Friday, May 26, 2006

Björn Ingi gillzaður

Áróðursherferð Framsóknarflokksins að undanförnu hefur verið eins og þeim rangnefnda flokki einum er líkt. Það er sterkt einkenni á stjórnmálaflokki með veikan málstað að hann þarfnast mikils áróðurs til að koma sér á framfæri.
Framsóknarflokkurinn hefur slefað í kring um hina svokölluðu bjórprósentu þrátt fyrir kostnaðarsömustu áróðursherferð þessarar kosningabaráttu. Krónprinsinn í flokki spillingarinnar gillzaður upp og engu er líkara en kistur flokksins séu ótæmandi til að hlaða undir hann auglýsingafé. Þá flokksreikninga væri athyglisvert að skoða.

Hvaðan koma allir þessir peningar? Það vita sjálfsagt flestir hvaða jötnar leggja þá til. Spurningunni „hverjir stjórna stjórnmálamanninum?“ er best svarað með annarri spurningu: „Hvaðan koma peningarnir?“ Höndin sem er aftan í þessari leikbrúðu tilheyrir elítu sem hefur pólitísk völd langt umfram kjörfylgi – í krafti peninga.
Strategían er einföld: Koma sér í oddastöðu, selja sig dýrt. Koma sínum mönnum á spena, koma þeim í matarholur án þess að þeir þurfi að borga sanngjarnt verð fyrir það. Í Reykjavík er mikið í húfi núna, eins og svo sem oft áður. Miðað við umfangið á áróðursherferð Framsóknarflokksins og ímyndarsmíðina á Birni Inga, þá leggjast menn greinilega þungt á árarnar.
Man einhver eftir því þegar Björn Ingi var feitur, fölur og með gleraugu?

Flokksbundnir Framsóknarmenn eru hvorki svo margir né svo mótiveraðir að hægt sé að þakka þeim þessa útblásnu pólitísku blöðru. Þarna spila peningar sem spyrja ekki um vilja meirihlutans heldur sína prívat hagsmuni. Peningar framleiddir af heiðarlegu fólki sem er með sogrör Framsóknarelítunnar í hálsslagæðinni, og er ekki spurt hvort það vilji hella milljónum og aftur milljónum í kosningahítina. Æ sér gjöf til gjalda, og það á eftir að koma í ljós, ef Björn Ingi nær kjöri, hvort Finnur Ingólfsson og vinir hans hafa gert slæma kaup og ganga tómhentir af fundi borgarfulltrúans.

Hentistefnuflokkur Íslands, vinnur með hverjum þeim sem veitir honum völd. Prílar upp bakið á hverjum þeim sem hleypir honum aftan á sig. Sýður saman stefnuskrá sem á að selja vel: Höfðum til fólks með krakka og til gamalmenna, það hljómar vel. Þjóðarsátt um Löngusker, það hljómar vel. Hvernig selur maður? Með því að bjóða upp á það sem fólkið vill. Hvernig veit maður hvað fólkið vill? Maður spyr það. Þegar Framsóknarflokkurinn býður fram undir nafinu „exbé“ er greinilegt að kjósendum hefur ekki litist vel á nafnið „Framsóknarflokkurinn“, hverju sem það nú sætir!
Það er gömul og vel þekkt brella að setja upp grímu til að hylja ljótleika sinn...

Sem betur fer virðast reykvískir kjósendur ekki vera jafnlangt úti í sveit og Framsóknarflokkurinn virðist halda. (Ekki það að það kemur svo sem í ljós á morgun...)
Þetta örvæntingarfulla framboð minnir mig reyndar aðeins á kjördæmamálið á fjórða áratugnum. Fyrir þá sem ekki muna: Kjördæmaskiptingin mismunaði flokkum gróflega, Framsóknarflokknum í hag. Þegar til átti að taka að breyta því rauf forsætisráðherra Framsóknarflokksins þing og boðaði til nýrra kosninga, samkvæmt gamla kerfinu. Það gekk upp en var skammgóður vermir, enda var kjördæmaskiptingunni bara breytt seinna í staðinn. Stundarsigurinn reyndist Pýrrosarsigur. Sigrar unnir með klækjum nýtast stundum illa.
Kannski að Framsóknarelítan ætli núna að reyna að nota síðasta tækifærið til að kýla vömb á kostnað skattborgara?

Það getur verið að Björn Ingi Hrafnsson komist inn í borgarstjórn á morgun. Það má spyrja sig hvort það væri stór sigur fyrir þennan flokk að koma að manni, eða hvort það væri niðurlæging að hafa ausið svona miklum peningum í þetta framboð án þess að koma að nema einum. Svarið er að ef Birni Inga heppnast það, þá lengist dauðastríð Framsóknarflokksins bara enn meira. Banalegan hefur verið svo löng og sársaukafull að maður hálf vorkennir flokknum – og hlakkar til þegar honum verða veittar langþráðar og verðskuldaðar nábjargir.

No comments:

Post a Comment