Sunday, May 28, 2006
Spádómur
Ganga Íslandsvina í gær mun hafa heppnast býsna vel þótt aðalnúmerið (mig) hafi vantað. Svona er að vera næturvörður: Stundum missir maður af einhverju merkilegu. Reyndar missti ég líka af öðru, sem var talsvert meira spælandi, og skrifast alfarið á minn reikning. Hef ekki fleiri orð um það.
Hafin er undirskriftasöfnun gegn hlutdrægum fréttaflutningi Sjónvarpsins í umfjöllun um stóriðjustefnuna og náttúruvernd. Lesið um það á Egginni.
Kommadistró Íslands er ennþá til og nýjasta varan er æsispennandi að mínu hógværa mati. Íslensk framleiðsla og allt.
Í Nepal eru viðræður hafnar með undirbúningsfundum fyrir fyrsta fund Koirala við sjálfan Prachanda, og menn virðast vera frekar bjartsýnir. Hvernig getur byltingarsinnaður flokkur slegið úr í kröfum sínum um byltingu og ennþá verið byltingarsinnaður? Vilja maóistarnir ekki uppgjör við auðvaldið? Ekki það, að út af fyrir sig má búast við miklum framförum í ríkinu, jafnvel lýðveldisstofnun, þótt of snemmt sé að fullyrða nokkuð um það. Það er ekki alveg ljóst hvort tilvonandi stjórnlagaþing er háð með skilyrðum eða ekki. Eða, réttara sagt, það er ekki ljóst hvort skilyrði Gyanendra konungs reynast nokkurs virði. Það er heldur ekki líklegt að honum þyki árennilegt að sölsa aftur til sín aukin völd með vopnavaldi, eftir uppþotin um daginn. Nú er spurning hvort almenningur í borgum Nepals öðlast pólitíska forystu sem getur leitt hann til frekari framfara frá sjónarmiði stéttabaráttunnar. Ég veit ekki hvort maóistarnir eru líklegir til þess, og í öllu falli er óvíst hvort almenningur í borgunum er fús að fylgja forystu maóista. Óvíst, segi ég, því það er auðvitað ekkert útilokað heldur.
Í Nepal voru annars að finnast leynilegar fangamúðir þar sem hundruð fanga sættu kerfisbundnum pyntingum og illri meðferð. Það gæti tengst maóistunum 49 sem kóngsmenn þykjast engin deili geta sagt á, sem voru í haldi þeirra en eru núna "horfnir" -- væntanlega dauðir.
Í Frakklandi er Chirac hvergi banginn, og lýsir stuðningi við vinstrisinnaða leiðtoga Suður-Ameríkuríkja. Segir þá lýðræðislega kosna, sem er auðvitað satt og rétt. Ég þykist finna lykt af lýðskrumi. Ætli hann sé að reyna að skora stig hjá róttækum vinstrimönnum í Frakklandi, sbr. rósturnar í haust og vor sem leið?
Friday, May 26, 2006
Björn Ingi gillzaður

Framsóknarflokkurinn hefur slefað í kring um hina svokölluðu bjórprósentu þrátt fyrir kostnaðarsömustu áróðursherferð þessarar kosningabaráttu. Krónprinsinn í flokki spillingarinnar gillzaður upp og engu er líkara en kistur flokksins séu ótæmandi til að hlaða undir hann auglýsingafé. Þá flokksreikninga væri athyglisvert að skoða.
Hvaðan koma allir þessir peningar? Það vita sjálfsagt flestir hvaða jötnar leggja þá til. Spurningunni „hverjir stjórna stjórnmálamanninum?“ er best svarað með annarri spurningu: „Hvaðan koma peningarnir?“ Höndin sem er aftan í þessari leikbrúðu tilheyrir elítu sem hefur pólitísk völd langt umfram kjörfylgi – í krafti peninga.
Strategían er einföld: Koma sér í oddastöðu, selja sig dýrt. Koma sínum mönnum á spena, koma þeim í matarholur án þess að þeir þurfi að borga sanngjarnt verð fyrir það. Í Reykjavík er mikið í húfi núna, eins og svo sem oft áður. Miðað við umfangið á áróðursherferð Framsóknarflokksins og ímyndarsmíðina á Birni Inga, þá leggjast menn greinilega þungt á árarnar.
Man einhver eftir því þegar Björn Ingi var feitur, fölur og með gleraugu?
Flokksbundnir Framsóknarmenn eru hvorki svo margir né svo mótiveraðir að hægt sé að þakka þeim þessa útblásnu pólitísku blöðru. Þarna spila peningar sem spyrja ekki um vilja meirihlutans heldur sína prívat hagsmuni. Peningar framleiddir af heiðarlegu fólki sem er með sogrör Framsóknarelítunnar í hálsslagæðinni, og er ekki spurt hvort það vilji hella milljónum og aftur milljónum í kosningahítina. Æ sér gjöf til gjalda, og það á eftir að koma í ljós, ef Björn Ingi nær kjöri, hvort Finnur Ingólfsson og vinir hans hafa gert slæma kaup og ganga tómhentir af fundi borgarfulltrúans.
