Monday, February 13, 2006

Tíu ár af stríði fólksins

Í dag er merkisdagur. Þennan dag fyrir tíu árum -- 13. febrúar 1996 -- hóf Kommúnistaflokkur Nepals (maóistar) Stríð fólksins undir forystu Prachanda formanns og Baburam Bhattarai. Á þessum tíu árum hefur mikið vatn runnið til sjávar og mjög er orðið ólíkt umhorfs í Nepal. 1996 réð ríkjum Birendra konungur, og í skjóli hans sat kjörin ríkisstjórn. Misrétti var mjög mikið, erfðastéttakerfi, lénsveldi og fátækt. Maóistar einsettu sér að afhjúpa hið sanna eðli ríkisins og ganga um leið milli bols og höfuðs á því. Uppreisn hófst í afskekktum sveitahéruðum, og óx smám saman ásmegin. Friðarviðræður við ríkisstjórnina reyndust árangurslausar og ríkisvaldinu tókst ekki að brjóta uppreisnina á bak aftur með vopnavaldi.

1. júní 2001 var Birendra konungur drepinn ásamt mestallri fjölskyldu sinni. Dipendra krónprins var kennt um ódæðið, en hann lést sjálfur af sárum fáum dögum seinna -- sárum sem hann hafði átt að hafa veitt sér sjálfur. Þetta er opinbera sagan. Í Nepal telja margir að þetta hafi ekki verið einhver fjölskylduharmleikur, heldur hafi erlendir sérsveitarmenn verið að verki. Hvers vegna? Jú, Birendra og stjórn hans gekk ekki að halda aftur af uppreisnarmönnunum, og í staðinn þurfti harðari konung:
Gyanendra Shah tók við stjórnartaumum, yngri bróðir Birendra konungs, harður í horn að taka. Undir vernd hans sat áfram kjörin ríkisstjórn og áfram héldu friðarumleitanir við maóista og barátta gegn þeim. Mannfallið fór vaxandi. 2002 lýstu maóistar því að þeir væru komnir af stigi strategískrar varnar og hefðu náð stigi strategísks jafnvægis. Hverri ríkisstjórninni á fætur annarri mistókst að semja um frið, og voru látnar taka pokann sinn. Síðasti kjörni forsætisráðherra landsins var Sher Bahadur Deuba. 1. febrúar 2005 var hann rekinn frá völdum (og fangelsaður) og Gyanendra tók sér alræðisvald. Málfrelsi, prentfrelsi og fundafrelsi voru skjótlega afnumin. Hreint lögregluríki tók við af því stjórnarfari sýndarlýðræðis sem áður var. Nepalska valdastéttin stóð afhjúpuð með nakið sverðið. Landeigendur, fámenn elíta og heittrúaðir hindúar studdu kónginn en margir fátækir bændur og verkamenn maóista. Þingræðisflokkarnir, pólitískur fulltrúi óburðugrar borgarastéttar, voru settir út í kuldann. Sýnt var að hið svokallaða lýðræði í Nepal hafði staðið á brauðfótum. Hvernig er hægt að tala um að alvöru lýðræði þrífist í pólitísku skjóli einvaldskonungs?

Svo vildi til, að um sömu mundir og konungur tók sér alræðisvald, varð klofningur í maóistaflokknum. Vegna mikilla sigra misserin á undan hafði félögum fjölgað mjög ört og flokkurinn leið fyrir pólitíska þenslu. Ekki hafði tekist að mennta nýja félaga eins hratt og þeir voru teknir inn, og misbrestur varð á flokksaga. Baburam Bhattarai var rekinn úr flokknum og flúði land. Eftir heiftúðugar yfirlýsingar á báða bóga slíðruðu þeir Prachanda sverðin og flokkurinn sameinaðist aftur, sterkari en áður. Á eftir fylgdi erfið en nauðsynleg sjálfsendurskoðun.

