Monday, February 20, 2006

Víetnam í kvöld + Gyanendra vill semja

Í kvöld, mánudagskvöld, mun Sveinn Rúnar Hauksson koma í Snarrót og segja áhugasömum frá Víetnam-nefndinni á Íslandi, sem var og hét á tímum Víetnam-stríðsins. Svein þekkja margir sem formann Félagsins Íslands-Palestínu, með meiru, en hann var einnig formaður Víetnam-nefndarinnar. Áhugasamir velkomnir. Byrjar klukkan 20:00 í Snarrót (sem er í kjallaranum á Laugavegi 21 ef þið vissuð það ekki).

~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Eins og fram hefur komið í fréttum hefur Gyanendra konungur í Nepal „hvatt“ stjórnmálaflokkana til að hefja samstarf að nýju um að „endurreisa“ lýðræði í landinu. Í stuttu máli sagt er þetta veikleikamerki hans; hann er að segja að hann vilji semja. Það er dæmigert fyrir valdið, það hagar sér eins og sýkópati. Stjórnar þeim sem það getur stjórnað, vingast við þá sem það getur ekki stjórnað. Gyanendra finnur að hann er að missa tökin, svo hann vill semja meðan hann hefur ennþá samningsstöðu, semja um eftirgjöf til þess að missa ekki öll völd. Sagan er full af dæmum um svipað. „Við viljum semja.“
Prachanda lýsti því yfir á dögunum, að vegna drýgðra óhæfuverka frá valdaráninu 1. febrúar í fyrra, hefði kóngur fyrirgert möguleikunum á málamiðlun við hann. Þar sem þessi yfirlýsing er ekki nema vikugömul er hún án nokkurra tvímæla í fullu gildi -- í það minnsta fyrir maóistana. Nú er spurningin, freistast þingræðisflokkarnir til að flýja aftur yfir einskismannsland í skotgrafir kóngsins? Eru þeir svo tækifærissinnaðir og óraunsæir að þeir geri það?
Nei, þeir vísa boði kóngsa á bug. Segja það vera sýndarmennsku og af sama toga spunnið og sýndarkosningarnar 8. febrúar. Tilboðið sé semsagt til þess gert að láta kónginn líta vel út. Kannski tilraun til mótleiks gegn einhliða fjögurra mánaða vopnahléi maóista -- misheppnuð tilraun.
Eða hvað? Hvað ef þetta er ekki sýndarmennska heldur sáttaboð í von um að krúnan prýði áfram daunillan skallann á Gyanendra? Í öllu falli lítur þetta út sem veikleikamerki, og það liggur beinast við að túlka það þannig. Í öllu falli er staða kóngsins of veik til að bandalag við hann borgi sig.
Nú, það spilar ekki allt gegn kóngunum. Bandalag sjöflokkanna og maóista frá því í nóvember hefur minni diplómatískan byr í seglin núna en það hafði þegar það kom fram. Moriarty, sendiherra Bandaríkjanna, hefur gefið út yfirlýsingu sem greinilega er hugsuð til að rekja fleyg milli þeirra. Sjá t.d. þessa frétt.
Þá er það stærsta fréttin: Maóistar boða allsherjarverkfall frá og með 3. apríl -- ótímabundið. Næstu þrjár vikur á udnan -- frá 14. mars -- munu þeir undirbúa verkfallið með því að loka vegum og öðru slíku. Allsherjarverkfall, það er ekkert annað. Fyrirtæki lokuð, skólar, samgöngur. Þeir hafa enn fremur skorað á landa sína að hætta að greiða krúnunni skatta, og á lögreglumenn og hermenn að gerast liðhlaupar og ganga í lið með byltingunni.
Svo er núna talað um takmarkað viðskiptabann.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Í dag hefði Bela Kun orðið 120 ára, hefði hann lifað.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Al-Sadr er ekki af baki dottinn, virðist vera. Hótar báli og brandi ef Bandaríkin ráðast á Íran eða Sýrland.

No comments:

Post a Comment