Saturday, August 21, 2004

Skæruliðar maóista í Nepal halda uppi umsátri um sjálfa Katmandú, höfuðborg landsins. Það hlýtur að teljast til tíðinda. Konungdæmi Gyanendra konungs (tröll hirði þann hund) virðist vera valt í sessi, svo ekki sé meira sagt. Bandaríkin og Bretland hafa dælt í það vopnum til að berjast við maóistana, en þeir vinna hvern sigurinn á fætur öðrum. Ráða milli 40 og 70% af landinu eftir 8 ára borgarastríð og 9.600 manns fallna. Ætli þeir séu við það að taka öll völd í sínar hendur?

~~~~~~~~~~~~~~~~~

Sadr virðist hafa dregið her sinn frá Imam Ali moskunni. Eins og er svo algengt í stríði, þá ber mönnum ekki saman, jafnvel ekki um stór mál. Hver stjórnar moskunni, lögregla írösqu leppstjórnarinnar eða menn ayatollah Sistani? Kannski Mahdi herinn ennþá? Það lítur helst út fyrir að Mahdi herinn sé að víkja fyrir Sistani og mönnum hans. Rök hafa verið leidd að því að Sistani sé einn mikilvægasti maður heims um þessar mundir, sem æðsti klerkur shí'íta í Íraq. Hann hefur frekar haldið sig til hlés, ekki viljað eiga saman við leppstjórnina að sælda, né heldur hernámsliðið. Hann hefur ekki hvatt til ofbeldis, en þó gæti hann fylkt geysilegu liði ef hann kysi það, enda hefur hann mikil og sterk ítök meðal shí'íta. Ef snert væri hár á höfði hans yrðu tugþúsundir manna til að rísa upp, honum til varnar, og það gæti gert útslagið um herför Bandaríkjamanna, hvorki meira né minna.

~~~~~~~~~~~~~~~~~

Það er eitt í opinberu málfari sem styggir mig meira en flest annað. Þegar menn eru teknir fastir fyrir „brot gegn valdstjórninni“ -- er hægt að orða þetta á berorðari hátt? Það sem ég meika ekki við þetta er einfaldlega það sem blasir við í þessum orðum. Ég veit vel af því þegar því er leynt með orðskrúði eða flækjum, en mér finnst „brot gegn valdstjórninni“ svo óforskammað hreinskilið að það setur að mér stugg. Þeir stjórna með valdi. Sá sem streitist gegn valdinu fremur afbrot. Sá sem neitar að láta stjórna sér er afbrotamaður.

Finnst einhverjum öðrum en mér þetta ógeðfellt orðalag?

~~~~~~~~~~~~~~~~~

Halldór Ásgrímsson kom í sjónvarpi og sagði að menn mundu „sakna Siv“ þegar hún hætti sem umhverfisráðherra. Hvað hafa þau unnið lengi saman? Hvað er milli eyrnanna á manni sem kann ekki að beygja nafn náins samstarfsmanns síns? Þessi maður er krónprins Íslands og ríkiserfingi!

~~~~~~~~~~~~~~~~~

Úr tilkynningu frá Háskóla Íslands [leturbreyting mín]:
Spekingar Vísindavefsins, örfyrirlestrar, leikur að ljósi og rafmagni,

furðuverk, farartæki og margt, margt fleira í Öskju,vísindaleikir og Qi gong í

Skeifunni, Spaðarnir í Norræna húsinu. Og loftbelgurinn hans Ara Ólafssonar

svífandi í 30 metra hæð!
Qi gong?? Hvað er Háskólinn að vasast í að boða hindurvitni?? (Lesið „Passaðu þig á qi'inu“.)

~~~~~~~~~~~~~~~~~

Meiri ólánsmaðurinn er Bobby Fischer. Hlustaði á viðtal við hann á Útvarpi Sögu í gær. Það var ekki annað að heyra en manngreyið væri fárveikur. Á geðsmunum. Hugsa sér að bandarísk stjórnvöld skuli ekki telja sig yfir það hafin að níðast á sjúklingum eins og honum, að ofsækja mann sem er ofsóknaróður fyrir! Alla vega, hann kvaðst ekki mundu flytja til Íslands. Ekki meðan bandaríski herinn væri hérna. Þar er komin enn ein ástæðan til að losna við herinn!

No comments:

Post a Comment