Saturday, May 3, 2008

Dylgjum zíonista svarað

Fyrir hálfu fimmta ári síðan fór ég á góðan og athyglisverðan fyrirlestur um helförina. Fyrirlesturinn varð mér tilefni til þess að blogga, annars vegar um helförina og hins vegar um Gaza-ströndina. Zíonistinn Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson var snöggur til andsvara og lagði út af þessu bloggi í fyrradag (1. maí) á blogginu sínu. Athugasemdakerfið lokaðist auðvitað áður en mér gafst ráðrúm til að leggja þar orð í belg, svo ég svara fyrir mig á þessum vettvangi í staðinn.

Ég nenni hvorki að elta ólar við allar þær dylgjur sem Vilhjálmur hefur uppi um mig, né nenni ég að standa í því að taka fyrir hvern einasta strámann og leiðrétta hann. Meðal þess sem mér er eignað eru stuðningur við Mahmoud Ahmadinejad, vanvirðing við minningu fórnarlamba helfararinnar, sem ég afneita víst líka, og einhver vafasamur tilgangur (allt frá gyðinga- og hommahatri til stuðnings við Hosni Mubarak) með nýafstaðinni ferð á lýðræðis- og friðarráðstefnu í Cairo. Fólk getur lesið þetta fimm ára gamla blogg mitt og svo blogg Vilhjálms og metið sjálft.

Mér finnst það spes þegar mönnum finnst það „öfgamálstaður“ að vilja að Palestínumenn losni undan hernámi og þeirri kúgun, niðurlægingu og öðrum mannréttindabrotum sem því fylgja. Mér finnst minningu fórnarlamba helfararinnar meiri óvirðing sýnd með því að nota hana til að réttlæta nýja hópkúgun, nýja mismunun á grundvelli þjóðernis og ný mannréttindabrot. Sá lærdómur sem við eigum að draga af helförinni er auðvitað „aldrei aftur“ – eða, nánar tiltekið: Aldrei aftur að hleypa kynþáttahyggju eða þjóðrembingi til valda. Mér finnst spes að skilja það ekki.

Mér finnst líka spes að skilja ekki að það sé réttur fólks að veita mótspyrnu þegar það er kúgað. Það er sama hvort heitir Varsjá eða Sobibor eða Gaza eða Jenín eða eitthvað annað. Ég er vitanlega ekki að segja að þetta séu nákvæmlega eins dæmi, heldur að rétturinn til andspyrnu er sá sami. Hugrenningartengslin eru óhjákvæmileg. En það er kannski ekki sama hvort það er Þjóðverji eða gyðingur sem kúgar, eða hvort það er gyðingur eða arabi sem verður fyrir kúguninni. Sú spurning rímar reyndar líka við hvað það virðist skipta Vilhjálm miklu máli hvort menn eru af gyðingaættum eða ekki.

Það eru tvö aðalatriði sem ég vil taka fram: Í fyrsta lagi er Palestína hertekin af Ísrael, ekki öfugt. Andspyrna og andúð eru rökrétt afleiðing hernáms, hvort sem mönnum líkar betur eða verr, og það sem meira er, þá er andspyrna réttur hins kúgaða. Ef menn vilja frið milli Palestínumanna og Ísraela, þá er eina leiðin til þess sú að hernáminu ljúki og sanngirni og réttlæti verði dagskipanin. Í öðru lagi skil ég ekki hvernig vel lesnir menn geta ruglað saman gyðinglegri þjóðernisstefnu (zíonisma) og gyðingum sjálfum, eða skilið andúð á þjóðernisstefnu gyðinga sem andúð á gyðingum sjálfum. Vilhjálmur veit auðvitað betur, en reynir að gera mig tortryggilegan með ódýrum strámanni.

No comments:

Post a Comment