Wednesday, April 26, 2006

Chernobyl og Nepal

Í dag eru 20 ár frá Chernobyl-slysinu, sem er með því óhugnanlegasta sem ég veit um. Ég ætla ekki að skrifa mikið um það -- hef svosem ekki neinu sérstöku að bæta við umræðuna -- en vil benda á myndir þaðan; myndaseríuna Land úlfanna frá sveitunum norðanvið Chernobyl; myndir úr safni Greenpeace, og svo linkar Wikipedia-færslan á fjölda síðna með myndum (fyrir utan að þar er hægt að lesa um slysið sjálft).
Sjáið einnig ChernobylInfo, heimasíðu tileinkaða þessu slysi og afleiðingum þess og eftirmálum.
Að þessu sögðu verð ég að segja eitt -- ekki í fyrsta skipti, en það þolir að vera endurtekið: Prypiat er borg sem ég vil koma til -- á sama hátt og ég vil koma til Hiroshima og Auschwitz -- yfirþyrmandi í auðn sinni og þörn -- grafarþögn.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Í Nepal virðist mótmælum hafa linnt að sinni og maóistar hafa aflétt herkví, en segjast bíða fram á föstudag og ætla að sjá hvað verður úr nýja þinginu áður en þeir ákveða næsta skref. Það er m.ö.o. ekki loku fyrir það skotið að þeir gefi því séns. Stjórnlagaþingið vilja þeir hins vegar að verði háð án skilyrða -- þ.e.a.s. að það muni hafa eða áskilja sér vald til þess að svipta kónginn völdum. Það mun varla hafa slíkt vald ef það er boðað af þingi sem situr í sama öndvegi og kóngurinn, eða hvað? Því það verður þannig núna, virðist vera. Hvað voru sjöflokkarnir að spá, að þiggja eitthvað úr hendi kóngsins, viðurkenna vald hans, gefa honum séns? Eins og fram kom í gær, þá á Gyanendra kóngur heima í dýragarði, ekki á hásæti.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Roger Toussaint er dæmdur í fangelsi fyrir að veita verkfallsmönnum forystu í samgönguverkfallinu mikla í New York í desember. WSWS fjallar um málið.

No comments:

Post a Comment