Thursday, February 2, 2006

Nepal, álver og fleira

Sjitturinn, gullverðið hækkar bara og hækkar! Stendur nálægt 570$$/oz en var um 440$$/oz fyrir hálfu ári. Við vitum hvað það þýðir, kreppa í nánd. Ef einhvern tímann var til trúverðugur mælir á yfirvofandi kreppu, þá fyrirfinnast varla sterkari kandídatar en gullverðið.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Á meðan Gyanendra klappaði sjálfum sér kumpánlega á bakið í 1. febrúar-ræðu sinni gerðu maóistar árás sem heppnaðist ekki bara vel sem pólitísk auðmýking fyrir kóngsgarminn, heldur líka sem hernaðaraðgerð: Eftir að rykið settist kom á daginn að þeir höfðu á brott með sér eina 26 gísla, að minnsta kosti, þar á meðal héraðsstjóra Palpa-héraðs, þar sem árásin var gerð. Jafnframt halda þeir áfram að reyna að koma í veg fyrir að málamyndakosningar til sveitarstjórna fari fram skv. áætlun 8. febrúar, hafa drepið einn frambjóðanda, sært annan og sprengt hús a.m.k. þriggja. Á meðan heitir kóngur „lýðræði“, samtímis því sem kónar hans loka lýðræðissinnaða mótmælendur í fangelsi! Hér er spurning: Er ekki eitthvað bogið við það að valdstjórnin hóti lýðræðissinnum kosningum og lokið þá inni í fangelsi?
Maóistar skora á her og lögreglu Nepals að virða vilja fólksins og hætta að ganga erinda nátttröllsins Gyanendra.
Asian Centre for Human Rights birta greinargerð um eins árs óstjórn konungsins og bera honum ekki fagra söguna. Hann virðist alveg hafa spilað rassinn úr buxunum. Kannski ekki við öðru að búast. Einræðið er að daga uppi eins og nátttröll þótt það þekki ekki sinn vitjunartíma, frekar en önnur anakrónísk stjórnarform. Það er ekki að ástæðulausu sem talað er um stéttabaráttu.
Aftur vil ég minna á orð dr. Baburam Bhattarai: „Hamar og sigð munu blakta yfir Everestfjalli.“
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Bush hefur í heitingum. Ég er að reyna að böggla mér í gegn um þessa ræðu en það er hreint ekki auðvelt.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Anna Margrét Björnsson skrifaði í Fréttablaðið 29. janúar (s. 26) um þessa fáheyrðu könnun sem IMG Gallup gerði fyrir álþursaauðvald.
„Er hægt að sætta umhverfissjónarmið og álframleiðslu?“ „Eruð þið hlynnt vatnsaflsvirkjunum?“ Báðar þessar spurningar eru ósæmandi fyrir könnun sem á að taka alvarlega. Auðvitað er hægt að sætta umhverfisverndarsjónarmið og álframleiðslu. Það er bara ekki gert. Vatnsaflsvirkjanir sem slíkar eru mér alveg að skapi en Kárahnjúkavirkjun og aðrar heimskulegar, mengandi, valdníðslulega skipulagðar og á annan hátt óásættanlegar virkjanir eru það ekki! Svo einfalt er nú það. Strangt til tekið hefði svar mitt við báðum þessum spurningum því verið játandi en túlkunin verið þveröfug í munni villimannanna sem eru að eyðileggja ættjörðina.
Áróðursmerðirnir sem semja spurningarnar vita vel hvað þeir eru að gera: Orða spurningarnar þannig að þeir fái niðurstöðuna sem þeim líkar.
Ég lýsi frati á málflutning sem styðst við óheiðarlegar kannanir og óheiðarlega úrvinnslu á þeim.
Það er gott hjá Önnu Margréti að vekja máls á þessu. Þetta er óþolandi og ólíðandi.

No comments:

Post a Comment