Friday, June 15, 2007

Eins og þjófar að nóttu...

Eins og fyrri daginn var ég úti í garði áðan, í óða önn við að reyta skriðsóley. Hafði reytt nokkra fermetra í dag, og klukkan langt gengin eitt að nóttu. Heyri ég þá bíl nema staðar á götunni fyrir framan húsið. "Ah," hugsa ég, "minn kæri meðleigjandi er seint á ferðinni -- nema þarna fari minn kæri nágranni." Þegar ég leit upp -- ég var skríðandi í drullunni fremst í garðinum, í því horni sem er fjær hliðinu, sé ég ókunnuga menn -- þrjá talsins -- koma inn um hliðið, á milli runnanna og inn á blettinn. Með vasaljós í höndunum, og eitthvað fleira. Ég reis upp, með fíflajárnið í hendinni. Þeir komu auga á mig í rökkrinu og brá við. "Góða kvöldið," bauð ég, frekar önuglega, "var það eitthvað?" Forsprakkinn hafði orð fyrir þeim: "Böh.. við erum bara að tína orma." Ég sagði þeim að allir ormar í þessum garði væru mín eign. Það var að vísu hvít lygi -- tæknilega séð er ég ekki eigandi hússins þótt ég hafi reyndar frjálsar hendur í garðinum -- en boðflennurnar höfðu sig á bak og burt, upp í bíl og keyrðu í burtu. Var ég að koma í veg fyrir innbrot? Eða var ég að bjarga saklausu ánamöðkunum mínum úr klóm vandalausra?

No comments:

Post a Comment