Wednesday, April 27, 2011

„Víðsýni“ eða bara venjuleg tækifærismennska?

Steingrímur J. Sigfússon kallar eftir „víðsýnni“ umræðu um Evrópusambandið og frábiður sér þröngsýni á borð við þjóðrembu, sérgæsku og einangrunarsjónarmið. Nú ætla ég hvorki að taka upp hanskann fyrir þjóðrembu né sérgæsku, né fara að túlka hvað „einangrun“ þýðir – en hann vill heldur ekki að við séum að draga einhverjar ályktanir af útreiðinni sem ESB veitir Írum, Grikkjum og Portúgölum. Hann um það.

Það fer um mig hrollur þegar Steingrímur talar um að „ljúka verkinu“ – þegar „verkið“ er endurreisn auðvaldsins. Það skýtur skökku við, að þykjast gagnrýna „markaðsvæðingar- og stórfyrirtækjahagsmuni Evrópuveldanna“ – þegar maður hefur sjálfur einkavætt bankana upp á nýtt, látið Magma-málið ganga sinn gang og sóað milljörðum í Sjóvá, svo fátt eitt sé nefnt. Það gremst sumum að verkin sækist seint hjá ríkisstjórninni – en í mörgum stórmálunum mættu þau alveg sækjast seinna mín vegna. Aðlögunin að ESB er ágætt dæmi um mál sem má dragast sem mest. Helst niður á hafsbotn.

Í minni heimasveit var það kallað tækifærismennska, að segja eitt og gera annað. Og þegar menn tala í eina átt þegar þeir eru í stjórnarandstöðu, hegða sér í hina áttina þegar þeir fá völd, og réttlæta allt saman með tali um „raunsæi“ og „ábyrgð“, þá hljómar það ekki eins og raunsæi eða ábyrgð í mínum eyrum, heldur einföld, gamaldags tækifærismennska. Að gefa sig út fyrir að vera andstæðingur ESB-aðildar en (a) greiða atkvæði með umsókn, (b) þykjast ekki vita hvað aðild felur í sér og (c) tala gegn öðrum ESB-andstæðingum – hvað er það annað en tækifærismennska? Ætlast maður sem gaf eftir eitt mikilvægasta vígið í baráttunni gegn ESB-aðild, til þess að sér verði treyst fyrir forystu í úrslitaorrustunni? Þegar Steingrímur kórónar þennan pistil með kokhraustum viðvörunum gegn því að „sundra röðum samherja“ – er þá nema von að maður spyrji, hverjir það eru sem eru samherjar í þessari baráttu?

Hleypum ekki erlendu glæpahyski inn í landið

Þegar erlendir glæpamenn koma til landsins skiptir miklu að viðeigandi ráðstafanir séu gerðar til að taka á móti þeim. Nú þyrfti að rýma til í Njarðvíkurskóla, því "sendinefnd" einhverra stærstu glæpasamtaka heims er væntanleg í kvöld. Þessum óaldaseggjum á að taka á móti með tveim hrútshornum:

Glæpasjóðsins sendinefnd
sæmum gjafavöru:
Ætti að verða endursend
öll í fiðri og tjöru.

