Saturday, May 3, 2008

II. svar mitt til Vilhjálms Arnar Vilhjálmssonar

Eftir að ég skrifaði síðustu færslu (Dylgjum zíonista svarað), þá benti ég Vilhjálmi á hana í kommenti við næstu færslu hans og hann svaraði og ég svaraði honum svo aftur. Á meðan ég bíð eftir að seinna svarið mitt hljóti náð fyrir augum hans, ætla ég mér til gamans að skella þvi hingað líka:


Ég hef nú litið á bloggið þitt áður og ekki hnotið um margt hingað til sem benti til þess að þú styddir málstað Palestínumanna, en gott að vita það. Það kemur mér þá spánskt fyrir sjónir að þú segir það vera Palestínumenn sem fara með ófriði. Hver var það aftur sem hertók hvern í þessu máli?

Styður þú málstað þeirra kannski með því að ráðleggja þeim að þegja og sætta sig við að húsin þeirra, ólífulundirnir, vatnsbólin og mannleg reisn séu tekin af þeim?

Telur þú að herskáir Palestínumenn, með handvopn og fljúgandi þakrennur með sprengiefni inni í, séu aðsteðjandi ógn við Merkava-skriðdreka eða Apache-þyrlur og líklegir til að fylgja digurbarkalegum yfirlýsingum eftir með blóðbaði á strætum Tel Aviv eða Haifa? Hefur hvarflað að þér að hernámið eigi einhvern þátt í því að þeir streitist á móti? Og annað, þú áttar þig á muninum á fyrirbærunum „Ísraelsríki“ og „gyðingar“, er það ekki? Hvernig litist þér á eitt stórt ríki þar sem menn lifðu jafnir og sáttir?

Þú ert væntanlega ósammála Ze‘ev Jabotinsky og kenningu hans um Járnvegginn?

„Holocaust relativism“ hef ég ekki heyrt áður svo ég muni. Ef maður vill taka helförina alvarlega, þá tekur maður hana ekki út fyrir sviga mannkynssögunnar, eins og eitthvað alveg ósambærilegt nokkru öðru. Að eðlinu til hefur verið framin urmull annarra þjóðarmorða, og að umfanginu til nægir að nefna Maó Tse-tung eða Leópold Belgíukonung til samanburðar. Þýsku nasistarnir voru náttúrlega eins og þeir voru, sameinuðu feiknalega umfangsmikið þjóðarmorð, rasískt inntak og eitthvað furðulega grimmdarlegt attitjúd – en þeir voru samt mennskir, og það sem menn gátu gert þá geta menn gert aftur. Það þarf ég varla að segja þér. Þess vegna er það stórhættulegt ef það er bannað að benda á þá til samanburðar. Ekki eins, en sitthvað skylt. Ríki byggt á trú/kynþáttahyggju, kynþáttamisrétti/aðskilnaður, þjóðernishreinsanir og landrán, hóprefsingar – hringir þetta einhverjum bjöllum? Athugaðu að það var ekki ég sem setti samasemmerki, það varst þú sem gerðir það. Ég tjáði bara þau hugrenningartengsl sem blasa við. Það gerir þetta auðvitað alveg sérlega kaldranalegt að það sé fólk af sama trú/þjóðernishópnum og var fórnarlamb einu sinni, sem nú beitir nágranna sína svona hörðu.

Vegna þess að þú hefur skotið að mér nokkrum gyðingahaturs-pílum, þá er best að taka það fram líka að þær bíta ekki á mig. Hins vegar hef ég takmarkaða þolinmæði fyrir skætingi, persónuárásum, dylgjum og útúrsnúnungum, svo ég vildi biðja þig að leggja þessi stílbrögð til hliðar ef þú getur, ef þig langar að rökræða þetta við mig.

Ráðstefnan hefur nú satt að segja ekki eins mikið presens á netinu og hún ætti að hafa, en þú getur fundið eitthvað um hana hér og eitthvað hér. Ég get annars alveg sagt þér ýmislegt um hana ef þú vilt. Þarna voru ýmiss konar vestrænir friðar- og lýðræðissinnar saman við friðarsinna, lýðræðissinna, sósíalista, íslamista, þjóðernissinna og fleiri frá Egyptalandi og fleiri arabalöndum.

Já, og meðan ég man: Í athugasemd við síðustu færslu þína „hótaðirðu“ því að senda einhverjum „sérfræðingum í gyðingahatri“ þessa færslu af blogginu mínu. Blessaður gerðu það, og gleymdu svo ekki að senda afrit til Mossad og Shin Bet, og láttu það líka fylgja að ég sé í „svokölluðu“ Félaginu Íslandi-Palestínu og meira að segja líka í slagtogi við „sjálfhatandi gyðinginn“ Elías Davíðsson.

No comments:

Post a Comment