Monday, June 18, 2007

Af fréttum dagsins -- mótmæli, Gaza, Republika Srpska

Saving Iceland fjalla um stóriðjumótmælin í gær. Það er líka fjallað um þau á mbl.is, Vísi og víðar -- og mér finnst kostulegt að sjá umræðuna. Sumir eru augljóslega að grínast með gífuryrðum, enda er það bara hlægilegt að tala um brot á fánalögum. Eins og það sé issjúið? Hversu mörg börn ætli hafi látið íslenska fánann snerta jörð í gær? Hvað ætli margir hafi verið með andlitsmálningu þar sem fáninn var í röngum hlutföllum? Brot á fánalögum -- asnalegt, segi ég.
Svo kemur sami kvakandi kórinn fram og venjulega, blaðrandi um að mótmælendur séu ómarktækir (vegna þess að þeir sjálfir eru ósammála þeim), það sé rangt að mótmæla þannig að fólk láti taka eftir sér -- best sé að vera bara einn og asnalegur og mótmæla á einhverjum afviknum stað og helst með ljósin slökkt, að mótmælendur séu letingjar (er það leti að nenna að búa til 25 metra langa borða eða skipuleggja stóreflis tjaldbúðir eða vera reiðubúinn að sitja í fangelsi fyrir hugsjónirnar?) og svo að þau séu atvinnulaus (hvernig vita menn það? eru ekki flestir annars í fríi hvort sem er á sautjánda júní?) og flest flokksbundin í VG. Þeim til fróðleiks sem ekki vita, þá veit ég satt að segja ekki um einn einasta félaga í Saving Iceland sem er flokksbundinn.
Þessi jarmandi hjörð er fyrirsjáanleg, svo ekki sé meira sagt.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Ísraelar loka Gaza og taka upp samstarf við valdaránsstjórn Abbasar (Vísir). Evrópusambandið er ekki lengi að stökkva til að styðja hana líka (Moggi, Moggi). Það er greinilegt að það á að ganga milli bols og höfuðs á palestínsku þjóðfrelsishreyfingunni undir því yfirskini að Hamas séu svo mikil illmenni. Ég játa að mér finnst umhugsunarefni hvað Ingibjörg Sólrún gerir nú. Viðurkennir hún kvislingana eða bíður hún átekta?
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Sú frétt sem kom mér samt hvað skemmtilegast á óvart var um virkjanasamninga við Serbneska lýðveldið. Republika Srpska er annað af ríkjunum tveim í Bosníu-Herzegóvínu. (Svo ég monti mig: Ég fór þar í gegn síðasta sumar og er með stimpilinn þeirra í vegabréfinu.) Þetta þykir mér gleðifrétt. Það er að segja, ekki endilega að samningarnir snúist um virkjanir (ég hef svosem ekki skoðun á því í sjálfu sér, enda veit ég ekki nóg um þetta tiltekna mál), heldur að það séu komin einhver tengsl við Bosníu-Serba. Þeir eru fólkið sem við héldum öll fyrir nokkrum árum að væri upp til hópa stríðsglæpamenn og smábarnaætur. Það er auðvitað vitleysa.
Izetbegovic í Bosníu var harðlínuíslamisti og vildi stofna íslamskt lýðveldi í Bosníu. Hans fylgismenn voru reyndar í minnihluta, en komu sér í þá stöðu að gera stefnu sína að stefnu landsins, með ýmsum og misjafnlega geðslegum leiðum. Þegar Júgóslavía var gerð upp, þá má auðvitað segja að Bosníumenn hafi haft sama sjálfsákvörðunarrétt og aðrir og ef þeir vildu vera sjálfstæðir, þá var annað ekki sanngjarnt en að þeir fengju það. En hvað með Bosníu-Serba? Rökin fyrir því að Bosnía fái að kljúfa sig út úr Júgóslavíu eru um leið rök fyrir því að Bosníu-Serbar fái að kljúfa sig út úr Bosníu. Eða áttu kristnir eða trúlausir Serbar að sætta sig við að íslömsku ríki væri troðið upp á þá? Auðvitað ekki. Fyrst Bosnía sagði sig úr lögum við Júgóslavíu til að byrja með, þá hef ég fulla samúð með Bosníu-Serbum að segja sig úr lögum við Bosníu. Sama má reyndar segja um Serbana sem búa í Kosovo, ef Albanarnir þar vilja endilega segja sig úr lögum við Serbíu. Serbneski minnihlutinn í Kosovo á ekki sjö dagana sæla, og þar eins og annars staðar hafa þeir myndað með sér samtök um að verja sig ef til þess kemur. Ansi er ég samt hræddur um að sumir fari offari ef það verður, og margur mundi snýta rauðu sem á það ekki skilið.

No comments:

Post a Comment