Tuesday, April 25, 2006

Hvað er að gerast í Nepal?

Það hefur varla farið framhjá neinum að það hvín í hjólum sögunnar í Nepal um þessar mundir. Maóistar ráða sem kunnugt er 50-80% landsins og þeir, í bandalagi við borgaraflokkana sjö, settu Kathmandú í herkví á dögunum, og undanfarnar þrjár vikur tæpar hafa fjöldamótmæli verið daglegt brauð, ásamt götubardögum og lögregluofbeldi sem hefur kostað mörg mannslíf.

Ég ætla ekki að rekja aðdraganda þessara atburða sérstaklega, enda hef ég gert það áður og um hann er hægt að lesa víða (t.d. „Nepal's Instability in the Regional Power Struggle“) og fyrir þá sem vilja fræðast um sjálfa atburði undanfarinna daga má m.a. benda á „Intelligence Brief: Nepal's King Reinstates Parliament“.

Í stuttu máli: Eftir 14 mánaða einræði konungsins (sem tók sér alræðisvald 1. febrúar 2005) er fólkinu nóg boðið. Það segir sína sögu að 100.000 manns hafi mótmælt í Kathmandú! Þessi mótmæli hefur kóngurinn reynt eftir megni að berja niður, en án árangurs: „Nepalese king bows to mass protests and offers to recall parliament“ – fyrst bauðst hann til að skipa Koirala, leiðtoga Congress-flokksins, forsætisráðherra, en því var hafnað. Á endanum gafst hann upp – í gærkvöldi – og bauð að hann skyldi kalla þingið saman að nýju OG skipa Koirala aftur – og það samþykktu þingræðisflokkarnir, hafa boðað að mótmælum skuli hætt og sigurganga gengin þess í stað – og það var gert í dag.

Sigur? Já – fyrir einhvern, auðvitað, en hvern? Hér eru nokkur atriði sem þarf að taka til greina. Það er hæpið að segja að þingræðisflokkarnir hafi eitthvað umboð, að kalla megi, fyrir mótmælendurna. Þessi mótmælahreyfing, sem hefur aðallega krafist afsagnar konungsins, á sér ekki eiginlega forystu – hvorki meðal borgaraflokka né maóista. Maóistar leiða þessa hreyfingu ekki heldur, en gætu kannski haft áhrif á hana eða veitt henni forystu á einhvern hátt.

Nú segja maóistar að sjöflokkarnir hafi svikið sig, brotið 12-punkta samninginn frá því í haust – og svikið nepölsku þjóðina. Mótmælahreyfingin setti slíkan þrýsting á kónginn að hann var þvingaður til að bjóða samninga. Þegar valdið vill semja hefur það yfirleitt tapað – svo ef sjöflokkarnir hefðu hafnað boði konungs, þá hefði valdatími hans ekki orðið langur héðanífrá, kannski ekki nema til mánaðamóta. Mótmælahreyfingin hefði gengið af einveldinu dauðu (ef til vill kónginum sjálfum líka, nema hann hefði flúið land) og því næst hefðu maóistarnir og sjöflokkarnir getað sest niður og haldið stjórnlagaþing skv. 12-punkta samkomulaginu.

Þess í stað taka sjöflokkarnir þann kost sem er öruggari fyrir valdastéttina: Þeir ganga til samninga við gamla valdið; þeir gera málamiðlun sem gerir kónginum kleift að sitja áfram – og hér liggur hundurinn grafinn: Kóngurinn er áfram æðsti maður hersins og hefur þar með vopnavald hins opinbera í hendi sér! Sjöflokkarnir segja að eitt fyrsta verk nýs þings verði að boða til stjórnlagaþings – en mun maður sem ræður yfir her bara láta setja sig af sisona? Svar: Nei!

