Thursday, August 19, 2004

Í tilefni af frekar líflegri umræðu um jafnréttismál og Framsóknarflokkinn á ýmsum af heldri vefritum (m.a. Sellunni, Vefþjóðviljanum, Deiglunni), þá ætla ég að gera grein fyrir afstöðu minni. Ég er heitur jafnréttissinni og mér finnst gjörsamlega ótækt að konur skuli ekki sitja við sama borð og karlar í þjóðfélaginu, hvað varðar laun, völd og annað. Á hinn bóginn er ég einnig heitur andstæðingur reaktífra og afturhaldssamra lausna („lausn“ er reyndar rangnefni í þessu sambandi), enda eðli þeirra að vera lélegar, tímabundnar og falskar. Glaður skal ég gangast við því að vera femínisti, en það er ekki þar með sagt að ég skrifi undir allt sem allir femínistar segja. Pólítískt séð er er ég, umfram annað, marxisti, og yfirleitt vantrúaður á hvernig borgaralegt afturhald tekur á málunum.

Ef við notum representasjón kynjanna í hinum ýmsu stjórnunarstöðum sem mælikvarða á stöðu kvenna almennt í þjóðfélaginu, og leitumst við að fjölga konum í stjórnunarstöðum handvirkt (t.d. með kynjakvótum), þá breytist útkoma reikningsdæmisins. Ekki vegna þess að staða kvenna hafi almennt batnað í alvörunni, heldur vegna þess að fiktað hefur verið við mælikvarðann. Ég efast um að Löggildingarstofan mundi samþykkja þetta mælitæki. Sem dæmi um þetta má nefna Ráðstjórnarríkin sálugu. Þar var jafnrétti kynjanna bundið í lög = reaktíf jafnréttisstefna. Þegar þau hrundu og lögbundið jafnrétti heyrði sögunni til var launamunur kynjanna heldur ekki lengi að verða mjög mikill aftur. Það var vitanlega vegna þess að jafnrétti kynjanna var haldið með handafli þar. Handafl breytir ekki náttúrulegri tilhneigingu. Þótt náttúran sé lamin með lurk, leitar hún út um síðir, eins og skáldið kvað. Umbæturnar verða að koma neðan frá. Raunverulegt jafnrétti næst ekki nema konur ryðji sér raunverulega til rúms í þjóðfélaginu, taki sjálfar það sem þeim ber og helst að karlaveldið hindri þær ekki í því. Nú gjalda konur vitanlega fyrir ýmsa þætti sem ekki verður hjá komist, s.s. meðgöngu. Ég er fyllilega fylgjandi löggjöf um jafnt fæðingarorlof karla og kvenna og fleira þvíumlíkt sem stuðlar að jafnri stöðu kynjanna. Kynjakvótar eru hins vegar afturhaldssöm nálgun á vandamálið. Það sem þjóðfélagið vantar eru ekki fleiri kvenkyns kapítalistar.



~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~

Í Fort Myers á Flórída: Cops Use Taser Gun On Man Trying To Get Home - lítið á þetta, lögregluofbeldi í Bandaríkjunum færist í aukana. Það styttist í lögregluríkið, gott fólk. Vandsveinar ríkisvaldsins hafa nú þegar fengið óhugnanlega mikil völd yfir fólki. Borgaraleg réttindi eru stórskert og réttaröryggi, friðhelgi einkalífs og fleira horfin eins og dögg fyrir sólu. Það eru ekki lengur mannréttindi að njóta meðfæddra réttinda sinna: Það eru forréttindi. Sá sem nýtur réttinda sinna gerir það ekki vegna þess að hann hafi réttindi heldur vegna þess að yfirvaldinu þóknast að leyfa honum að njóta þeirra. Meðan hann er þægur.

Talandi um það, þá styttist í að tekin verði upp opinber umræða í Bandaríkjunum um national ID skilríki. Ég get varla til þess hugsað að Íslendingar -- hrekklausir sem við erum -- skuli hafa tekið upp kennitölukerfið þegjandi og hljóðalaust. Aðeins svo auðveldara sé að flokka okkur í spjaldskrá og hafa eftirlit með okkur og sortera okkur í andlegar og félagslegar réttir.



~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~

Raven Rock Mountain í Pennsylvaníu hýsir tröllaukið kerfið neðanjarðarbúnkera með leynilegri stjórnstöð fyrir leyniríkisstjórnina sem getur tekið við valdstjórninni í Bandaríkjunum ef eitthvað stórfenglegt kemur upp á. Þar földu Dick Cheney, Paul Wolfowitz og fleiri sig eftir 9/11. Tékkið á þessari síðu sem er tileinkuð þessu mikla fylgsni.



~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~

Ögmundur Jónasson skrifar hreint ágæta grein um forsetakosningarnar í Venezuela, þar sem lýðræðið vann áfangasigur á afturhaldinu nú um helgina.

No comments:

Post a Comment