Thursday, June 5, 2008

Ferðasaga 2007, II. hluti

Vegna lengdar birti ég þessa frásögn í nokkrum hlutum. Fyrsti hluti birtist á mánudaginn var, hér er annar hluti og restin birtist fljótlega.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~


Áttunda ágúst fórum við fyrst og skoðuðum frægan klukkuturn, þar sem beinagrind hringir bjöllu á heila tímanum og síðan opnast tvær lúgur þar sem allir postularnir kíkja út, ein á eftir öðrum. Ansi hreint flott. Svo fórum við og fengum okkur að éta á veitingahúsi; ég fékk mér gúllassúpu sem var aðallega búin til úr fitu. Við fórum svo á „Kommúnistasafnið“, sem er eitt lélegasta safn sem ég hef augum litið. Gott og vel, ég skil að margir Tékkar líti til fortíðarinnar með beiskju yfir mörgu, en þetta safn stillti dæminu upp eins og sósíalismi væri heimskur og illur í heild sinni. Allt var á sömu bókina lært: „Karl Marx setti fram róttækar hugmyndir um samfélagsmál, og þegar reynt var að framkvæma þær dóu tugmilljónir manna“ – „Lenín var valdaræningi sem sveifst einskis til að halda í illa fengin völdin“ – „Kommúnistarnir nýttu sér örvæntingu fólks til þess að gabba það og ógna því til að kjósa sig“ – og svo framvegis. Af safninu mátti til að mynda skilja að þáttur kommúnista í andspyrnuhreyfingunni gegn nasismanum hafi einungis verið ætlaður til að ræna völdum eftir stríðið, og að fólki hafi ýmist staðið stuggur af þeim eða verið svo heimskt að trúa áróðrinum. Aðeins ein hlið var kynnt til sögunnar, og hvergi nefnt t.d. að hin sósíalíska Tékkóslóvakía hafi séð íbúum sínum fyrir ókeypis menntun og heilbrigðisþjónustu, lækkað ungbarnadauða eða gert annað gott. Framfarir í landbúnaði eða iðnaði fengu dóma vegna mengunar og kemísks áburðar, sem enginn hugsaði út í þá vegna þess að mestu skipti að fólk fengi nauðsynjavörur. Í stuttu máli var áróðurinn óþekkjanlegur frá áróðri ríkisstjórnar Tékkóslóvakíu í Kalda stríðinu, nema hvað hann var með öfugum formerkjum. Margt má finna að stjórnskipan Tékkóslóvakíu í Kalda stríðinu, en einhliða heimsvaldasinna-áróður er kannski versta leiðin til þess.
Ég skrifaði heila, þéttskrifaða blaðsíðu í gestabókina, þar sem ég húðskammaði aðstandendur þessa heimskulega safns fyrir einhliða áróður, og bætti því við að mér þætti gaman að vita hvaða útsendarastofnun afturhalds eða heimsvaldastefnu hefði skipulagt það og fjármagnað. Ég gæti best trúað því að sendiráð Bandaríkjanna eða eitthvað sé þar á bak við. Rósa var stórhneyksluð líka.
Við komum út af safninu og settumst á pöbb, þar sem við drukkum bjór á íslensku verði. Á þarnæsta borði sátu nokkrir nýnasistar, einn í „Antiantifa“ stuttermabol.
Svo gengum við norður í gamla gyðingahverfið, þar sem búa víst fáir gyðingar í seinni tíð, en þar sáum við m.a. elstu starfandi sýnagógu í Evrópu, sem var reist árið 1240 ef mig misminnir ekki. hún lét svosem ekki mikið yfir sér, en þetta mun var sýnagógan þar sem góleminn á að liggja sofandi á háaloftinu – gólem sem einhver miðaldarabbíni bjó til að magnaði upp með seið, og fór síðan og lagði hálfa borgina í rusl og rústir áður en rabbínanum tókst að hafa hemil á honum. Hann á að liggja á háaloftinu í sýnagógunni og bíða þess að gyðingar Prag þarfnist hans – ekki ósvipað Holgeiri danska sem á að bíða undir Kristjánsborgarhöll í Kaupmannahöfn. Þess má geta að þegar Þjóðverjar tóku Tékkóslóvakíu og leiddu gyðinga hennar til slátrunar, þá lét gamli góleminn ekki á sér kræla.
