Monday, June 2, 2008

Ferðasaga, ágúst 2007, I. hluti

Vegna lengdar verður þessari sögu póstað í nokkrum hlutum. Ég býst við að pósta næsta hluta á miðvikudag eða fimmtudag.

Ferðasaga, ágúst 2007
Ég flaug til Kaupmannahafnar þriðjudagsmorguninn 31. júlí, ásamt fríðu föruneyti. Þar á meðal voru Óli og Pétur tröllavinir, og þónokkur hópur að auki. Við hittum Þorstein, skipuleggjanda ferðarinnar, við Hovedbanegården. Við Óli urðum samferða honum og Fríðu, kærustu hans, á stúdentagarð þar sem við höfðum fengið inni fyrir lítið fé, og eftir að hafa losað okkur við farangurinn og tekið því rólega með bjór í hönd, skruppum við niður í bæ, átum, drukkum og vorum glaðir, og fórum síðan snemma að sofa.

Morguninn eftir, 1. ágúst, fórum við eldsnemma á fætur. Bróðir Þorsteins keyrði stóran hluta af farangrinum okkar á rútubílastöðina, þangað sem við fórum svo líka, og þar safnaðist svo allur hópurinn saman, sem var að fara á Wacken. Það voru á að giska 60 manns. Við ókum af stað, sem leið lá til Holtsetalands, með viðkomu í landamærabúð nærri Flensborg, þar sem við versluðum áfengi fyrir helgina. Þegar nær dró Wacken blasti við óhemjulega löng bílaröð, og það tók rútuna okkar heila eilífð að silast þar í gegn. Við gengum meðfram henni stóran hluta leiðarinnar, drukkum og reyktum og byrjuðum partíið snemma. Tveir vel hífaðir Þjóðverjar urðu á vegi okkar, með stóreflis drykkjarhorn, og báðu okkur um áfengi – alveg sama hvað – í hornið. Þeir fengu blöndu af bjór og rommi, og gott ef það var ekki slatti af lakkríslíkjör með í kaupbæti. Síðan var hornið látið ganga hringinn á meðan við trölluðum sönginn sem þekktastur er í Línu langsokki.

Þegar til Wacken kom biðum við ekki boðanna, sóttum farangurinn í rútuna og héldum af stað í armbandaafgreiðsluna. Það tognaði verulega á hópnum. Ég var með þeim fyrstu; kom að afgreiðslunni þar sem miðinn var rifinn og við fengum hin fögru armbönd, sem veita aðgang að hátíðinni sjálfri. Skemmtilegt var, að við hliðina á afgreiðslunni fann ég 700 ml viskíflösku, óátekna, sem lá þar munaðarlaus. Ég ættleiddi hana í snatri!

Helgi, sem hér eftir verður kallaður Bubbi, hafði komið á tjaldstæðið snemma um morguninn með vinkonu sinni, og tekið frá væna spildu fyrir tjaldbúðir Íslendinganna. Nú var slegið upp tjöldum; ég var í tjaldi með Óla, og í næsta tjaldi var Kristinn, sem hafði farið tvisvar áður á Wacken. Einnig voru sett upp tvö feiknastór partítjöld, hlið við hlið, þannig að þau spönnuðu alls 6x9 metra. Það var margra manna verk, en sóttist frekar hratt. Ég tók að mér að skreyta tjaldið með myndum af drekum og einhyrningum, einföldum húsreglum, sem var lítið farið eftir, og svo voru Svíar boðnir sérlega velkomnir með stórri áletrun. Ekki má gleyma Járngrími, lukkutrölli Hins íslenska tröllavinafélags (HÍT), en hann prýddi suðurhlið tjaldsins. Gunnfáni HÍT var einnig með í för eins og fyrri daginn, og var reistur upp á þverstöng á mjög löngum greinum sem ég „fann“ í nærliggjandi skjólbelti. Enginn hafði haft rænu á að taka íslenska fánann með, en sem betur fer fann einn úr hópnum hann til sölu á metalmarkaðnum.

Dagarnir fyrir Wacken höfðu verið þurrir, en vikurnar þar á undan hafði rignt svo mikið að elstu menn mundu ekki annað eins. Á einni viku rigndi svo mikið að það nam víst 360 lítrum á fermetra. Jörðin varð auðvitað gegnsósa og litlu munaði að það þyrfti að aflýsa hátíðinni. En guðir þungarokksins voru oss hliðhollir, og það stytti upp í tæka tíð. Efsta laginu af jarðvegi var hreinlega mokað af tónleikasvæðinu, síðan voru settir 5000 fermetrar af einhverjum dúk, og svo tugir tonna af hálmi þar ofan á. Þyrlur – já, þyrlur – voru notaðar í lágflugi til þess að blása vatninu af tjaldstæðunum, sem samt voru blaut, en þó ekki svo að til vandræða væri. En þvílík býsn af vatni. Þetta miðvikudagskvöld drukku menn sig fulla en fóru frekar snemma að sofa, eða, í það minnsta ég.

