Tuesday, February 14, 2006

Eitt og annað

Ég held það megi vel una við niðurstöðuna í prófkjöri Samfylkingarinnar. Já, ég tók þátt í því. Er rangt að taka þátt í prófkjöri hreyfingar sem maður er ósammála í grundvallaratriðum? Það er nú það. Ef prófkjörið er opið, þá getur það varla verið rangt, eða hvað? Hefði ég þá átt að taka þátt í prófkjöri Framsóknarflokksins, með sömu rökum?
=== === === ===
Hópur hernaðarsérfræðinga varar við árásum á Íran. Ég held það megi taka undir það. Fyrir utan að árásarstríð ku vera glæpur gegn mannkyni og að manndráp eru röng í sjálfu sér, þá held ég að það væri hreint og beint heimskuleg hugmynd. Íran er nefnilega ekki árennilegur andstæðingur.
=== === === ===
Paradise Now er mynd sem ég ætla að sjá. Eftir lestur nýlegrar greinar þar sem meistari Uri Avnery fjallar um hana (varúð, hann segir frá plotti og endi) er ég viss um að hún er þess verða að sjá í kvikmyndahúsi.
=== === === ===
Morales hefur gert kunnugt hverjir skipa ráðuneyti hans.
=== === === ===
Nepal: Stjórnmálaskýrendur segja að hinar gjörsamlega misheppnuðu „kosningar“ síðasta miðvikudag séu pólitískt reiðarslag fyrir kónginn. Opinberar tölur greina frá um 20% kjörsókn, en til samanburðar var um 60% kjörsókn í síðustu kosningum, árið 1999. Af sætum sem kosið var um eru víst 54% auð ennþá! Gyanendra kveðst því ætla að efna til nýrra kosninga! Ætli hann hafi ekki fengið nóg af niðurlægingu?
Sher Bahadur Deuba, síðasti kjörni forsætisráðherra Nepals, sem sviptur var tign og stungið í steininn eftir valdaránið í fyrra, gefin spilling að sök, hefur verið látinn laus eftir úrskurð um að nefndin sem dæmdi hann hafi verið ólögleg.
Það hefur varla farið framhjá reglulegum lesendum þessarar síðu hvaða tilefni var í gær. Af því tilefni braut Prachanda formaður odd af oflæti sínu og veitti sjónvarpsviðtal við BBC. Það má lesa í heild sinni hér. Sjónvarpsviðtalið markar tímamót; þótt formaðurinn fari enn huldu höfði, þá telur hann sér greinilega óhætt núna að andlit hans sé þekkt. Það segir nú eitthvað um stöðu maóista, ef sjálfstraustið er þetta.
=== === === ===
Ég trúi þessu ekki, Bretar virðast vera að fara að taka upp nafnskírteini, „sem stjórnvöld segja að muni auðvelda baráttuna gegn glæpa- og hryðjuverkamönnum.“ -- þetta er elsta afsökun í bókinni: Að segja að eftirlitið og valdstjórnin séu til að vernda almenning -- það er, í einu orði sagt, bull. Eftirlit og valdstjórn vernda valdið. Ég skil ekki hvernig almenningur kaupir svona margtuggið yfirskyn aftur og aftur. „Nafnskírteinin eiga að vera hátæknileg með ýmsum lífkennum.“ Piff, svei.

No comments:

Post a Comment