Skynsamlegir fjárfestingarkostir

Þegar maður kaupir fyrstu röðina í lottóinu eða fyrsta miðann í happdrættinu, þá aukast vinningslíkurnar úr því að vera engar, upp í að verða dálitlar. Hlutfallslega er það óendanlega mikil aukning á vinningslíkum. Þess vegna er fyrsti röðin/miðinn besta fjárfestingin, og allt umfram það er peningasóun í samanburði.
~~~ ~~~ ~~~
Eins og ég hef nefnt áður er gangverð á gulli sennilega einfaldasti mælikvarðinn á horfurnar í efnahagsmálum heimsins. Það sló heimsmet nýlega og hefur bara farið hækkandi síðan. Það er tæpast til betri fjárfesting, ef undan er skilin ein röð í lottóinu.

Wednesday, April 13, 2011

Vantraust á stjórnarandstöðuna

Ég get ekki sagt að ég treysti ríkisstjórninni, nema þá með neikvæðum formerkjum. En í svipinn er ekkert skárra stjórnarmynstur í sjónmáli, þannig að ef ég væri alþingismaður mundi ég hiklaust verja ríkisstjórnina vantrausti. Það væri eiginlega meiri ástæða til að samþykkja vantraust á stjórnarandstöðuna. Eiginlega væri ástæða til að gera byltingu gegn henni, ef það væri hægt. Vantraust á stjórnmálamenn er mjög mikið og mjög stór hluti kjósenda sem segist ekki vera ánægður með neinn flokk. Það getur hver sem er túlkað það eins og hann vill, en ég ætla að leyfa mér að túlka það þannig að það séu ekki stjórnmál sem slík, heldur borgaraleg stjórnmál sem hefur þrotið erindið.

Kosningasigur Besta flokksins sl. vor var harkalegt öskur á breytingar, sem verða ekki framkvæmdar með borgaralegum aðferðum. Besti flokkurinn hefur rekið sig á þann sama vegg og allir hinir flokkarnir. Borgaraleg stjórnmál eru komin að endimörkunum; vandamálin sem við stöndum frammi fyrir verða ekki leyst öðruvísi en með stéttabaráttu. Það þýðir að borgaralegu stjórnmálaflokkarnir eru beinlínis ófærir um að leysa málin. Ég túlka hina útbreiddu óánægju með öðrum orðum þannig, að hér sé orðið til pláss fyrir flokk sem er reiðubúinn til að leggja til atlögu við auðvaldsskipulagið.

Afskiptasemi Samtaka atvinnulífsins

Það er hrein móðgun við opinbera starfsmenn, þegar Samtök atvinnulífsins setja fram kröfur um að laun þeirra séu ekki hækkuð eða að lífeyriskjör þeirra verði skert. Kannski að BSRB-félögin ættu bara að semja beint við SA? Meðvirkni Alþýðusambands Íslands, að taka undir kröfur SA eða láta það afskiptalaust að þau blandi þeim inn í viðræðurnar, er varla hægt að kalla annað en firn mikil, svo ég taki ekki dýpra í árinni. Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn, vinur litla mannsins, krefur ríkið um að halda útgjöldum í lágmarki, en það þýðir ekki síst að sýna hörku í kjaraviðræðum. Fyrir mánuði sagði Steingrímur J. Sigfússon að eigendastefna ríkisins fæli í sér "hófsemd í launamálum". Hann sagði það um bankana, en það þarf ekki sterk gleraugu til að sjá að hið sama gildir um annað starfsfólk og ríkisins.

Monday, April 11, 2011

Hver er "réttkjörinn" forseti Fílabeinsstrandar?

Hver fjölmiðillinn étur upp eftir öðrum að í forsetakosningunum á Fílabeinsströndinni hafi illvirkinn Gbagbo tapað, en mótframbjóðandinn Ouattara, frv. starfsmaður AGS með meiru, verið "réttkjörinn". Ja, ég er ekki svo viss. Hvað ef hagsmunir heimsvaldasinna hafa, aldrei þessu vant, eitthvað með málið að gera? Lesið þessa grein á WSWS eða þessa grein í Lalkar til að fá nasaþef af öðru sjónarmiði. Það skyldi þó aldrei vera.

Sunday, April 10, 2011

Ríkisstjórnin og IceSave, tvennt ólíkt

Ég heyri víða fólks segja að margir hafi kosið "nei" í gær til þess að lýsa vanþóknun sinni á ríkisstjórninni. Ekki efa ég að það hafi haft sín áhrif. En af einhverjum ástæðum hef ég ekki heyrt hina hliðina nærri því eins oft: Að fólk hafi kosið "já" til þess að styðja ríkisstjórnina. Ég er ekki í vafa um að það hefur líka haft sín áhrif. Að minnsta kosti þekki ég fólk sem ég veit að nálgaðist þetta þannig. Það er auðvitað ómögulegt að meta stærð þessara hópa, þótt það væri fróðlegt.