Fimmtudaginn 2. ágúst fór ég á fætur þegar ég vaknaði, í svitabaði, drakk 1,5 lítra af vatni og opnaði mér síðan bjór. Þar sem ég sat í partítjaldinu komu tveir og stungu upp á því að við kíktum á Blitzkrieg, sem voru að fara að byrja á Black Stage. Ég var nú til í það. Við fórum því, fengum okkur að éta, og horfðum svo á Blitzkrieg. Svo fengum við okkur meira að éta og drekka, og horfðum svo á Rose Tattoo. Þegar Rose Tattoo voru svona hálfnaðir, svona um kvöldmatarleytið, þá fann ég að ég var búinn að fá nóg og þurfti að fara heim í búðir. Eftir það man ég ekki neitt, og missti m.a. af Sodom, en það voru helstu vonbrigði hátíðarinnar fyrir mitt leyti.

Mér er sagt að ég hafi komið í partítjaldið, hlammað mér þar í útilegustól og setið niðurlútur drykklanga stund. Um það vitna ljósmyndir. Mér er ennfremur sagt að ég hafi staulast inn í tjald fyrir miðnætti, en sjálfur veit ég ekki annað en að ég vaknaði morguninn eftir, háttaður í svefnpokanum mínum. Fór á fætur, drakk aðra flösku af vatni, og settist svo í partítjaldið og saup á bjór. Þennan dag tók ég því rólegar en þann fyrri, drakk á hæfilegum hraða og gætti þess að éta með og drekka vatn inn á milli. Niðurstaðan varð sú að ég var alveg mátulega drukkinn allan daginn og fram á nótt.

Föstudaginn 3. ágúst sá ég fyrst Suidakra, og þegar þeir voru búnir ætlaði ég á Amorphis. Ekki vildi betur til en svo að það kviknaði í skraufþurrum hálminum og af hlaust mikið bál. Það var ekki mér að kenna. Biksvartur reykur vall upp og fólk vék fyrir slökkviliðinu, sem var fljótt á staðinn. Fyrir vikið raskaðist dagskráin; ég held samt að ég hafi séð Amorphis skömmu seinna, en hins vegar var mér sagt að þeir hefðu þurft að hætta við. Nú þekki ég ekki til þeirra, þannig að ég er ekki dómbær á það, en hins vegar hefði dagskráin ekki riðlast ef þeir hefðu bara hætt við – og fyrst hún riðlaðist, þá liggur mér við að álykta að ég hafi séð þá.

Næst sá ég Napalm Death, Therion, Possessed og Grave Digger. Eftir það leit ég á metalmarkaðinn, keypti eitthvað smávegis, og fór svo í tjaldbúðirnar. Á leiðinni þangað rakst ég á nokkra spánska metal-kommúnista, og fór vel á með okkur. Þaðan fór ég aftur þegar Lacuna Coil voru að byrja, og sá þau, síðan Blind Guardian, Dimmu Borgir, Schandmaul, Iced Earth (sem ég hafði líklega mesta ánægju af að sjá á hátíðinni), Kampfar, Die Apokalyptischen Reiter og Samael. Ég át einnig eitt spjót af grilluðu svínakjöti, og var fyrir vikið með niðurgang næsta sólarhringinn. Þegar ég kom í tjaldbúðirnar aftur, á þriðja tímanum um nóttina, var ég í mínu besta stuði, og sat og skrafaði og eitthvað þangað til ég fór í háttinn.

Að morgni laugardags 4. ágúst drakk ég enn flösku af vatni. Þennan dag var ég ekki í skapi til að drekka. Það voru ekki timburmenn sem réðu því, heldur frekar ástandið á maganum á mér eftir svínakjötið kvöldið áður. Ég drakk vatn í staðinn, og át það sem ég hafði lyst á. Nokkru fyrir klukkan eitt fór ég á Sacred Reich, en tók því síðan rólega í tjaldbúðunum fram undir kvöldmat, en þá fór ég og sá Swallow the Sun, Norther, Destruction, Type O Negative (sem komu mér best á óvart á hátíðinni), Benedictum, Immortal og Moonsorrow. Eftir stutt innlit í tjaldbúðirnar fór ég aftur á svæðið og sá þá Unheilig, Cannibal Corpse og Haggard, og fór svo að sofa.