Næstu mánuði eftir valdatökuna var barist sem aldrei fyrr. Konungsmönnum sóttist í fyrstu heldur betur, en stríðsgæfan snerist þeim þó fljótlega í óhag. Er hér var komið sögu -- síðasta sumar -- réðu maóistar milli 50 og 80% ríkisins (að flatarmáli) og vald konungsins var ekki óskorað nema í stærri borgum og virkjum.

Í september lýstu maóistar yfir einhliða vopnahléi. Þetta kom flatt upp á konung og menn hans. Konungur aflýsti ávarpi við Allsherjarþing Sameinuðu þjóðarinnar. Það hefði enda verið hrein auðmýking, þar sem öllum er ljóst að hann er rúinn stuðningi þjóðarinnar, ekki síst eftir að maóistar og þingræðisflokkarnir sjö tilkynntu í október að þeir hefðu náð samkomulagi um að stefna að lýðveldisstofnun og nýju stjórnlagaþingi.

Hinu þriggja mánaða vopnahléi var ekki svarað með gagnkvæmu vopnahléi af hálfu konungshersins, en í byrjun desember tilkynnti Prachanda að vopnahléð yrði framlegnt -- aftur einhliða -- um mánuð enn. Þar sem konungsmenn héldu enn uppi árásum gátu maóistar ekki setið þegjandi lengur og framlengdu vopnahlé sitt ekki aftur. Miklir bardagar hófust; yfir 60 féllu í janúar 2006.

Konungur vildi ljá einræði sínu lýðræðislegan blæ, svo hann boðaði til sveitarstjórnakosninga 8. febrúar sl. Í þessu skrumi tóku nepalskir lýðræðissinnar ekki þátt, heldur sniðgengu kosningarnar og beittu sér gegn þeim af alefli. Maóistar lýstu fyrir fjögurra daga allsherjarverkfalli og í áhlaupi þeirra á virki í vestanverðu landinu feldu þeir um 20 af konungsmönnum. Kosningaþátttaka var með því minnsta sem um getur, aðeins nokkur prósent. Kosningarnar voru enn ein auðmýkingin fyrir konunginn.

Núna lítur landslagið svona út: Konungurinn stendur pólitískt nakinn á berangri og aðeins tímaspursmál hvenær hann fer í útlegð eða verður tekinn af lífi. Maóistar eru greinilega komnir á stig strategískrar sóknar og vald þeirra er orðið slíkt að Prachanda formaður hefur komið fram á nýjum ljósmyndum eftir að fara huldu höfði árum saman. Þingræðisflokkarnir skilja að maóistar hafa mátað kónginn og hans vitjunartími er kominn og maóistar skjila að óraunhæft er að ætla að koma á sósíalisma í Nepal samtíðarinnar. Bandalag maóista og þingræðisflokkanna er því næsti handhafi pólitísks valds í Nepal.

Þeir stefna að því að gera eftirfarandi: Þingræðisflokkarnir, sem ráða um 2/3 þingsæta á gamla þinginu, kalli saman þingið, þingið lýsi sig réttmætt þjóðþing Nepals og myndi bráðabirgðaríkisstjórn með stuðningi maóista. Bráðabirgðaríkisstjórnin og maóistar semji um frið sína á milli og kalli eftir pólitískri viðurkenningu alþjóðasamfélagsins. Gengið verði milli bols og höfuðs á konungdæminu og her maóista renni eftir það saman við lýðræðislegri element af konunglega hernum. Að því búinu verði boðað til nýs stjórnlagaþings og nepalska ríkið gert upp.

Í dag, þegar skyggnst er yfir völlinn, má sjá að nepalska konungdæmið hefur dagað uppi og það á ekki langt eftir. Það hyllir undir frið og lýðveldisstofnun í Nepal og að lýðræðissinnaðir Nepalir fái næði næstu árin til að byggja upp innviði landsins og efnahagskerfi.

Af þessu tilefni verðu Nepal-kvöld í Snarrót, kjallara Laugavegar 21 (kjallara), í kvöld milli klukkan 20:00. og 22:00. Sýnt verður í mynd sem maóistar gáfu út á 8 ára afmæli stríðs fólksins og málin verða rædd. Látið endilega sjá ykkur.

No comments:

Post a Comment