Friday, July 30, 2004

Tilraunastofa í stjórnvaldsleysi

Það er til land þar sem er engin ríkisstjórn.  Það land heitir Sómalía.  13 ár eru liðin síðan stjórnkerfi landsins hrundi, með borgarastríði og hungursneyð, sem kostuðu tugþúsundir mannslífa, eins og sumir muna. 

Sviptivindar ættbálkaerja og stríðsherra hafa leikið landið grátt á þessum tíma.  Landið hefur ennfremur klofnað upp í tvö og hálft land.  Hin eiginlega Sómalía, klofningslandið Sómalíland, og sjálfstjórnarhéraðið Puntland, sem þó er hluti af hinni eiginlegu Sómalíu.  Sómalíland hefur ekki verið viðurkennt sem ríki af neinu öðru ríki, svo ég viti, en hefur reyndar miðað bærilega við að koma sér upp innviðum (infrastrúktúr), auk þess sem verslun um Sómalíland er allblómleg.

Það mun ekki hafa verið fyrr en um aldamótin 1900, að vísir að miðstýrðu ríkisvaldi lét fyrst á sér kræla í Sómalíu.  Þar var á ferð nýlendustjórn Breta og Ítala.  Sómalía varð sjálfstætt ríki 1960.

Hinir 8 milljón íbúar Sómalíu eru frekar einsleitir: Um 85% eru eþnískir Sómalar, en arabar, Bantumenn og fleiri eru samtals um 15%.  Landið býr yfir þónokkrum náttúruauðlindum.  Kol og landbúnaðarafurðir eru meðal helstu útflutningsvara.

Eftir hrun ríkisvaldsins má segja að hver hafi verið sjálfum sér næstur.  Allharður ættbálkarígur upphófst, en ættbálkskennd mun vera sterk meðal Sómala.  Þeir eru það einsleitir, eþnískt séð, að hefðbundinn rasismi og þjóðerniskennd ná ekki að kljúfa þjóðina.  Þá er gripið til ættbálkskenndarinnar í staðinn.  Auk ættbálkanna eru stríðsherrar fyrirferðarmiklir.  Þeirra frægastur var sennilega Mohammed Farrah Aidid (1934-1996).  Barist var/er um ítök eða völd, yfir allt frá góðum vatnsbrunnum upp í heilu landshlutana.  Eins og víðar eru völd stríðsherranna háð áframhaldandi ófriði.

SÞ sendu friðargæslulið til landsins og Bandaríkjamenn sendu hermenn.  Myndin Blackhawk Down fjallar einmitt um afdrifaríkan dag í Mogadishu, þegar Bandaríkjamenn misstu 18 Rangers fallna í árás (reyndar munu vera verulegar rangfærslur í myndinni).  Svo fór að bæði BNA og SÞ drógu lið sitt út úr Sómalíu, og hafa afskipti umheimsins af henni verið næsta lítil síðastliðin 7-8 ár.  Helst er það að nágrannalöndin, einkumEþíópía og Djibútí, láti sig varða málefni Sómala, gjarnan tengt eigin hagsmunapoti.



Hvers vegna vekur Sómalía áhuga minn, af öllum löndum?

Það var að renna upp fyrir mér, að vel má líta á Sómalíu sem tilraunastofu í stjórnvaldsleysi.  Hvernig bera menn sig að, þegar ekkert er ríkisvaldið?

Í Sómalíu binda mjög margir trúss sitt við ættbálkinn sem þeir tilheyra, eins og áður segir, og njóta vissrar verndar fyrir vikið.  Sumir gerast handgengnir stríðsherrum og undirgangast þannig vald þeirra.  Stríðsherrarnir taka verndartolla og vegatolla og eru því undirsátum sínum dýrir í rekstri.  Stærri fyrirtæki hafa, hins vegar, vopnaða menn á sínum snærum, sem gæta öryggis þeirra.  Það er dýrt fyrirkomulag, að hafa menn undir vopnum, svo sums staðar, einkum á stærri þéttbýlissvæðum, hafa umsvifamiklir bisnessmenn tekið sig saman og komið upp sveitum vopnaðra manna, eins konar lögreglu, til að verjast ágangi stríðsherranna.  Hefur það víða heppnast ágætlega, og þegar verndar- og vegatollum sleppir hafa tekjur stríðsherranna minnkað og þar með völd þeirra.  Þessir sömu aðilar, umsvifameiri bisnessmenn, eru aðalhvatamenn þess að á ný verði komið upp nýju miðstýrðu ríkisvaldi.  Í skjóli þess gætu þeir stundað sinn fyrirtækjarekstur óáreittir.  Þessi viðleitni gæti verið að skila árangri, ef eitthvað er að marka fréttir þaðan.  Hafa fulltrúar ættbálka og sumir stríðsherrarnir verið fengnir til fylgilags við nýja stjórn, og ríkisstjórnir Eþíópíu og Djibouti einnig.  Það vill svo til að í dag, 30. júlí, stendur til að bráðabirgðaþingfyrir Sómalíu  verði sett í Nairobi í Kenýa (sjá þessa frétt).

Nýja ríkisvaldinu verður trúlega falið að tryggja öryggi og reisa við innviði samfélagsins, en ólíklegt er að það fari seilist ofan í vasana hjá mönnunum sem setja það saman, valdaklíkum og viðskiptablokkum.  Þessi vísir að nýju ríkisvaldi er enn sem komið er mjög veikburða.  Stríðsherrarnir og ættbálkahöfðingjarnir sem eiga aðild að því eru margir hverjir, ef ekki flestir, stórtækir mannréttindabrjótar.  Amnesty International hefur því séð ástæðu til að hafa orð á hættunni, að hin nýja ríkisstjórn láti sér mannréttindi í léttu rúmi liggja (sjá frétt hér).



