Wednesday, May 28, 2008

Allt að frétta

Í gær fór ég til tannlæknis í þriðja sinn á þrem vikum og á fjórða tímann pantaðan í næstu viku. Hrikalega skemmtilegt, og hagstætt fyrir pyngjuna. Reyndar er nokkuð til í því að það sé skammtilegt. Eins súrrealískt og það hljómar, þá er það mér ávallt tilhlökkunarefni að fara til tannlæknis eftir að ég skipti um tannlækni fyrir nokkrum árum. Við skulum bara segja að það hafi verið ágæt ástæða fyrir því, en í öllu falli er ég mjög ánægður núna. Það skiptir víst máli þegar tannlæknir er annars vegar, ekki satt?
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Í gær tók ég til hendinni heima hjá mér. Það veitti ekki af, en yfrið nóg er ógert enn. Kjallarinn fékk sinn skerf. Eftir aldarlanga búsetu fjölskyldu sem engu hendir getið þið rétt ímyndað ykkur draslið sem safnast upp. Ég vissi til dæmis ekki að Valur -- þið vitið, sem framleiðir Vals-tómatsósu -- hefði framleitt hindberjasaft hér áður fyrr. En ég fann nokkrar þannig flöskur. Ég fann líka gamla flösku af Egils hvítöli -- glerflösku, óátekna. Hún er nú líklega komin fram yfir síðasta söludag eftir nokkra áratugi í kjallaranum, en snotur er hún.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Eins og það er mikið ógert innan stokks, þá er líka mikið ógert utan. áður en garðurinn verður almennilega fínn, þá þarf ég að verja ansi mörgum vinnustundum í honum. Það er sem betur fer með því skemmtilegra sem ég geri. Reyta nokkrar hjólbörur af illgresi, finna fornleifar þegar ég sting upp bæjarhauginn og fylgjast með rófunum og kartöflunum leika sér í matarholunni.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Í gær lauk ég loksins við að skrifa ferðasöguna frá því í júlí-ágúst í fyrra. Ég átti minna eftir af henni en ég hafði áttað mig á. Það var nú planið að birta hana hér. Hún er ansi löng, þannig að ég býst við að ég birti hana í nokkrum pörtum á næstu dögum eða vikum. Ekki seinna vænna, þar sem ferðalag þessa sumars nálgast. Nánar um það seinna. Vonandi samt á þessu ári.

No comments:

Post a Comment