Sunnudaginn 5. ágúst fórum við Óli á fætur með fyrra fallinu, eins og aðrir, og pökkuðum saman dótinu okkar og tjaldinu. Þar sem Óli var að fara beint til Íslands og var með lítinn farangur, þá féllst hann á að taka með eina tösku fyrir mig, íþróttatösku með skítugum fötum, Wacken-gallanum mínum og svo dóti sem ég hafði keypt mér. Pétur tók að sér að ferja fána HÍT heim. Viskíflöskuna góðu gaf ég, til að spara mér burðinn (fyrir utan að ég var með pela líka), og síðan skildi leiðir. Ég fór, ásamt Bubba og vinkonu hans, til þess að komast í strætó til Itzehoe, en hitt liðið fór með rútunni til Kaupmannahafnar. Við þurftum að bíða hrikalega lengi, í þvögu af sveittum Þjóðverjum, en komumst á endanum um borð í einn strætóinn. Fórum semsé til Itzehoe, keyptum okkur þar lestarmiða og fórum til Hamborgar (Altona), þaðan sem við tókum svo aðra lest til Berlínar.

Í Berlín hittum við nokkra stráka sem höfðu verið ferðafélagar Bubba og vinkonu hans á interraili áður en þau komu á Wacken. Við fórum saman þangað sem Bubbi átti bókaða gistingu – það reyndist vera búddista-pönkara-anarkistahola á götuhorni, og leist ekki öllum í hópnum á blikuna. Ekki var pláss fyrir okkur hina fimm, svo við fengum okkur bjór, tókum svo lest á farfuglaheimili við Zoologischer Garten, en þar reyndist líka allt vera fullt. Þaðan hringdum við á nokkur hostel, og fundum loks eitt, í hinum enda bæjarins. Tókum lestina, að því er við héldum, þangað, en enduðum með að þurfa að ganga á að giska 5 km frá lestinni – og vera auk þess á leið á rangt hostel. Ferðin var samt ekki til einskis, því að við hliðina á því hosteli var hið myndarlegasta, tja, ég býst við að það kallist fríríki. Hústökufólk hafði tekið þar hús og stærðar lóð í kring, sest þar að, margir á hjólhýsum, og víggirt allt í kring, m.a. með sundurklipptum innkaupakerrum. Fríríkið heitir „Köpi“ – stytting á Köpenickerstrasse, þar sem það er, í húsi númer 88. Ég dró strákana með þarna inn, og þar var mjög athyglisvert um að litast; pönkarar að æfa sig á trommur, rottur sem skutust um, stjórnleysingjalubbar hangandi út um gluggana og heilt stóð af bardagahundum sem beið eftir að vera sigað á óboðna gesti.

Þótt við hefðum villst, var ekki öll von úti, því það var stutt að fara á næstu lestarstöð, og þaðan á stöð sem var við hliðina á A&O hostelinu sem við áttum bókað pláss á. Ég pantaði mér eins manns herbergi, þreif svo af mér mesta útileguskítinn, og svo átum við og fórum að sofa. Daginn eftir, 6. ágúst, skrapp ég út í bæ, saup smá bjór og las í bók og hitti svo strákana við Jüdisches Museum. Það var vopnaleit við innganginn, og sjálfskeiðungurinn tekinn af mér! Skoðuðum safnið hátt og lágt og skrifuðum (á þýsku) svo í gestabókina að við vildum jafnrétti og mannúð, og værum því á móti nasistum og á móti zíonistum, og styddum frjálsa Palestínu.

Ég kvaddi strákana og fór á Hauptbahnhof til að hitta Rósu. Hún var að koma frá Árósum, í gegn um Hamborg, og urðu þar fagnaðarfundir. Ég keypti mér interrail-miða, sem leyfir 10 ferðadaga að eigin vali á 22 daga tímabili, 7.-28. ágúst. Við fórum svo á hostelið, og hún gisti með mér á eins manns herberginu um nóttina.

Daginn eftir fórum við á Hauptbahnhof og tókum lest til Chemnitz. Þar gengum við niður í bæ og skoðuðum hið geysistóra og tignarlega minnismerki um Karl Marx, tókum myndir, keyptum spennandi minjagripi, átum ís og drukkum bjór og skrifuðum póstkort. Fórum svo aftur í lestina, og ókum til Prag, þangað sem við komum seint um kvöldið. Á lestarstöðinni þar hittum við harkara sem reddaði okkur gistingu á hóteli, og við ákváðum bara að taka því. Hótelið var lítið en vel í sveit sett. Verðið var ekki lágt, en viðráðanlegt. Við bókuðum fjórar nætur.

No comments:

Post a Comment