Svik, segja maóistar: Sviknir samningar, svikin þjóð. Þeir boða áframhaldandi mótmæli og herkví. „Yfirlýsing konungsins á mánudaginn er bragð til þess að kljúfa nepölsku þjóðina og standa vörð um hans eigin gerræðisvöldsegir í yfirlýsingu Prachanda formanns og Baburams Bhattarai næstráðanda. „Hún kemur ekki inn á kröfur fólksins, sem mótmælir á götum úti, um stjórnlagaþing og lýðveldi, né samkomulagið milli okkar og stjórnmálaflokkanna.“ Þeir kalla þetta samsæri og gabb – og það er það líka. „Þeir flokkar sem hafa tekið yfirlýsingu konungsins fagnandi hafa brugðist vonum fólksins og veitt samkomulagi okkar við þá högg.

Hvers vegna býður kóngurinn sjöflokkunum til samninga? Svar: Vegna pólitísks þrýstings. Ekki bara frá fólkinu á götunum, heldur frá heimsvaldasinnunum sem telja sig hafa hagsmuna að gæta í Nepal. Það eru einkum Indland, Bandaríkin og Bretland. Þessi ríki kæra sig ekki um maóista við völd og þau átta sig á því að ef mótmælahreyfingin heldur áfram, þá verður fleiru steypt en kónginum. (Tengt því má geta þess að Bandaríkjamenn hafa kallað næstum alla sendiráðsstarfsmenn sína burt.) Svona hreyfingu þarf að keyra út af sporinu: Hana þarf að svíkja, og þar koma borgaralegir sjöflokkarnir inn í dæmið. Þeir stilla sjálfum sér upp sem pólitískri forystu fyrir mótmælendurna, þótt það hafi verið vitað fyrirfram að mótmælendurnir vildu ekki samninga við kónginn heldur að hann segði af sér.

Sjöflokkarnir ganga að samningum við kónginn þótt þeir eigi að geta sagt sér það sjálfir að hann er að kaupa sér pólitísk grið og tíma og ekkert annað. Hann er að nota sjöflokkana til þess að binda endi á mótmælin, binda mótmælendurna fyrir vagn sjöflokkanna. Sjöflokkunum etur hann svo saman við maóistana og klýfur þjóðina, deilir þannig og drottnar. Þetta er nefnilega pólitíkus.

Sjöflokkarnir segjast ætla að semja við maóista um að þeir leggi niður vopn. Hljómar það raunhæft? Ekki finnst mér það. Mér sýnist valdastéttin vera komin á sama reit og hún var fyrri 1. febrúar í fyrra: Sjöflokkarnir á þingi og í ríkisstjórn, kóngurinn með vopnavald hins opinbera á sinni hendi, en undir stynur þjökuð þjóð og maóistarnir vinna á, pólitískt og hernaðarlega. Þá er þess næstum því bara að bíða að kóngurinn fái aftur nóg af pólitískri vanhæfni sjöflokkanna og víki þeim frá í nýju valdaráni! (Samt varla; auðvitað haa orðið miklar breytingar á pólitíska landslaginu.)

Áætlun bandalags maóista og sjöflokkanna var að (a) þingmenn sjöflokkanna mundu koma saman, (b) lýsa sig löglegt þjóðþing Nepals, (c) mynda ríkisstjórn óháða kónginum og (d) sú ríkisstjórn mundi síðan semja um vopnahlé við maóista. Síðan yrði (e) haldið stjórnlagaþing og (f) reynt að fá viðurkenningu annarra ríkja, en (g) jafna um gamla ríkið, hvernig sem það yrði gert. Með öðrum orðum, að stofna lýðveldi í Nepal og hrekja kónginn einfaldlega í burtu eins og hund, þ.e. nema þjóðarvilji væri fyrir því að hafa hann áfram, sem Prachanda þótti ósennilegt og er líklega rétt metið hjá honum. Nú hafa sjöflokkarnir brugðist þessu bandalagi. Ætli maóistarnir séu spenntir fyrir áframhaldandi samstarfi? Ég á síður von á því en það kemur í ljós.

