Monday, August 23, 2004

Fyrir fáum vikum var allt í ólgu út af lýðræðismálum og hiti í mönnum. Þjóðarhreyfingin hefur ekki haft hátt upp á síðkastið. Varla hefur Ólafur Hannibalsson látur Hannes Dólgstein þagga niður í sér? Annars, hreyfingin segir á heimasíðu sinni: „Lýðræði: Þar sem flestir hafa sem mest áhrif á sem flest mál.“ Hvað á það að þýða?? Það er ekki lýðræði, það er meirihlutaræði. Lýðræði er það að fólk hafi sjálft áhrif á þær ákvarðanir sem koma því við. Hvað kemur það mér við hvort Húsvíkingar vilja byggja sér nýja sundlaug? Svo fremi að ég eigi ekki að borga fyrir hana, þá kemur það mér ekkert við og þá ætti ég heldur ekki að hafa áhrif á það!

~~~~~~~~~~~~~~~

Ef ég var ekki búinn að því, þá vil ég benda á þessa grein á Palestína.is, „Marie og draugarnir“ heitir hún og er eftir Uri Avnery, formanni friðarhreyfingarinnar Gush Shalom, en þýðingin er gerð af mér.

~~~~~~~~~~~~~~~

Ég held að vanmetnasta stétt Íslands séu kennarar. Það er erfitt verk og vandasamt að vera góður kennari, en góður kennari er þyngdar sinnar virði í gulli og gott betur. Er hægt að setja verðmiða á það, hvernig börnin manns eru úr garði gerð? Það er ætlast til mikils af kennurum, vinnuþjakaðir foreldrar ætlast til þess að skólinn ali upp börnin þeirra en eru sjálf vinnandi úti allan daginn og hafa ekki tíma fyrir gríslingana. Hendur kennaranna eru samt bundnar svo þeir geta ekki einu sinni gert það sem til er ætlast. Það er valdatóm í uppeldismálum. Þegar báðir foreldrar eru útivinnandi og kennaranum settar þröngar skorður, hver sér þá um að veita börnum aðhald og uppeldi og kenna þeim það sem þau læra ekki í skólanum? Ég held að þetta sé ekki bara svartagallsraus. Mér finnst að laun og neysla ættu að vera þannig, að laun einnar fullorðinnar útivinnandi manneskju gætu framfleytt einni meðalfjölskyldu. Alla vega, það skiptir miklu máli að vandað fólk sé laðað til kennslustarfa og að kennarar séu ánægðir í starfi. Það ku stefna í kennaraverkfall. Sumir fussa yfir því og tala um hvað það kosti mikið vesen að hafa öll þessi börn heima við og hvað þau verði nú heimsk af því að missa nokkrar vikur úr námi. Ég blæs á það. Það gerir krökkunum ekkert til þótt kennararnir fari í verkfall. Það eru bara foreldrar sem halda að tíma þeirra sé betur varið í launaþrældóm en uppeldi eigin barna. Það, eða alvöru en óþarfur ótti við afleiðingar verkfallsins. Sumir fussa yfir hvað þessir kennarar séu alltaf að færa sig upp á skaftið og eitthvað. Kennarar hafa bara fullan rétt til þess. Þeir eiga betra skilið. Þeir eiga mína samúð alla ef til verkfalls kemur.

Talandi um skólamál, ég er ennþá alveg bit yfir heimskunni í menntamálaráðuneytinu nú í vor, þegar kom í ljós að það var ekki pláss fyrir viðbúinn fjölda framhaldsskólanema. Ekki pláss? Eins og þessi kynslóð hafi dottið af himnum ofan? Kom hún ekki fram á sjónarsviðið fyrir rúmum hálfum öðrum áratug síðan?

~~~~~~~~~~~~~~~

Njósna Bandaríkjamenn um Íslendinga?

~~~~~~~~~~~~~~~

Ég vil benda á þessa grein Ögmundar Jónassonar um land/sjóflutninga og þessa, um Jón Baldvin og ekki-útilokaða endurkomu hans í íslens stjórnmál. Á heimasíðu Ögmundar er auk þess grein eftir Torfa Stefánsson, sem er þess virði að lesa hana...

~~~~~~~~~~~~~~~

Gagnauga.is er komið með nýtt útlit og fyrir höndum er formlegur stofnfundur hinnar róttæku umbótamiðstöðvar í Garðastræti, á miðvikudag klukkan 20. Áhugasamir eru hvattir til að mæta. Heitt á könnunni.

No comments:

Post a Comment