Eftir að hafa fengið okkur meira að éta fórum við í búðarholu þar sem við keyptum smávegis, vatn og bjór og snakk og þannig, sem kostaði alveg ótrúlega mikið. Síðan héldum við á hótelið og lögðumst til svefns.
Þann níuna ágúst fórum við enn út í bæ, skoðuðum Karlsbrúna glæsilegu og litum síðan í lystigarð Albrechts von Wallenstein, herforingjans frækna sem vann sér mikinn orðstír í Þrjátíu ára stríðinu, og tapaði meðal annars fyrir Gústaf II Adolf Svíakonungi í Orrustunni við Lützen. Sá garður var sko ekkert slor. Þar vildi svo til að það voru að hefjast tónleikar, með þjónbúningum, söng og dansi, og horfðum við á nokkur lög. Við fórum því næst á tónleika í kirkju einni við austursporð Karlsbrúarinnar, þar sem Árstíðirnar eftir Vivaldi voru á dagskrá. Við vorum alveg ánægð með tónleikana og þannig, en það er samt satt sem segir í Lonely Planet bókinni, að þótt framboðið sé mikið af tónleikum, þá eru gæðin misjafnari. Ég hef með öðrum orðum alveg farið á betri tónleika og með færari hljóðfæraleikurum. En þetta var samt ósköp notalegt og svona. Að tónleikunum loknum fórum við á hótelið til að sofa, en komum við í minjagripabúð þar sem við versluðum m.a. kristal (er það ekki skylda?) – ég gekk út með forláta öskubakka, sem ég hlakka til að fara að nota einhvern tímann í framtíðinni þegar ég mun búa í húsnæði þar sem má reykja.
Tíunda ágúst skoðuðum við Prag-kastala (Prazký Hrad), sem Lonely Planet segir að sé stærsta kastalakomplex í heimi. Stór er hann, en ég trúi því ekki að flatarmálið sé meira en í Tower of London eða Kreml. Ætli Forboðna borgin í Beijing teljist með? Hún er víst engin smásmíð heldur. Í kastalanum sá ég svertingja, og það væri ekki í frásögur færandi nema vegna þess að hann var með ör á kinnunum, svipuð örum á manni sem ég var að vinna með – svo ég spurði hann hvort hann væri nokkuð frá Nígeríu. Það stóð heima. Við enduðum með að spjalla heillengi við hann. Hann var þarna að dreifa auglýsingabæklingum, en var annars menntaður skipulagsfræðingur (er það ekki annars íslenska orðið fyrir „civil engineering“?) og vildi gjarnan komast eitthvað þar sem hann gæti unnið við sérgrein sína. Við bentum honum á að tækifærin væru fleiri og launin betri á Íslandi eða í Skandinavíu heldur en í Tékklandi. Annars hefði ég haldið, eftir lýsingum að dæma, að það væri nóg að gera fyrir skipulagsfræðinga í Lagos eða Abuja í Nígeríu, en það er önnur saga.
Kastalinn er drulluflottur, það verður ekki af honum tekið. Við skoðuðum gríðarlega fallega dómkirkju sem er inni í honum, og þar var reyndar að hefjast messa. Mér sýndist messan vera kaþólsk; annars minnti mig að Tékkar væru upp til hópa kalvínistar. Jæja, skítt með það. Auk dómkirkjunnar skoðuðum við minni kirkju, sem var ósköp snotur líka, og hluta af höll sem eitt sinn hýsti konunga. Síðan þurftum við að haska okkur, þar sem verið var að loka. Það rigndi óskaplega mikið, og í fyrsta skipti í mörg ár hafði ég gleymt að taka hattinn minn með mér. Við leituðum skjóls á krá á leiðinni niður í bæ, ætluðum að bíða af okkur veðrið og fá okkur að éta og drekka í leiðinni. Eftir langa bið þar hafði veðrinu enn ekki slotað, svo við drifum okkur bara. Þegar við komum á hótelið pöntuðum við leigubíl morguninn eftir, þar sem við ætluðum að yfirgefa borgina.
