Sunday, May 4, 2008

Í fréttum er þetta helst...

Tvær ómannaðar njósnavélar til viðbótar skotnar niður yfir Abkhasíu. Rússar og Abkhasíumenn segja báðir að þeir síðarnefndu hafi skotið þær, en Georgíumenn segja Rússa hafa gert það. Ég sé ekki að það breyti miklu. Klofningshéraðið Abkhasía nýtur stuðnings Rússa eftir að Georgíumenn slitu tryggðum við þá og hlupu í fangið á Vesturveldunum, um það er víst ekki deilt. Miðað við að Kosovo fékk að segja skilið við Serbíu á dögunum, er þá hægt að banna Abkhasíu að gera það líka?
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Afmælisbarn dagsins er Hosni Mubarak. Af því tilefni reyndu egypskir aktívistar á Facebook að boða allsherjarverkfall eftir leiðum netsins (sjá frétt). Miðað við vel heppnuð verkföll á borð við þau í Mahalla -- í hittifyrra, fyrra og nú síðast í apríl -- þá virðist árangurinn ekki beint vera mikill af þessu.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Sendiherra Bandaríkjanna í Nepal, Nancy Powell, hefur fundað með Prachanda, formanni maóista. Það markar kannski tímamót. Bandaríkjamenn eru að taka maóistana af lista yfir hryðjuverkasamtök á sama tíma og maóistarnir virðast ætla að ganga nepölsku borgarastéttinni og erlendum fjárfestum alfarið á hönd. Ég vona að mér skjátlist, en það verður tæpast betur séð.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Getur annars einhver bent mér á góða ossetíska orðabók á netinu?

No comments:

Post a Comment