Fyrir hrunið 1991 var nokkur iðnaður í Sómalíu, sem einkum fékkst við að vinnslu landbúnaðarafurða.  Margra ára gripdeildir hafa skemmt mikið fyrir, en vélum hefur verið rænt úr verksmiðjum og verkstæðum og seldar sem brotajárn.  Landsframleiðsla á mann er með því lægsta sem þekkist í heiminum.

Þrátt fyrir afleitt ástand á mörgum sviðum hefur mönnum þó tekist sumt.  Viðskipti ganga t.d. ekki jafn illa og halda mætti.  Einn árangursríkur bisnessmaður ljóstraði upp um leyndarmál sitt og komst svo að orði: „Everything is possible in Mogadishu now, everything.  If you have the money and the knowledge, you can do whatever you want.“ (sjá þessa grein).  Meðal fyrirtækja sem hafa borið eftirtektarverðan árangur eru t.d. símfyrirtækja.

Þar sem ekkert er ríkisvaldið eru heldur enginn seðlabanki.  Stærri fyrirtæki gefa út sína eigin peningaseðla (vörupeninga) sem ganga sem gjaldmiðill vegna þess að fólk treystir þeim.  Það er jú, þegar öllu er á botninn hvolft, það sem sker úr um hvernig einum gjaldmiðli gengur, hvort fólk treystir honum eða ekki.

Þar sem ekkert er ríkisvaldið eru ennfremur hvorki lög né opinberir dómstólar.  Sum svæði hafa komið sér upp sínum eigin dómstólum, sums staðar með eigin lögum, annars staðar með gömlu lögunum, sums staðar með íslömsku shari'a-lögunum (langflestir Sómalar eru múslimar) og sums staðar með hefðbundnum reglum ættbálkanna.  Einnig er það algengt, þegar misklíð verður, að öldungar séu látnir miðla málum.



Í Sómalíu er menntun lítil, bæði akademísk menntun og iðnmenntun.  Alnæmi er alvarlegt vandamál þar eins og víðar, og eru vestrænar hjálparstofnanir litnar hornauga af mörgum þegar þær koma og dreifa ókeypis smokkum meðal fólks.  Sú skoðun er útbreidd að skírlífi og einkvæni séu besta vörnin við alnæmi, en smokkar ýti undir lauslæti, sem aftur auki útbreiðslu sjúkldómsins.

Íslam er sterkt afl í samfélaginu, þar sem langflestir eru súnní-múslimar.  Pólítísk umræða einkennist mjög af íslam, ættbálkaríg og þjóðernislegum eða borgaralegum afturhaldshugmyndum.  Á netinu eru sómalskir spjall-vettvangar á ensku, sem hægt er að skoða til að fá tilfinningu fyrir umræðunni, svosem spjall SomaliNet um stjórnmál eða Somalia Online.



~~~~~~~~~

Ég leik mér að hugmyndinnu um að það væri hægt að gera eitthvað reglulega róttækt og framsækið í Sómalíu.  Á 8. áratugnum var til hreyfing sem nefndist Somali Communist Revolutionary Party, en núna mun ekki vera til neinn róttækur, framsækinn vinstriflokkur í Sómalíu.  Minnugur orða bisnessmannsins, „Everything is possible in Mogadishu now, everything,“ velti ég vöngum yfir hvort ekki væri hægt að hlúa að sjálfsbjargarviðleitni fólks, boða meðal þess róttækan vinstriboðskap, en sameina það gegn afturhaldsöflunum sem ráða ferðinni.  Leiða því fyrir sjónir að ættbálkahöfðingjarnir, stríðsherrarnir, borgaralegu bisnessmennirnir og erlendu útsendararnir eru allir með tölu angar af meira og minna sömu valdastéttinni, og að þeir eru sameiginlegir óvinir undirstéttarinnar.  Klofningur undirstéttarinnar er henni til mikillar óþurftar og stendur framförum fyrir þrifum.  Með liðsinni framsækið þenkjandi athafnafólks mætti kannski koma í kring afrekum.

Ég er nú samt svartsýnn á að þessi draumur mundi rætast í alvörunni.  Ítök trúar og ættbálkskenndar eru mjög sterk.  Ég, fyrir mitt leyti, kem flestum Sómölum sennilega fyrir sjónir sem hvítur Vesturlandabúi, alinn á ofdekri og vínarbrauði, kann ekki að vinna og hef aldrei verið svangur.  Hvað ætti ég svosem að vita um hið raunverulega líf?  Auk þess sem hugmyndir mínar mundu líkast til falla í mjög grýttan jarðveg, þá yrði þeim sennilega veitt geysihörð mótspyrna líka, frá afturhaldsöflunum.  Í landi sem á ofgnótt af fáu öðru en Kalashnikov-rifflum getur slík staða verið varasöm.  Þá má ekki gleyma því að Sómalía er efnahagslega vanþróað land og, eins og áður sagði, menntun slæm og landsframleiðsla lítil.  Stétt verkamanna er fámenn, hvað þá iðnverkamanna.  Stór hluti landsmanna eru hirðingjar.



Ég geri mér semsagt engar grillur um að þessi hugmynd sé raunhæf.  En það er víst í lagi að láta sig dreyma.

No comments:

Post a Comment