Að morgni ellefta ágúst tókum við semsagt leigubíl á lestarstöðina. Af einskærri heppni náðum við lest sem gekk beina leið frá Prag til Århus. Á leiðinni spjölluðum við fyrst við einhvern ungan Tékka sem var í klefanum, og þegar hann fór út komu miðaldra hjón inn. Þau voru áhugaverðir ferðafélagar, svo ekki sé meira sagt. Þau voru frá Bólívíu, karlinn prófessor í lögfræði og konan sjóntækjafræðingur, og áttum við langt og ítarlegt spjall við þau um stjórnmálaástandið í Suður-Ameríku, ekki síst um Hugo Chavez og Evo Morales. Mikið var gott að heyra hvernig þau litu á málin – yfirveguð og alveg laus við sleggjudóma. Bara hreinskilnislegt mat. Þau voru alveg á því að það væri þörf fyrir róttækar breytingar, en hins vegar fannst þeim Evo Morales ekki vera á réttri leið. Hann hefði alveg viljann til að gera hið rétta, en væri bara of óskipulagður; vissi ekki nógu vel hvað hann væri að gera og önnur höndin vissi ekki hvað hin hefðist að. Hann væri ekki með nógu góðar áætlanir, og óskipulegt fálm hans í umbótaátt gerði því miður alls ekki það gagn sem til væri ætlast. Óöryggi í hagkerfinu og óvissa um morgundaginn gerði enn fremur illt verra. Þetta var í aðalatriðum það sama og ég áleit fyrir, og mér þótti mjög fróðlegt að heyra þetta frá þeim. Það var hvergi komið að tómum kofanum – þegar við spurðum þau út í suður-amerísk tollabandalög vildi meira að segja svo til að karlinn var nýbúinn að skrifa bók um þau! Rósa lét þau fá netfang sitt og heimilisfang og bað þau að skrifa sér, sem þau sögðust mundu gera, því hún hefur hug á að rannsaka stjórnmálaástand Suður-Ameríku og þau höfðu mikinn áhuga á að hjálpa henni, t.d. með því að nálgast heimildir og annað, og jafnvel skjóta yfir hana skjólshúsi ef hún kæmi einhvern tímann til La Paz. Þessi heiðurshjón fóru út í Berlín, en við héldum för okkar áfram.
Lestin kom á áfangastað í Århus um 9-leytið um kvöldið og við tókum strætó heim til Rósu. Þar var Særós dóttir hennar fyrir, og urðu fagnaðarfundir. Við fengum okkur að eta og drekka, en fórum allsnemma í háttinn, enda dauðþreytt eftir langa lestarferð.
Þann 11. ágúst ók Rósa Særós í heimavistarskólann þar sem hún verður í vetur. Ég hékk heima á meðan, slappaði af úti í garði og las í Hvað ber að gera eftir Lenín. Tók því m.ö.o. rólega mestallan daginn, og umpakkaði farangri mínum.
Ég tók því líka rólega 12. ágúst; við hengum bara heima, lásum og höngsuðum.
Þann 13. ágúst skildust leiðir. Ég fór með morgunlest til Hamborgar, en Rósa fór í fundarferð með félagi stjórnmálafræðinema í Århus í sumarbústað á Samö. Ég kom á Hamburg Dammtor þegar skammt var liðið á síðdegið, og ætlaði að taka næturlest þaðan seint um kvöldið. Til að drepa tímann fann ég mér krá, þar sem ég las bækur og blöð og drakk mig fullan á meðan. Drukkinn Þjóðverji var svo hrifinn af því að ég væri í leðurbuxum í þessum heita, eins og heimamaður, að hann bauð mér ískaldan Korn.
Um kvöldið kom svo lestin, ég fann svefnklefann sem ég hafði látið taka frá. Las í bók til að byrja með og lagðist svo til svefns. Ég get ekki sagt að ég hafi sofið vel, enda var þetta fyrsta ferð mín með næturlest og ég ekki orðinn „sjóaður“ í þeim – en nokkurn svefn fékk ég þó.
Ég kom til München eldsnemma að morgni 14. ágúst, á sjöunda tímanum. Þar sem hérumbil allt var lokað, fann ég mér krá, þar sem ég hékk í á að giska 9 klukkutíma. Þar komst ég á netið, drakk nokkra bjóra og kláraði Hvað ber að gera, og byrjaði síðan á Opið land eftir Eirík Bergmann Einarsson. Á endanum fór ég og fann mér gistingu, á „European Youth Hostel“ við Senefelderstrasse. Var þar á dormi með amerískum stjórnmálafræðinema og stelpu sem var hnerrandi og snörlandi alla nóttina. Ég var því fegnastur að smitast ekki. Hélt áfram að lesa Opið land. En um kvöldið fór ég á dönerstað ekki langt frá gistihúsinu og fékk mér vel að éta.
