Tuesday, November 30, 2004

Af tveim þjóðarhreyfingum: Með og móti lýðræði



Klukkan 14:00 á morgun (miðvikudag) heldur Þjóðarhreyfingin - með lýðræði blaðamannafund á Hótel Borg. Það stendur til að safna fé til að kaupa stóra auglýsingu í New York Times, þar sem heimsbyggðinni verður gert ljóst að stuðningur íslensku ríkisstjórnarinnar við Íraqsstríðið sé ekki með samþykki íslensku þjóðarinnar. Sjá nánar um fundinn hér.

Ég held að það sé ástæða til að mæta og sýna með því stuðning við birtingu þessarar auglýsingar.

~*~*~*~*~*~*~*~*~

...og þá að því sem mætti kalla „þjóðarhreyfingu gegn lýðræði“...



Davíð Oddsson kallaði Samfylkinguna "gamlan afturhaldskommatittaflokk" í þinginu í gær. (Mér heyrðist hann reyndar fyrst segja „..hommatitta..“ og sperrti eyrun!) Nú ætla ég ekki að fara að heyja skylmingar fyrir hönd Samfylkingarinnar, hún er fullfær um það sjálf, og í sjálfu sér er ... tja ... sumt í þessari nafngift sem ég get í sjálfu sér verið sammála ... en úff, hvaða hundur er hlaupinn í karlinn? Honum ferst, að úthúða öðrum fyrir afturhald. Ég sem hélt að geðvonskan hefði verið skorin úr honum hér um daginn?

~*~*~*~*~*~*~*~*~



Annað af Sjálfstæðismönnum: Heimdallur leggur til að ríkisútgjöld verði skorin niður um 118.000 kr. per mannsbarn. Ýmis ríkisútgjöld er besta mál að séu skorin niður en einu velti ég fyrir mér. Ætli hvert mannsbarn fái þá þennan 118.000-kall í vasann? Ef þessu væri skipt jafnt milli fólks væri það nú eitt (og spurning hvort þeim væri þá ekki allt eins vel komið í samneyslunni) -- en skyldi það vera hugmyndin? Ætli þetta mundi ekki aðallega fara til efnaðri hluta þjóðfélagsins? Mér er spurn.

No comments:

Post a Comment