Tuesday, August 17, 2004

Stjórnarandstaðan í Venezuela virðist ekki ætla að láta sér lynda að hafa tapað heiðarlegum kosningum. Hvern hefði órað fyrir því að Jimmy Carter kæmi út úr skápnum sem kommúnisti? Chavez er heimsvaldasinnuðu auðvaldinu einfaldlega óþægur ljár í þúfu. Út af fyrir sig er ekkert að því. Þegar við bætist að hann er rétt kjörinn forseti, þótt hann sé ekki hvítur á litinn. Úr umfjöllun fjölmiðla stendur kannski upp úr það sem Morgunblaðið orðar svona:

Bandaríska utanríkisráðuneytið var nú síðdegis varkárt í yfirlýsingum um atkvæðagreiðsluna en Tom Casey, talsmaður ráðuneytisins hrósaði íbúum Venesúela fyrir mikla kjörsókn og fyrir að atkvæðagreiðslan hefði farið vel fram.



Málið er einmitt, Chavez stendur uppi í hárinu á Bandaríkjastjórn. Man einhver eftir valdaráninu sem venezúelskir herforingjar, efnahagsstórlaxar og bandaríska leyniþjónustan gerðu í apríl 2002? Man einhver eftir vinnustöðvuninni sem venezúelskir atvinnurekendur stóðu fyrir í desember sama ár og létu sem það væri verkfall?

Bandaríska heimsveldinu og samverkamönnum þess í Venezuela var nú að mistakast í þriðja sinn að knésetja Chavez. Svo eru þeir „varkárir“ í yfirlýsingum sínum!

Þegar svipað stendur á og í Venezuela núna, hefur það oft gerst að vinnuveitendur hóta uppsögnum ef óæskilegi pólítíkusinn tapar ekki, og þvinga þannig fylgismenn hans meðal launamanna sinna til að kjósa gegn eigin samvisku. Þessi 41% atkvæða sem féllu gegn Chavez hafa örugglega að minnsta kosti að fjórðungi verið til komin með þeim hætti.

Sumir í frjálshyggjukreðsunni hrópa upp yfir sig að þessi forherti óvinur lýðræðisins, sem hatar sjálfsagt Bandaríkin og vill skemma allt það góða sem við eigum, skuli fótum troða hagsmuni þeirra ríkustu. Mér kemur í hug orðasamband sem reglulegir lesendur kunna að hafa rekið augun í áður. Þessi hópur manna sem í daglegu tali nefnist „þjóðin“ þarf alltaf að vera að ybba sig eitthvað, bara til að trufla elítuna í arðráni heiðarlegri auðsöfnun sinni. Hvers á elítan að gjalda? Hver gaf þessum óræða hópi vafasamra manna einhvern rétt til að ráðskast með þá ríku sem hafa ekkert af sér gert?







Í gær, 16. ágúst, birtir Palestine Monitor stutta en greinargóða umfjöllun um hungurverkfall palestínskra fanga í ísraelskum dýflissum. Ég hvet fólk að sjálfsögðu til að lesa hana!

~~~~~~~~~~~~~~~~~

Ansvíti góð grein eftir Sverri Jakobsson á Múrnum í gær: [F]agrar hugsjónir geta breyst í andhverfu sína í munni hræsnara.

~~~~~~~~~~~~~~~~~

Morgunblaðið greinir frá [leturbreyting mín]:
Alþjóðleg réttindagæslusamtök blaðamanna, Blaðamenn án landamæra (RSF), fordæmdu seint í gærkvöldi ákvörðun írösku stjórnarinnar að vísa blaðamönnum frá hinni helgu borg Najaf, þar sem hart hefur verið barist að undanförnu.


Þarna þykir mér einhver vera að gera alvarlega villu. Ekki í fyrsta sinn og alls ekki óskiljanlega, en grafalvarlega engu að síður. Þeir sem mynda hina svonefndu bráðabirgðastjórn Íraqs eru nefnilega ekki lögmæt stjórn Íraqs og þeir sækja ekki völd sín til Íraqa. Þeir eru leppar Bandaríkjastjórnar, sækja völd sín til Bandaríkjahers og eru og haga sér á allan hátt sem verstu quislingar. Aðal munurinn á Saddam Hussein og Ayad Allawi er sá að Saddam er skeggjaður en Allawi ekki, fyrir utan það að Saddam naut þrátt fyrir allt stuðnings þónokkurs hluta þjóðarinnar, en það er varla hægt að segja um Allawi. Hvað varðar hrottaskap eða pólítíska óskammfeilni er ekki marktækur munur á þeim tveim. Ég minni m.a. á nýlegar fréttir af því er hr. Allawi fór í eigin persónu á lögreglustöð og skaut þar sex fanga eigin hendi til að kenna þeim lexíu. Óskabarn lýðræðisins og réttaröryggisins, hmm?

No comments:

Post a Comment