Friday, August 27, 2004

Ég held niðri í mér andanum: Það eru stóratburðir að gerast í Najaf í Íraq. Stuðningsmenn al-Sistanis flykkjast þangað í tugþúsundatali en ekki hefur enn komið í ljós hvað al-Sistani ætlast fyrir. Kannski gengur honum það eitt til, að með tugþúsundir stuðningsmanna sinna á götum Najaf hefur hann geysimikið vald yfir borginni. Al-Sistani er friðsemdarmaður. Þótt hann hnykkli pólítíska vöðva sína er mjög ólíklegt að hann beiti þeim til ills. Það var skotið á stuðningsmenn hans og nokkrir féllu. Hver ætli hafi verið þar að verki? Hver hagnast á því að hleypa upp friðsamri göngu þessa valdamikla klerks og stuðningsmanna hans?

Eins og dr. Magnús Þorkell Bernharðsson rakti í góðum pistli sínum fyrir nokkru síðan, þá er al-Sistani sennilega mikilvægasti maður heims um þessar mundir. Í öllu falli með þeim allra merkilegustu. Hvers vegna? Hann þarf ekki annað en að gefa út yfirlýsingu og þá getur hann steypt Íraq í bál og brand - miklu meira en orðið er. Núna býður hann stuðningsmönnum sínum að safnast til Najaf. Hann er ólíklegur til valdbeitingar, en hann hefur feiknaleg völd í krafti áhrifa sinna. Skemmst er að minnast þess, þegar hann smalaði hundruðum þúsunda manna út á götur til friðsamlegra mótmæla, og með því að smella fingri kallaði hann þá aftur af götunum. Slíkt getur ekki hver sem er gert. Með öðrum orðum, Bandaríkjamenn komast ekki hjá því að taka tilliti til al-Sistanis. Allt sem þeir eru að reyna að gera í Íraq veltur á því hvort þeim tekst að halda al-Sistani góðum eða ekki. Hvernig þeim reiðir af í Íraq hefur svo skiljanlega mikil áhrif á margt annað.



Á sama tíma handtekur lögreglan í Najaf fréttamenn, hótar að drepa þá og rekur þá úr borginni. Það liggur í augum upp, hvað þeim gengur til: Fækka vitnunum að því sem þeir hyggjast fyrir. Hvað sem Bandaríkjamenn ætla að fara að gera af sér vilja þeir ekki að augu heimsins (fjölmiðlar) beinist að þeim. Ég efast um að þeir láti til skarar skríða núna þegar al-Sistani er kominn til baka, samt.

~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~

Annars vil ég benda fólki á þetta og þetta. Greinar eftir Sigurð Hólm á Skoðun.is, og umræður um þær, þar sem ég hef vaðið elginn í dag og í gær. Hressileg skoðanaskipti. Hvet fólk til að kíkja á það.

~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~

Stofnfundur „umbótamiðstöðvarinnar“ (í alvöru, það vantar almennilegt nafn!) í Garðastræti 2 í gærkvöldi var vel heppnaður, og betur sóttur en nokkur þorði að búast við. Voru þó margir sem ekki komust. Mér líst vel á þetta verkefni. Býsna vel.

No comments:

Post a Comment