Wednesday, June 13, 2007

Hamas vs. Fatah

Mohammad Dahlan er kallaður hinn tilvonandi Augusto Pinochet Palestínu. Núna þegar bardagar standa yfir, hvað ætli hann sé að gera? Jú, nema hvað, það vill svo heppilega til að hann er staddur í Kaíró, þar sem hann undirgengst aðgerð vegna meiðsla á hné. En sú tilviljun að hann skyldi vera mátulega kominn í öruggt skjól. Ismail Rudwan er talsmaður fyrir Hamas. Hann kenndi Dahlan um tilræði við Ismail Haniyeh í desember síðastliðnum -- hann nafngreindi hann.
Það er villandi og afvegaleiðandi að tala um þessi átök eins og Hamas séu öðru megin og stuðningsmenn Abbaras hinu megin. Fatah-megin eru stríðsmenn sem svara ekki til Abbasar heldur Mohammeds Dahlan -- kvislingsins sem á að ganga erinda Ísraels og Bandaríkjanna með því að kurla niður palestínsku andspyrnuna.
Ég get ekki varist þeirri tilhugsun að Hamas-samtökin séu núna -- í þessum töluðum orðum -- síðasta varnarlína skipulagðrar, opinberrar andspyrnu gegn hernáminu. Niðurstöður þessara bardaga skipta úrslitamáli fyrir framtíð Palestínu, hvort það verða kvislingar eða andspyrnan sem veita fólkinu forystu. Ef Fatah hafa betur verður andspyrnunni naumast fyrir að fara nema neðanjarðar á herteknu svæðunum.

No comments:

Post a Comment