Saturday, April 22, 2006

Gyanendra kóngur í Nepal gefur eftir, réttir út höndina: „Ég vil semja“ segir hann. (Yfirlýsing hans í óopinberri þýðingu.) Þegar valdið vill semja er það búið að tapa. Þegar kóngurinn segist vilja semja er hann að viðurkenna að hann hafi ekki bolmagn til að berja niður andstæðinga sína með meira ofbeldi. Valdamönnum, sem ekki skilja vitjunartíma sinn, þarf stundum að koma frá með öðrum leiðum en friðsamlegum. Það þykir fáum skemmtilegt.
Núna reynir á. Stjórnmálaflokkarnir, maóistarnir og mótmælendurnir hljóta að sjá sér leik á borði til að láta nú kné fylgja kviði. Fyrst konungurinn sýnir veikleikamerki, þá ætti nú að vera lag, sem aldrei fyrr, til að koma honum frá. Milljón dollara spurningin núna er hvort einhver úrslitahlekkur í pólitískri forystu Nepala bregst þegar mest á ríður.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Ríkisstjórn Hins lýðræðislega alþýðulýðveldis Kóreu sakar Bandaríkjastjórn um það alvarlega athæfi að hafa falsað sína eigin seðla til þess að koma sökinni á Kóreumenn!

No comments:

Post a Comment