Ég hef ekki nennt að fylgjast með allri þessari endalausu umræðu um IceSave-málið nýlega. Mér finnst lítið interressant að velta fyrir mér málalenginum samningsgreinum, spádómum um vexti eða túlkun á lögum, sem annar hver maður virðist vera orðinn sérfræðingur í. Kjarni málsins er miklu einfaldari en ætla mætti af umræðunni: Ranglátar skuldir á ekki að borga. Og ranglátum lögum eða dómum á heldur ekki að hlýða. Það er bara ekki siðlegt að taka þátt í ranglæti.

Afstaðan til IceSave á ekki að mótast af afstöðunni til ríkisstjórnarinnar, og því síður af afstöðunni til stjórnarandstöðunnar, hvað þá ritstjóra Morgunblaðsins. Ég er í sjálfu sér á móti öllum borgaralegum ríkisstjórnum, en á meðan enginn skárri valkostur er í sjónmáli sé ég ekki ástæðu til að fella þessa og sjá svo bara hvað gerist. Það þarf bara að taka málefnin fyrir hvert fyrir sig. Ferill núverandi ríkisstjórnar hefur í aðalatriðum ekki verið glæsilegur og hvert málið rekið annað sem ber að berjast gegn á hæl og hnakka.

Sýnið mér félagslega framsækna stefnu í efnahagsmálum, húsnæðismálum, velferðarmálum o.s.frv. og ég skal styðja hana. Haldið áfram að sýna auðvaldinu auðsveipni, og ég skal leggja steina í götu ykkar.

Ábyrgðin á auðvaldinu

Í eðlilegum skilningi orðsins "ábyrgð" bera bankamenn fyrst og fremst sjálfir beina ábyrgð á gjörðum sínum. Stjórnmálamenn og eftirlitsstofnanir bera líka sína ábyrgð, fyrir að búa í haginn fyrir bankamennina, ýmist með verkum sínum eða vanrækslu. En hvað með almenning? Ber almenningur ábyrgð? Já og nei: Ekki beina, en á sinn hátt óbeina. Óbeina ábyrgðin sem allt venjulegt fólk ber, er sú að hafa ekki látið sig varða að hagkerfið væri vitskert og með innbyggða siðblindu. Það er að segja, að hafa ekki fyrir löngu tekið málin í sínar hendur með því að gera byltingu og byggja upp réttlátt og skynsamlegt þjóðfélag. Jæja, segjum að við berum öll þessa (óbeinu) ábyrgð á atburðarás síðastliðinna ára. Hvað ber þá að gera núna? Það er kjarni málsins: Það á ekki að halda áfram meðvirkninni við kröfur óseðjandi auðvalds, heldur sýna þá ábyrgð að afleggja loksins auðvaldsskipulagið og skipuleggja þjóðfélagið upp á nýtt. Það væri ábyrgt. Annað er ekki ábyrgt.

Saturday, April 9, 2011

Að kyssa vöndinn

Þegar ósanngjarnir og pedagógískt vitlausir foreldrar flengdu börn sín í gamla daga, létu þeir þau stundum kyssa á vöndinn á eftir, til þess að hámarka niðurlæginguna. Í mínum augum er já-atkvæði í IceSave-kosningunni sambærilegt. Að samþykkja ranglætið er að kyssa vöndinn. Fari það svo á endanum, að þessar ranglátu skuldir verði ekki umflúnar, þá skal það aldrei verða með mínu samþykki.

Friday, April 8, 2011

Ályktun Rauðs vettvangs um IceSave

Íslenskur almenningur stofnaði ekki til IceSave-skulda og á ekki að borga þær. Fjármálaauðvaldið getur átt sínar skuldir sjálft. Almenningur á Íslandi og almenningur í Bretlandi og Hollandi ætti að berjast sameiginlega gegn sameiginlegum óvinum sínum í bönkum, ríkisstjórnum og öðrum valdastofnunum heimsvaldasinnaðs fjármagns. Höfnum IceSave í þjóðaratkvæðagreiðslunni 9. apríl!

Wednesday, April 6, 2011

Fyrirsögn dagsins?

Já, ætli RÚV eigi ekki fyrirsögn dagsins: 10 hnökkum stolið á Selfossi.

Vísa um skammtímastefnu í efnahagsmálum

Fjármálaauðvaldsins taktu tjón
-- annars trylltur múgur mun ná þér --
og farðu og troddu því, feiti þjón,
upp í fjárlagagatið á þér.

Tileinkað þeim sem vilja þjóðnýta bankahrunið.

Friday, April 1, 2011

Aðalfundur SFR

Fyrir utan að flestar mínar tillögur voru felldar eins og venjulega, þá var samt ekki dónalegt á aðalfundi SFR á þriðjudaginn.