Wednesday, April 19, 2006

Af Perú, Nepal og Palestínu

Ollanta Humala vann fyrstu umferð forsetakosninganna í Perú. Önnur umferð verður í maí. Hann fékk innan við 3,5 milljónir atkvæða, sem kallað var 31% fylgi. Á kjörskrá voru meira en 16 milljónir. Það þýðir að nálægt 6 milljónum hafa ekki greitt neinum frambjóðanda atkvæði. Auðir seðlar og ógildir voru „í öðru sæti“ -- þ.e.a.s. næstflestir atkvæðaseðlar voru annað hvort. 11% fólks á kjörskrá mætti ekki á kjörstað, þótt við því liggi sektir. Hversu trúverðugar hljóma svona kosningar?
„The Republic of Peru is in a state of ongoing democratization“ segir Wikipedia, en þar á bæ eru menn ekki vanir að taka sterkt til orða. Orðin „ongoing democratization“ held ég að megi fullyrða að séu bull, nema í þeim tilfellum sem raunveruleg barátta á sér stað. Sú er líka raunin í Perú. Kommúnistaflokkur Perú hóf Stríð fólksins í Perú 17. maí 1980, og skemmst er að minnast þess þegar ríkisvaldið hafði verið hrakið frá völdum í meirihluti landsins. Þeir hafa ekki farið hátt í fjölmiðlum undanfarin ár, en eru ekki af baki dottnir þótt Gonzalo formaður hafi dúsað í fangelsi síðan 1992.
Í því samhengi getur verið athyglisvert að skoða kosningatölurnar. Í mars gaf Kommúnistaflokkur Perú frá sér yfirlýsingu þar sem skorað er á fólk að sniðganga kosningarnar og réttilega bent á að þær gera ekki annað en að styrkja valdið í sessi heldur eigi fólk þess í stað að taka þátt í stríð fólksins í styðja það. „Ongoing democratization“ þýðir á mannamáli að þar er ekki lýðræði. Hvernig getur almenningur fengið pólitískum vilja sínum framgengt ef það býr ekki við lýðræði?
Heyri ég einhvern hvísla bylting?
~~~ ~~~ ~~~ ~~~~
Talandi um byltingu, þá víkur sögunni að öðrum brennipunkti stéttabaráttunnar í dag. Nepal. Flutningabann bandalags stjórnarandstæðinga hefur nú staðið yfir í tvær vikur. Í tvær vikur hafa stjórnarandstæðingar -- sjöflokkarnir og maóistarnir -- auðmýkt ríkisstjórnina og sýnt í verki að hún hefur ekki einu sinni raunverulegt vald til að halda þjóðvegunum til Kathmandú opnum. Það er fátt, ef nokkuð, sem grefur eins mikið undan valdinu og þegar sýnt er fram á að það sé ekki það vald sem það gefur sig út fyrir að vera.
Í gær komust 23 flutningabílar í herfylgd til borgarinnar -- einnar og hálfrar milljónar manna borgar. Það er dropi í hafið. Þótt flutningabannið hafi verið tilkynnt með margra vikna fyrirvara -- og fólki gefinn kostur á að birgja sig upp eftir megni -- sverfur hungrið samt að. Eftir því sem það ágerist má búast við því að flutningabanninu verði aflétt um stundarsakir í mannúðarskyni. Tilgangurinn er jú fyrst og fremst að demonstrera bjargarleysi konungsins. Í gær lögðu líka starfsmenn í einu ráðuneyti niður störf í mótmælaskyni við konunginn. Þeir voru að sjálfsögðu handteknir strax, enda hættulegt fordæmi: Fyrsta merki um að ríkisstarfsmenn séu að afneita honum.
Hjól sögunnar snúast hratt í Nepal; snaran herðist um kverkarnar á Gyanendra konungi. Nýjasta frétt RÚV um málið nefnist Nepal: Mannréttindasamtök kalla eftir aðgerðum -- þau „saka Gyanendra og aðra ráðamenn um að valda nepölsku þjóðinni óumræðilegum þjáningum.“ Ég væni Amnesty International ekki um lygar.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Ísraelsstjórn ákveður að gera Hamas-menn ábyrga fyrir sjálfsmorðsárásinni í Tel Aviv og áskilur sér rétt til að drepa leiðtoga þeirra, þar á meðal ráðherra Palestínsku heimastjórnarinnar. Svo segja Olmert og hinir glæpamennirnir að þeir hafi enga til að semja við!? Þetta kalla ég kokhreysti, svo ég kveði ekki fastar að orði!

No comments:

Post a Comment