Wednesday, August 18, 2004

Er bankanum mínum sama um mig?

Þegar ég var lítill gerðist ég viðskiptavinur Búnaðarbankans. Undanfarin ár hefur bankinn tekið upp á því að „strjúka mér öfugt“ eins og það er kallað. Í viðleitni sinni til að vera sniðugur lætur hann mér líða illa. Ég er alveg að fá mig fullsaddan, en af einhverjum ástæðum hangi ég enn á horriminni. Líkast til eru það vanafestan og efinn um að ég finni skárri banka, sem ráða þar mestu um. Ef ég hefði haldið til haga öllu því sem hefur farið í taugarnar á mér við bankann minn væri sá listi eflaust orðinn vænn núna. Ég sé eftir því að hafa ekki gert það. Nokkur atriði sem ég man eftir:

·· Þegar ég frétti að pólskum kunningja mínum hefði verið neitað um lán vegna þjóðernis síns. Mér til undrunar fékk ég það staðfest seinna frá sjálfstæðri heimild, að þetta væri stefna bankans.

·· Þegar ég var, gegn vilja mínum, gerður að viðskiptavini „KB banka“. Mér fannst Búnaðarbankinn alltaf hlýlegur. „KB banki“ er ómanneskjulegt og fráhrindandi bákn og ég er með ofnæmi fyrir honum.

·· Þráfaldlegar útistöður mínar við bankann vegna hvers kyns „misskilnings“ varðandi hvers lags kort. Kort ekki tilbúin á tilsettum tíma, ekki staðið við að hafa þau tilbúin þegar gerð er athugasemd, einkennilegar rukkanir o.fl.

·· Einu sinni vantaði mig upplýsingar sem ég fann hvergi á heimasíðu bankans. Ég sendi því fyrirspurn og fékk ekkert svar. Ég ítrekaði fyrirspurnina og fékk ekkert svar. Sama í þriðja sinn. Þegar ég svo, í fjórða sinn, sendi samrit til milli 25 og 30 manns innan bankans, þar á meðal háttsettra stjórnenda, og lét það fylgja að þolinmæði minni væru takmörk sett, þá loksins fékk ég skjót svör og bljúg. Ég á ekki að þurfa að spyrja fjórum sinnum til að fá upplýsingar um debetkort, fjandakornið!

·· Mér geðjast ekki að afskiptum bankanna af atvinnulífinu, og þar er KB banki ekki barnanna bestur.

·· Sú var tíðin að mér datt í hug að færa viðskipti mín til Sparisjóðanna. Hvað gerist? KB banki kaupir SPRON.



Þá er ótalinn fjöldi ósmekklegra, leiðinlegra, ósannra eða á annan hátt hvimleiðra auglýsinga. Í þeirri nýjustu er fullyrt að allir Íslendingar séu í íslenska landsliðinu í handbolta, og útskýrt að það sé meint á þann hátt að við höldum öll með því. Getið hvað: Ég held ekki með því og ég kæri mig ekki um að vera borinn rógi og mér gerðar upp skoðanir! Ætti ég að sækja þá til saka? Er ég ósanngjarn við bankatetrið? Ef ég er það, þá örlar ekki á samviskubiti hjá mér. Ég hef fengið mig fullsaddan af þessum banka. Fyrir öll sín skammarstrik má Davíð Oddsson eiga eitt: Það var gott hjá honum á sínum tíma að hætta viðskiptum sínum við Búnaðarbankann. Verst hvað ég er framtakslaus og fastur í viðjum vanans.....



~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~

James Dresnok heitir maður sem gerðist liðhlaupi úr bandaríska setuliðinu í Suður-Kóreu 1962 og flúði til Norður-Kóreu. Þar hefur hann búið síðan og unað vel. Um þessar mundir er verið að gera mynd þar sem hann segir sögu sína og gerir grein fyrir Norður-Kóreumönnum og að þeir séu, þrátt fyrir allt, ekki með horn og hala heldur mennskir menn. Lesið þessa grein um myndina. Þessa langar mig að sjá.

~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~

·· „Fighting in Najaf exposes an unpopular, isolated Iraqi regime“ eftir Peter Symonds er frábær grein!

·· Guðmundur Sigurfreyr skrifar býsna athyglisverða grein um vímuefnamál.

·· Grímur Atlason skrifar ágæta grein um strandsiglingar.

~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~

Hinrik Már Ásgeirsson segir réttilega: Stjórnmálamönnum er meinilla við ófyrirséðar afleiðingar frelsis því þeir telja sig ábyrga fyrir því hvernig fólk fer með sitt eigið líf, í grein sem að öðru leyti hefur ekki sérstaklega margt fram að færa. Mér finnst eftirtektarvert hvað ungir jafnaðarmenn minna um margt á unga sjálfstæðismenn í orðavali. Er einhvers konar frjálshyggja orðin að einhvejru normi, eða hvað?

1 comment:

  1. Lán allt að $ 500.000 og lánslínur allt að $ 100.000
    Einföld umsókn, ákvarðanir í mínútum
    Finnst eins hratt og einn virkur dagur ef þú ert samþykktur
    Sölutrygging byggð á viðskiptasjóðstreymi, viðskipta- og einkaeign. Hafðu samband við okkur
    Netfang: atlasloan83@gmail . com
    whatsapp / hangout + 14433459339

    ReplyDelete