast að sættast á táknrænt konungdæmi? Hvort ætli sé ríkara í honum, hrokinn eða yfirsýnin? Ekki gott að segja.

No comments:

Post a Comment