Tuesday, November 23, 2004

Lýðræði: Að geta og gera



Þrennt: Að geta eitthvað ekki, að geta það og gera það ekki, og að geta það og gera það. Sá sem er læs en les ekki er í sjálfu sér ekki betur settur en sá sem er ekki læs. Hann hefur val, má segja, en með því að notfæra sér ekki kunnáttuna fer hann á mis við hana. Auðvitað má hann það alveg, en hvaða tilgang hefur kunnátta sem er aldrei notuð?

Svipað gildir um lýðræði. Við kvörtum og kvörtum en alltaf teljum við okkur hafa val. Við getum breytt einhverju. Hvers vegna gerum við það ekki? Hversu erfitt eða auðvelt væri það og hvers vegna eru ekki fleiri að reyna það?

Ef við getum breytt einhverju en gerum það ekki, eigum við þá eitthvað tilkall til lýðræðis? Höfum við einhvern rétt til að kvarta yfir vandamálum ef við kærum okkur kollótt um lausnirnar? Ef við búum við lýðræði felst í því að við, lýðurinn, getum komið fram breytingum innan rammans sem okkur er settur. Við gerum það ekki. Er það vegna þess að við getum það ekki, eða vantar okkur bara framtak? Eða erum við ekki nógu örvæntingarfull til að nenna því?

Frelsi og hæfileikum fylgir ábyrgð. Því frjálsari sem við erum, þess ábyrgari erum við gjörða okkar, og því meiri hæfileika sem við höfum, þess meiri ábyrgð berum við að við notum þá skynsamlega.

Íslendingar búa við ríkisstjórn sem ber ábyrgð á alvarlegum stríðsglæpum. Það er ekki bara Fallujah, heldur Íraqsstríðið sem slíkt, Afghanistanstríðið, loftárásirnar á Júgóslavíu, viðskiptabannið á Íraq og stríðið í Kosovo, svo eitthvað sé nefnt. Hvers vegna hefur þessari ríkisstjórn ekki fyrir löngu verið komið frá völdum? Ærið hefur hún unnið til þess.



Það er athyglisvert að velta því fyrir sér, hvernig valdastéttin hagar valdatæki sínu, ríkisstjórninni. Meðan við, fólkið, látum stjórnmálamennina hafa ábyrgð og vit fyrir okkur, í staðinn fyrir að gera það sjálf, er allt í lagi og hægt að hafa frjálslegt stjórnarfar að nafninu til. En hvað ef við færum að láta okkur varða landsins gagn og nauðsynjar? Hvað ef við færum að skipta okkur af hinum háu herrum, meintum þjónum okkar? Ég hugsa að það yrði reynt að draga saman segl lýðræðisins þegar færi að blása í þau. Það er auðvitað engin ástæða til þess meðan það er logn í veðurfari íslenskra stjórnmála. Meðan við skiptum okkur ekki af því sem kemur okkur við.

Ef lýðræðið væri skyndilega afnumið af einhverjum ástæðum á Íslandi, væri það þá missir? Já, auðvitað væri það það. Það væri hins vegar ekki jafn mikil breyting á daglegum högum flestra og menn gætu látið sér detta í hug. Nokkur þúsund mundu mótmæla, en ætli mótmælin mundu svo ekki bara fjara út? Sumir spyrja sig hvort maður hafi rétt á einhverju sem maður notar aldrei eða notar á óábyrgan hátt. Ef við nýtum ekki lýðræðið eða nýtum það ekki til góðs ... höfum við þá ennþá rétt á því?

Já, reyndar höfum við það. En sá réttur kemur ekki af sjálfu sér. Til að verðskulda hann verðum við að gæta hans sjálf og við verðum að nota hann skynsamlega. Þegar og ef við förum að nota réttinn skynsamlega, þá er víst að okkur verði settur stóllinn fyrir dyrnar af hagsmunaaðilunum sem núna „annast“ þennan rétt „fyrir okkur“: Þá kemur til okkar kasta að gæta réttarins og vera hans verðug.



Við þurfum að bretta upp ermarnar. Við getum ekki látið bjóða okkur það, að hendur okkar séu blóðgaðar, að við lendum á sakaskrá. Höfum við gert eitthvað til að eiga það skilið? Nei. En við höfum ekki gert neitt til að hindra það.

No comments:

Post a Comment