Friday, April 21, 2006

Enn gerast hlutirnir hratt í Nepal

Það hafa verið stórtíðindi frá Nepal upp á hvern dag undanfarið -- eða, réttara sagt, flutningabannið og verkföllin sem nú eru komin á þriðju viku eru auðvitað ekkert annað en samfelld stórtíðindi -- en ef það verður ekki kvalitatíf breyting á nepalska stjórnkerfinu bráðlega, þá er ég illa svikinn. Ég held að það væri jafnvel ekki ofrausn að spá því að konungdæmið eigi ekki lengra eftir en frameftir vori. Það er samt rétt að fara varlega í spádómana þegar maður hefur ekki kristalskúluna við höndina...

En engu að síður. Ég býst við að fyrirsagnirnar tali fyrir sig sjálfar:

Nepal’s king refuses to fold in face of protests
Trucks to Nepal stalled at border
On Scene: A Revolution in Nepal?
Nepal: Last stand of a monarchy
Nepal formula: Maoists in govt, titular role for King

Ef kóngurinn var ekki gjörsamlega búinn að fyrirgera möguleikunum á málamiðlun, sem fæli í sér að hann bæri kórónuna áfram, fyrir svosem 10 vikum síðan, þá er ekki ólíklegt að hann hafi gert það núna. Þessi mótmæli eru meira en bara mótmæli, þetta er þéttbýlisuppreisn. Það er álitamál hvort hægt er að kenna hana við stjórnmálaflokkana eða maóistana, kannski helst að hægt sé að kenna hana við kónginn sjálfan. Með skefjalausu lögregluofbeldi hefur kónginum tekist að æsa ólíklegustu hópa upp í pólitíska uppreisn gegn sér – það er greinilega hægt ef menn eru nógu óprúttnir. Sumir mótmælenda hafa sagt að ef flokkarnir semji við kónginn, þá beinist mótmælin bara að þeim næst.

Þá er spurningin, hvað næst? 5. þessa mánaðar skrifaði ég „
Svolitla greinargerð um ástandið í Nepal í byrjun apríl“ sem ég hygg að standi jafnvel undir sér nú og þá. Það sem mér virðist vera alveg á hreinu núna er þetta: Maóistarnir munu ekki semja við kónginn. Sjöflokkarnir gera það ekki heldur, enda væri það pólitískt sjálfsmorð -- tvöfalt í þokkabót. Múgurinn mundi snúast gegn þeim og maóistarnir hada auk þess taumhald á þeim. Kóngurinn er dæmdur maður. Það skynsamlegasta fyrir hann væri að fara í útlegð til Sviss og vona að stríðsglæpadómstólar nái ekki til hans.

Spurningin sem ég hugsa mest um sjálfur þessa dagana er hvort sósíalísk bylting maóistanna kunni að vera á enda -- og þá meina ég ekki hvort hún sé að vera sigursæl heldur hvort hún sé að taka ranga stefnu. Með öðrum orðum, hvort maóistarnir hafi tekið ranga stefnu. Lesið t.d. opið bréf Kommúnistaflokks Perú (sem eru engir smákarlar í bransanum) til Kommúnistaflokks Indlands (Maóista) (Naxalbari) sem
getur að líta á heimasíðu þeirra.

Fyrir mitt leyti finnst mér samt of snemmt af gefa upp vonina. Það getur verið að þetta sé liður í stærri strategíu -- sem mér þykir reyndar ólíklegt. Það getur verið að byltingin geti haldið áfram með öðrum leiðum en vopnaðri baráttu gegn afturhaldinu -- þótt ég þori ekki beint að leggja höfuðið að veði. Er nútíma endurskoðunarhyggja að hreiðra um sig meðal maóista? Það segja nefnilega sumir. Það væri alveg dæmigert ef þetta klikkaði á lokasprettinum vegna þess að forysta maóistanna sjálfra brygðist. Athugið að ég þori engu að slá föstu um þetta. Þetta kemur í ljós býst ég við.

No comments:

Post a Comment