Á föstudaginn var rakti ég áhyggjur mínar af nepalska maóistaflokknum og hvort hann væri orðinn að nútíma endurskoðunarsinnaflokki. Á því augnabliki sem kommúnistaflokkur í miðri byltingu segir „þetta er orðið fínt, þetta er næg bylting í bili“, þá hættir hann að vera byltingarsinnaður. Milljón dollara spurningin er, hafa maóistarnir fallið í þá gryfju? Í viðtali 13. febrúar sagði Prachanda að þeir hefðu tekið strategíska stefnu á lýðveldisstofnun. Ber að skilja það svo að það sé sjálft markmið þeirra núna? Hann sagði líka að sósíalismi yrði að bíða betri tíma; Nepal væri of veikburða til að geta verist íhlutun erlendra innrásarherja (það er varla rétt, sbr. Víetnam á sínum tíma).

Það eru ekki nema þrír dagar síðan Prachanda áréttaði þaðstjórnlagaþing og lýðveldisstofnun án tafar, þetta væru kröfur fólksins og maóista. Þeir Baburam Bhattarai gáfu svo frá sér yfirlýsingu í dag, þar sem þeir segja sjöflokkana hafa gert söguleg mistök með því að svíkja samninginn við maóistana og bregðast fólkinu; það eina rétta sé að halda skilyrðislaust kosningar til stjórnlagaþings – þ.e.a.s. án samráðs við kónginn.

En svosem, við hverju var að búast? Hvernig gætu borgaralegir flokkar verið nothæfir sem strategískir bandamenn fyrir byltingarsinna? Taktískir kannski, en strategískir? Með því að bregðast byltingunni á ögurstundu, þá hafa borgaraflokkarnir einmitt gert það sem venjan er að borgaraflokkar geri: Tekið gagnbyltingarlega afstöðu. Ég meina, þetta eru þrátt fyrir allt borgaraflokkar! Hver ætlar að segja mér að Congress-flokkurinn sé byltingarafl? (Ef ég tilbæði Prachanda sem guð mundi ég líklega halda því fram að þetta hafi verið planið frá upphafi!)

Ef það fer sem horfir, að bandalag maóista við sjöflokkana heyri sögunni til, þá er það kannski það sem maóistarnir þurfa til þess að komast á rétta línu aftur (sé gengið út frá því að þeir hafi verið á rangri línu fram að því). Það er þá hins vegar tæpast þeim sjálfum að þakka, og ef þeir voru einu sinni komnir á ranga braut afturhalds, munu þeir þá ekki bara gera það seinna í staðinn, þegar ennþá meira er í húfi? Er þá ekki best að ljúka því bara af?

Ég veit það ekki. Ég spáði því á föstudaginn var að málamiðlun við kónginn væri ekki lengur möguleg, en hún reyndist vera það. Ég ofmat greinilega hollustu sjöflokkanna við fólkið. Mér gæti skjátlast um eitthvað núna líka (já, mér) en eitt þykist ég vita fyrir víst: Frá sjónarmiði byltingarinnar hefur þetta einn ótvíræðan kost, held ég, sem er að þetta skerpir og skýrir víglínuna og spíssar stéttabaráttuna í Nepal. Þegar sjöflokkarnir eru skriðnir aftur í samstarf við kónginn (sem ég held að sé ekki ofmælt að segja ef bandalagið við maóistana heyrir sögunni til), þá er valdið annars vegar: Sjöflokkarnir og borgarastéttin, saman við konunginn og landeigendaaðalinn – fara saman með ríkisvaldið – en hins vegar er fólkið, með maóistana í forystu. Þannig að þrátt fyrir allt er þetta kannski fyrir bestu, á sinn hátt.

Það er svo mikið að gerast, svo mikið skrifað um Nepal, að maður hefur varla við að fylgjast með. Ég má til með að benda á tvær greinar enn, til viðbótar við heimildir og vísanir í textanum: „Nepal: A people's movement grows with fury“ og „Democracy in Nepal: Rucksacks amid the revolution

Fleyg orð vikunnar koma annars frá Bharat Sharma í Kathmandú, sem sagði í viðtali við The Independent: „If the King thinks he can control us with bullets he'd better forget it. This is the 21st century and a king is a rarity, something that belongs in a zoo.

Ég mun fylgjast átekta með gangi mála.

No comments:

Post a Comment