Monday, November 15, 2004

Ég var að koma af ansi vel heppnuðum fundi Félagsins Íslands-Palestínu í Borgarleikhúsinu. Hann gekk vel og var almenn ánægja með hann að flestu leyti. Eins og seint verður endurtekið, þá er starf lærdómsríkt og af þessum fundi lærði maður ýmislegt, jákvætt og neikvætt. Félagsstarf er gott.

Á morgun, þriðjudag, er kvikmyndasýning um kvöldið. Sýnd verður myndin Gaza Strip eftir James Langley, sem fjallar um lífið á Gazaströndinni. Hún er frá 2002, 74 mínútur að lengd og aðgangur verður ókeypis. Sýningin hefst klukkan 20:15 og eftir hana verða umræður um hana og um málefni Palestínu. Fólk er hér með hvatt til að mæta.



~*~*~*~*~*~*~*~



Stundum hef ég tekið eftir einkennilegu orðalagi hjá fréttamönnum, orðalagi sem virðist koma ósjálfrátt. Það minnir mig á skilyrt viðbragð, eins og hund Pavlovs, sem tókst að láta slefa þegar hann heyrði bjöllu hringt. Málið er, að fréttamenn verða skilyrtir og heilaþvegnir rétt eins og við hin, og ef eitthvað er, þá ekki minna. Sömu frasarnir eru endurteknir æ ofan í æ til að hamra því inn í hausinn á okkur sem okkur á að finnast.

Oftast þegar stórfelld ofbeldisverk eru framin úti í heimi, af einhverjum herskáum hópum, þá er sagt að þar hafi verið að verki hópur "sem talinn er tengjast al-Qaeda" -- og það er yfirleitt innistæðulaust bull.

Einu sinni, þegar Íraqsstríðið var frekar nýlega hafið, þá var ég á næturvakt á Kleppi og um morguninn heyrði ég í Íslandi í bítið talað um "al-Qaeda, hryðjuverkasamtök Saddams Husseins" -- mismæli, sem fréttaþulan leiðrétti ekki og hefur augljóslega ekki einu sinni orðið vör við. Sýnir þetta eitthvað? Tja, mér er nærri að álykta að fólk hafi verið heilaþvegið til að trúa því ómeðvitað, að al-Qaeda og Saddam Hussein tengdust á einhvern hátt. Sem er innistæðulaust bull.

Það þriðja sem mér er í huga heyrði ég nýlega. Eða, réttara sagt, las. Talað var um "the radical Shi'ite cleric Ayatollah Sistani". Gallinn er að ayatollah Sistani er einmitt ekki radical heldur moderate. Það er búið að spyrða orðinu "radical" framan við "Shi'ite cleric" eftir að Moqtada al-Sadr gerði sína uppreisn nýverið! Innistæðulaust bull!

No comments:

Post a Comment