Hentistefnuflokkur Íslands, vinnur með hverjum þeim sem veitir honum völd. Prílar upp bakið á hverjum þeim sem hleypir honum aftan á sig. Sýður saman stefnuskrá sem á að selja vel: Höfðum til fólks með krakka og til gamalmenna, það hljómar vel. Þjóðarsátt um Löngusker, það hljómar vel. Hvernig selur maður? Með því að bjóða upp á það sem fólkið vill. Hvernig veit maður hvað fólkið vill? Maður spyr það. Þegar Framsóknarflokkurinn býður fram undir nafinu „exbé“ er greinilegt að kjósendum hefur ekki litist vel á nafnið „Framsóknarflokkurinn“, hverju sem það nú sætir!
Það er gömul og vel þekkt brella að setja upp grímu til að hylja ljótleika sinn...
Sem betur fer virðast reykvískir kjósendur ekki vera jafnlangt úti í sveit og Framsóknarflokkurinn virðist halda. (Ekki það að það kemur svo sem í ljós á morgun...)
Þetta örvæntingarfulla framboð minnir mig reyndar aðeins á kjördæmamálið á fjórða áratugnum. Fyrir þá sem ekki muna: Kjördæmaskiptingin mismunaði flokkum gróflega, Framsóknarflokknum í hag. Þegar til átti að taka að breyta því rauf forsætisráðherra Framsóknarflokksins þing og boðaði til nýrra kosninga, samkvæmt gamla kerfinu. Það gekk upp en var skammgóður vermir, enda var kjördæmaskiptingunni bara breytt seinna í staðinn. Stundarsigurinn reyndist Pýrrosarsigur. Sigrar unnir með klækjum nýtast stundum illa.
Kannski að Framsóknarelítan ætli núna að reyna að nota síðasta tækifærið til að kýla vömb á kostnað skattborgara?
Það getur verið að Björn Ingi Hrafnsson komist inn í borgarstjórn á morgun. Það má spyrja sig hvort það væri stór sigur fyrir þennan flokk að koma að manni, eða hvort það væri niðurlæging að hafa ausið svona miklum peningum í þetta framboð án þess að koma að nema einum. Svarið er að ef Birni Inga heppnast það, þá lengist dauðastríð Framsóknarflokksins bara enn meira. Banalegan hefur verið svo löng og sársaukafull að maður hálf vorkennir flokknum – og hlakkar til þegar honum verða veittar langþráðar og verðskuldaðar nábjargir.
Thursday, May 25, 2006
Nokkur orð um Íran
Amir Taheri er maðurinn sem kom þessari sögu af stað. Hún er ekki sönn og það eru allar líkur á að hann hafi vitað það allan tímann, jafnvel skáldað hana upp sjálfur. Hann er íranskur frv. royalisti, útlagi -- hefur því sína hagsmuni sem þurfa ekki að fara saman við sannleikann.
Reynt er að mála Ahmadinejad upp sem nýjan Hitler með rógi. Forsetinn er ekki fullkominn frekar en aðrir, og reyndar mál færa rök fyrir því að hann sé, eins og fleiri forsetar, fullrar gagnrýni verður, a.m.k. að mörgu leyti. En hann á ekki skilið, frekar en aðrir menn, að það sé logið upp á hann sökum. Hann er kannski enginn dýrlingur, en hann er í öllu falli alls enginn Hitler!
Ítarlegri skýringar og heimildir (auk fleiri vísana í ítarlegri skýringar og heimildir) má finna m.a. í grein Juan Cole, „Another Fraud on Iran: No Legislation on Dress of Religious Minorities“ og í grein Jan Frel, „Ahmadinejad: Not Hitler After All“.
„Olmert segir Íran ógn við Ísrael“ -- ekki eru það nýjar fréttir að blóðhundurinn í Miðausturlöndum fari að skæla þegar hinir neita að láta vaða yfir sig. Ég bíð ennþá eftir fréttinni um að „Bandaríkin og Ísrael eru ógn við Íran, segir Ahmadinejad“
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Að lokum minni ég á samstöðu- og styrktartónleikana sem Félagið Ísland-Palestína stendur fyrir í kvöld, til stuðnings konum í Palestínu. Lesið um þá hér.
Saturday, May 20, 2006
Friday, May 19, 2006
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Nú í vikunni eru víst40 ár síðan Menningarbyltingin hófst í Kína. Mér skilst að það sé lítið um dýrðir í Beijing; nánar tiltekið, að þar sé ekkert á seyði til að minnast þessara tímamóta. Um hvað er það merki?
