Thursday, April 27, 2006

Einhliða vopnahlé maóista í Nepal

Nepölsku maóistarnir hafa lýst yfir einhliða vopnahléi í þrjá mánuði (til 26. júlí). Þeir segjast ekki munu gera árásir, en veita virkt viðnám ef á þá verður ráðist. Með öðrum orðum, þá gefa þeir borgaraflokkunum séns. Nú er spurningin hvort kóngurinn svarar með gagnkvæmu vopnahléi. Síðast gerði hann það ekki, en í ljósi undangenginna atburða neyðist hann kannski til þess. Menn hafa spurt sig hvort stjórnmálaflokkarnir reynist færir um að stjórna hernum; það er bara blaður. Kóngurinn stjórnar hernum, en hins vegar má spyrja sig hvort hann metur það svo að stjórnmálaflokkarnir hafi það mikil ítök meðal almenning, að honum sé hollast að lúta vilja þeirra. Ég held að þeir hafi ekki þessi ítök, heldur séu þeir leppar kóngsins, til þess að hann geti keypt tíma og haldið krúnunni. Nytsamir sakleysingjar, tækifærissinnaðir leiksoppar. Hins vegar gæti kóngurinn séð sér hag í því að láta flokkana halda að þeir ráði, til að villa um fyrir almenningi og grafa undan maóistunum, og í því skyni gæti hann fallist á vopnahlé við maóistana (og ég held að hann muni gera það). Þá gætu friðarviðræður hafist að nýju. Sem taktík af hálfu kóngsins.

Ég býst semsagt frekar við því að friðarviðræður muni hefjast núna í vor. Það er spurning hver gengur í hvers gildru, hver bítur á annars agn... Á meðan kóngurinn hefur herinn á sínu bandi mun hann ekki segja af sér, svo að hann mun ekki láta herinn af hendi sjálfviljugur. Hann á án efa eftir að setja það sem skilyrði fyrir varanlegum friði, að hann verði áfram kóngur. Ef lýðveldisstofnun yrði niðurstaðan af friðarviðræðum og/eða stjórnlagaþingi, þá mundi kóngurinn einfaldlega segja borgaraflokkunum að taka pokann sinn aftur -- eins og hann gerði 1. febrúar í fyrra.

Almenningur í landinu er orðinn verulega andsnúinn konungdæminu, svo að í raun er honum ekki mögulegt að sitja á friðarstóli til langframa. Maóistarnir hljóta að skilja hvað kröfur þeirra um lýðveldi og skilyrðislaust stjórnlagaþing eiga mikinn hljómgrunn meðal almennings. Ef þeir nýta sér það ekki sem pólitískt bakland, til að styrkja sig enn frekar í sessi, þá er alvarlegur brestur í forystunni hjá þeim. Atburðir undanfarinna daga hafa, geri ég ráð fyrir, komið flestum á óvart, svo þetta er varla fyrirfram hugsuð strategía. (Það er auðvitað hugsanlegt að þeir hafi reiknað dæmið í grófum dráttum í vetur og veðjað á að þetta færi svona, en það er ómögulegt að segja; bara spekúlasjónir mínar...)

Sem fyrr fylgist ég átekta með.

Það er annars vert að benda á að Kínastjórn firrir sig tengslum við maóista í Nepal. Það undirstrikar að gagnbyltingin er fyrir löngu orðin sigursæl í Kína. Það sem Kína vantar er bylting!

No comments:

Post a Comment