Monday, November 29, 2004

Ævintýraköttur í svaðilför



Enn verður kötturinn mér að umtalsefni. Til hvers að eiga ketti ef maður hefur ekkert um þá að segja? Alla vega, eins og sumir vita eru tveir kettir á mínu heimili, rígfullorðnar mæðgur. Móðirin heitir Pamína og er lesendum Fréttablaðsins að góðu kunn, enda fastagestur á síðum þess. Hún er á fimmtánda ári. Væri sennilega farin að grána ef hún væri ekki grá-og-hvít-skjöldótt fyrir. Á yngri árum var hún oft í tígrisdýraleik en hefur með árunum orðið meira eins og ástleitið og snuðrandi, rígfullorðið tígrisdýr.

Nú nenni ég ekki að hafa þennan formála lengri. Áðan sat ég í kjallara með mínum bróður og með ástleitinn köttinn snuðrandi og troðandi framlöngu og tófulegu trýninu í handarkrikann á mér (!). Síðan fór hún eitthvað í burtu. Í horninu fyrir aftan mig voru gamlar, veggfastar bókahillur og upp við þær dýna, liggjandi á langhlið, en eitthvað rusl ofan á dýnunni og nokkur gömul málverk sem stóðu upp við hana. Nú renndi kötturinn sér fimlega upp málverkin og upp á dýnuna. Gekk dýnuna endilanga og ætlaði að smeygja sér upp í bókahillu (semsagt þar sem var pláss í hillunni fyrir einn kött í digrara lagi). Hún steig á draslhrúguna -- sem rann undan henni og hún sjálf með. Rígfullorðinn köttur, rennandi sér "lipurlega" niður dýnu, sitjandi í tómum skókassa eins og sleða. Hlussaðist í gólfið með brambolti. Ég hló mig máttlausan.

Kötturinn reis skjótt á fætur og dustaði af sér rykið. Renndi sér aftur upp málverkin, upp á dýnuna og ætlaði að fara aðra leið í þetta sinn: Upp á tóman pitsukassa sem stóð hálfur út úr hillu og blaðahrúga á honum. "Plísplísplís" hugsaði ég, hnippti í bróður minn og benti honum á salibununa sem var í vændum: Að kötturinn mundi stíga á tóman pitsukassann, sem þá mundi sporðreisast í flasið á kettinum, blaðahrúgan detta beint í fangið á honum og allt heila klabbið húrra í gólfið. Við fylgdumst átekta með.

Kötturinn hafði vit á því í þetta sinn að prófa undirstöðuna. Hún fann að kassinn var ekki sem traustastur og tróð sér framhjá honum, smaug inn í skotið sem hún hafði augastað á. Liggur þar enn.

No comments:

Post a Comment