Thursday, May 18, 2006
Bólivía, Nepal
Annars voru Bólivíumenn að tilkynna að landbúnaðarjörðum yrði skipt upp á milli fátækra. Það er gott.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Ný ríkisstjórn Nepals býr sig undir að klpiia flugfjaðrirnar af kónginum, segir í þessari frétt. Vonandi að það gangi eftir -- en ég er efins. Kóngurinn hefur ennþá heilmikil völd. Lætur hann bjóða sér það, að eitthvað þing, stjórnlagaþing eða fulltrúaþing eða hverju nafni sem það kallast, setji hann bara af sisona? Þetta er maður sem hefur þúsundir byssumanna á sínum snærum. Lætur hann setja sig af eins og hund? Mig skyldi undra. Mótmælin fyrir nokkrum vikum grófu auðvitað hrikalega undan valdastöðu hans og strípuðu utan af honum trúverðugleika hans sem leiðtoga ... en engu að síður er hann hvergi nærri af baki dottinn. Spurningin er, ætli hann telji það gerlegt að halda völdum með vopnavaldi, eða ætli hann telji fýsilegast að sættast á táknrænt konungdæmi? Hvort ætli sé ríkara í honum, hrokinn eða yfirsýnin? Ekki gott að segja.
Monday, May 15, 2006
Sunday, May 14, 2006
Partí umhverfisverndarsinna 15. maí
Alþjóð er boðið í partí þann 15. maí, við Nordica Hotel, milli kl. 8 og 19 til þess að mótmæla þeirri stefnu sem ríkisstjórnin og framámenn viðskiptalífsins hafa markað í iðnaðar- og viðskiptamálum.
Hafið þið velt því fyrir ykkur, hvers vegna svo fáir mæta í íslensk mótmæli? Við höfum svarið við því. Það er vegna þess að þau eru svo leiðinleg og molluleg að þau eru betur fallin til þess að drepa niður baráttuandann fremur en hitt.
Einhverra hluta vegna virðist hafa skapast hefð fyrir því að íslenskir mótmælendur standi stirðir og þegi þunnu hljóði hvar sem þeir koma saman, og í okkar huga vekur það spurningar eins og: Hver hlustar á þá sem þegja? Þessu viljum við breyta og höfum við því ákveðið að gera tilraun til þess þann 15. maí. þegar The Economist heldur ráðstefnu sem kostuð er af ALCOA, FL Group, Landsbankanum og KOM (sjá nánar).
Eins og sjá má í bæklingnum um ráðstefnuna sem birtist á heimasíðu Ögmundar Jónassonar byrjar ráðstefnan kl. 8 og þá ætlum við sem nú erum að undirbúa þetta partí að vera komin þar saman til að snæða morgunverð og undirbúa okkur fyrir langan og hávaðasaman dag. Mótmælin munu standa jafn lengi og ráðstefnan, frá 8 um morguninn til 7 um kvöldið. Ætlunin er að fá tónlistarmenn til að troða upp og vera með nokkra gjörninga og fleira.
Lesa tilkynninguna í heild sinni og síðuna að öðru leyti.
Ég hef hugsað mér að heiðra samkunduna með nærveru minni. Ég er sammála því að íslensk mótmæli mættu vera fjörugri ... en fellst samt ekki alveg á að þau séu áberandi þögul.
Saturday, May 13, 2006
Maóistar bjóða friðarviðræður
Fylkisstjórinn sem hefur verið í vörslu maóista hefur líka verið látinn laus, eftir fimm vikna varðhald. Koirala forsætisráðherra fyrirskipaði handtöku fimm frv. ráðherra konungsins, fyrir meint samsæri gegn lýðræðinu.
Það virðist stefna í beinar viðræður, augliti til auglitis, milli Prachanda og Koirala. Slíkar viðræður geta haft afgerandi áhrif á gang mála. Koirala stendur nokkuð sterkum fótum; kóngurinn er ekki í stöðu til að sparka honum, en múgurinn í Kathmandú gæti hugsanlega gert það ef hann stendur sig ekki betur núna en hann gerði síðast. Maóistarnir vita það vel og eru reiðubúnir að hamra járn meðan heitt er, ef út í það fer. Þeir vilja að þingið verði leyst upp og stjórnarskráin numin úr gildi -- ríkið m.ö.o. gert upp frá grunni -- annars vara þeir við því að þeir gætu leitt almenna uppreisn gegn núverandi valdhöfum.