Fimmtánda ágúst tékkaði ég mig út og skoðaði mig um í München. Skoðaði ansi fínt torg með gosbrunni, síðan borgarhlið og göngugötu og síðan dómkirkjuna. Hún er helvíti nett; tröllaukin að stærð en alls ekki of hlaðin skrauti. Það er sagt að það sé alltaf hvass strengur umhverfis háan turninn, og því get ég vel trúað. Í dómkirkjunni fetaði ég í fótspor Kölska, en sagt er að á meðan á byggingunni stóð hafi hann komið, áður en hún var vígð, og hlegið að byggingameistaranum fyrir að hafa gleymt að gera glugga. Sá sagði honum þá einhver fleyg orð og Kölska varð svo mikið um að svart fótsporið sést enní gólfinu – úr svörtum marmara, reyndar. En í þá daga var altari kirkjunnar svo stór, að glugginn fyrir aftan það sást ekki, og séð frá staðnum þar sem Kölski stóð, og séð að altarinu, þá sést einmitt enginn af hinum gluggunum heldur. Merkilegt, ha?
Eftir að ég var búinn að skoða dómkirkjuna, hélt ég áleiðis á aðaláfangastað dagsins. Förinni var heitið á Hofbräuhaus – hirðbrugghúsið sem frægt er af söngnum góða, „In München steht ein Hofbräuhaus, eins, zwei, g’suffa!“ Ég var frekar fljótur að finna húsið, sem hýsir stærsta bjórgarð heims, og ég hef fyrir satt að þar megi koma fyrir 8000 manns. Ég fann mér sæti, hlýddi á undurfagra Blasmusik og pantaði mér ein Mass Dunkles, og svo annan til. Sat svo í makindum og las í bók í þessum helgisal lífshamingjunnar, og skrifaði nokkur póstkort.
Eftir þetta fór ég á Deutsches Museum, á eyju í ánni Isar. Þar skoðaði ég sjóminjadeildina og iðnsögudeildina og síðan jarðsögu- og námuvinnsludeildina. Meira náði ég ekki að sjá fyrir lokun, en fannst þetta ansi flott, það sem ég náði að soða.
Eftir þetta fór ég til að svipast um eftir öðru, höfuðstöðvum Kommúnistaflokks Þýskalands. Ég hafði fundið heimilisfangið á netinu morguninn áður. Það kostaði langa leit að finna þetta. Fyrst tók ég lest, gekk svo langa leið, settist svo inn á pöbb og fékk mér einn svalandi á meðan ég spurði til vegar, og gekk síðan kippkorn og spurðist nokkrum sinnum til vegar á leiðinni – og fann loks staðinn. Fjölbýlishús. Það stóð „KPD“ á dyrabjöllunni á þriðju eða fjórðu hæð, og ég hringdi henni. Beið. Hringdi svo aftur. Beið lengur. Þegar ég nennti ekki að bíða lengur fór ég á veitingastað við hliðina og fékk mér rísottó með rækjum. Maturinn var góður en ég þurfti að bíða óskaplega lengi eftir afgreiðslu, mat og reikningi.
Að matnum étnum fór ég aftur á European Youth Hostel og sótti farangur minn, og fór síðan á lestarstöðina. Þar fann ég bókabúð sem átti til íslensk-þýska þýsk-íslenska vasaorðabók. Ég keypti hana, enda týndi ég minni fyrir löngu síðan. Sú sem ég keypti var s.s. Langenscheidt-bókin litla, sem er alveg hreint helvíti góð; ég mæli óspart með henni umfram aðrar þýskar vasaorðabækur sem ég hef notað, bæði fyrirferðarlítil og innihaldsrík. Svo fékk ég mér að éta og eitthvað og hékk og las á meðan ég beið eftir lestinni sem ég ætlaði að taka til Ljubljana. Þegar hún kom varð mér varla um sel; þetta var semsagt næturlest, og ekki beint beysin í samanburði við þá sem ég tók nóttina þaráundan – júgóslavneskur gripaflutningavagn, liggur mér við að segja. Við sváfum sex saman í jafnmörgum kojum í klefa sem var ekki stærri en 2x2 metrar að flatarmáli. Frá dýnunni minni upp í rúmbotninn fyrir ofan voru varla nema 70 sentimetrar. Þessi nótt var frekar erfið, svo ég taki eki dýpra í árinni. Ég las smá í bælinu til að byrja með, eins og ég er vanur, og reyndi svo að sofna. Það gekk afar hægt að festa blund, en að lokum náði ég við illan leik að sofna og svaf í á að giska tvo tíma. Stutt og illa.

No comments:

Post a Comment