Friday, June 15, 2007

Abbas biður um grið

Þegar Mahmoud Abbas biður um vopnahlé, um leið og hann skipar öryggissveitunum að svara árásum, um leið og bardagar eru að brjótast út á Vesturbakkanum og um leið og hann ákveður að leysa heimastjórnina upp, þá hlýtur það að teljast til marks um að hann finni að hann sé að tapa þessum slag. Það er að segja, tapa honum á Gaza. Það er tvennt ólíkt, Gazaströndin og Vesturbakkinn. Þótt Gaza sé áhrifasvæði Hamas, þá er ekki víst að áhrif þeirra séu eins sterk á Vesturbakkanum (eða, réttara sagt, þá veit ég það ekki) -- og þriðja óráðna dæmið eru svo flóttamennirnir, sem skipta milljónum í löndunum um kring. En það er greinilegt að Hamas vinna á.

Ég játa það fúslega að í þessum bardaga er mín samúð með Hamas. Það er vegna þess að Mohammed Dahlan og dauðasveitir hans, þjálfaðar af Bandaríkjamönnum, bíða með blóðbragð í munninum eftir því að sökkva tönnunum í forystu Hamas, murka úr henni lífið og skelfa almenna stuðningsmenn til hlýðni -- og slá þannig kollinn undan andspyrnunni og selja landsmenn í böðla hendur. Það er fásinna að láta eins og þetta séu einhver óskiljanleg átök eða að erfitt sé að greina hver eigi upptökin. Það er alveg skýrt. Upptökin liggja hjá gerspilltum elementum innan Fatah -- þ.e.a.s. kreðsunni í kring um Dahlan -- og það er svo aukaatriði hver skýtur fyrstu kúlunni. Í því samhengi er óhætt að halda því til haga að í desember stóðu kónar Dahlans að morðtilræði við Ismail Haniyeh.

Það er óhætt að fullyrða að atburðir næstu daga geta reynst Palestínumönnum afdrifaríkir.

No comments:

Post a Comment