Vegvísir maóista til friðar er sem hér segir:
1. Declaration of a ceasefire
2. Finalisation of code of conduct
3. Formation of talks team
4. Release of political prisoners
5. Starting talks
6. Dissolution of the old parliament, constitution and government
7. Formation of an interim guideline and government by holding a political conference with representation from the political parties, civil society and renowned personalities of different sectors
8. Setting of electoral constituencies by ensuring the representation from people of all classes, castes, sectors and genders
9. Holding constituent assembly elections under reliable international upervision
10. Restructuring of the whole state structures including the People’s Liberation Army and the Royal Nepalese Army as per the popular mandate expressed through the (constituent assembly) elections.
Sjá líka umfjöllun KantipurOnline.
Hillir undir frið í Nepal? Of snemmt að segja ... en þetta getur vel verið skref í rétta átt.
Friday, May 12, 2006
„Ísraelar hafa neitað að afhenda skattpeninga sem þeir innheimta fyrir stjórn Palestínu og margar þjóðir halda að sér höndum. Ástæðan er ríkisstjórn Hamas samtakanna sem stjórnir margra landa líta á sem hryðjuverkasamtök.“
Þetta er það sem á mannamáli heitir rán. Ísraelar taka skattpeninga af Palestínumönnum og neita að afhenda þá. Rán. Ástæðan er ekki ríkisstjórn Hamas-samtakanna heldur hernám Ísraela, sem hefur af eðlilegum ástæðum getið af sér viðnám. Hernámið er hryðjuverkið sem stendur yfir, sem er framið á hverjum degi í Palestínu. Það sem er verið að refsa Palestínumönnum fyrir, er að þeir kusu, í lýðræðislegum kosningum, menn sem taka ekki þátt í hernáminu, sem berjast fyrir þjóðfrelsi og reisn. Ísraelar setja stefnuna með hernáminu og þegar Palestínumenn bregðast við á eðlilegan og fyrirsjáanlegan hátt, þá er þeim refsað.
Thursday, May 11, 2006
Smá um Nepal
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Í Portland hefur verið stofnuð opinber nefnd til að reyna að díla við yfirvofandi olíukreppu. Þetta virðist vera afraksturinn af starfi þessa hóps, ef ég skil rétt.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Vóhh...
Tuesday, May 9, 2006
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Ef einhverjum fannst fullyrðingar gærdagsins, um gáfnafar og geðheilsu Zacharias Moussaoui, orðum auknar, þá hvet ég þann hinn sama til að kíkja á þetta. Þurfið þér frekari vitnanna við?
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
"Bush vill diplomatíska lausn" segir á RÚV. "Bush segist vilja diplómatíska lausn" hefði verið betra orðalag.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Nú, Alþjóðabankinn segir að Palestínska heimastjórnin verði brátt óstarfhæf ef henni berst ekki fjárhagsaðstoð. Hræsnina og óheiðarleikann í Ísraelum og Bandaríkjastjórn ætla ég ekki að fara að rekja enn eina ferðina, en ef þetta gerist, þá verða Ísraelar tilneyddir að axla sjálfir ábyrgð á þessu hernámi sínu. Í sjálfu sér einfaldar það stöðuna að fækka milliliðum um einn. Það er skömm frá því að segja, en stofnun Palestínsku heimastjórnarinnar var ekki pólitískt skref fram á við í þjóðfrelsisbaráttu Palestínumanna. Hamas-menn virðast vita hvað þeir eru að gera.
Monday, May 8, 2006
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Í Nepal fallast maóistar á að hefja friðarviðræður við borgaralegu þingræðisflokkana, og Prachanda segir að þeir séu bjartsýnni í þetta skipti en tvö síðustu, vegna þeirrar sögulegu hreyfingar sem hafi fleytt borgaraflokkunum í ríkisstjórn aftur. Hvað skal segja? Ég hef áhyggjur af nepölsku byltingunni.
Wednesday, May 3, 2006
Borgarastéttin, fyrst með fréttirnar
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
„Olíuverð hækkar vegna spennunnar í samskiptum Írana við umheiminn“ segir Mogginn líka. Það er ekki rétt. Ástæðan fyrir því að olíuverð fer hækkandi er einföld: Olían fer þverrandi á sama tíma og eftirspurnin fer vaxandi.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Evo Morales stendur sig eins og hetja! Ég vona að hann haldi áfram á réttri braut; hann, Chavez og Castró eru efnilegt þríeyki.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Fyrirhugað stjórnlagaþing í Nepal verður skrípaleikur, er ég hræddur um. Það verður kallað saman af þingi sem situr með blessun kóngsins og kóngurinn hefur ráð hersins í hendi sér. Ef þetta þing velur áframhaldandi einveldi, þá verður það. Ef það velur lýðveldi, þá mun kóngurinn ekki stíga úr hásætinu af fúsum vilja. Með öðrum orðum, þetta er tilgangslaust og flækir málin.