Wednesday, April 12, 2006

Góð frétt, slæm frétt

Góð frétt: Íranar farnir að auðga úran. Þá má segja að þeir séu einu skrefi sjálfstæðari en þeir voru til skamms tíma. Það er óravegur, frá því að auðga úran, til þess að gera það nothæft í kjarnorkusprengjur. Þess er því enn alllangt að bíða að Íran komi sér upp kjarnorkusprengjum. Sú staðreynd mun hins vegar varla stöðva Bandóðríkjastjórn í að gera loftárásir á landið og berja þennan þjóðfrelsisvilja niður. Helst vildu þeir auðvitað steypa klerkastjórninni og koma upp leppstjórn eins og var til 1979 -- en hér er á ferðinni sama hugsunarvillan og í aðdraganda Íraksstríðsins: Strategísk hugsun nýkóna er of menguð af hugmyndafræði til þess að vera raunsæ. Þeir halda að loftárásir muni geta af sér uppreisnir eða byltingu. Það mun ekki gerast. Það er varla neitt til sem þjappar fólki betur á bak við stjórnvöld, heldur en utanaðkomandi árás. Loftárásir mundu m.ö.o. styrkja Ahmadinejad og félaga í sessi. Ég heyri hann glotta: Make my day, gefið mér tækifæri til að sýna þjóðinni hvað ég er óhræddur!
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Þetta er hins vegar vond frétt -- nei, afleit frétt: Tímaritið Vera hætt að koma út. Það eru alls ekki of mörg vitræn tímarit sem koma út á Íslandi, og nú er einu færra. Ég mun sakna Veru.

No comments:

Post a Comment