Wednesday, July 21, 2004

Í alvöru lýð-ræði eru það hinir almennu borgarar sem eru uppspretta valdsins og stjórnmálamenn eru fulltrúar þeirra eða þjónar, ekki herrar.  Þótt ríkisstjórnin hafi haft ósigur í fjölmiðlamálinu hlýtur það samt að vekja menn til umhugsunar, að svona mál skuli koma upp, þar sem augljóslega eru frekar fáir menn sem telja sér stætt á því að reyna að troða löggjöf ofan í kokið á þjóðinni, hvort sem henni líkar betur eða verr.  Það kann að vera rétt að endurskoða stjórnarskrána en reyndar held ég, fyrir mitt leyti, að hinir háu herrar séu ekki sérstaklega líklegir til að gera mjög framsæknar breytingar á henni.

Hvaða breytingar vildi ég sjá gerðar á henni?

Ég mundi meðal annars vilja sjá tafarlausan aðskilnað ríkis og kirkju.  Ég mundi vilja sjá valdi hins opinbera dreift eins og kostur er.  Sumu til sveitarfélaga, sumu í þjóðaratkvæðagreiðslur, sumt mætti útfæra á einhvern annan hátt.  Sumt mætti hreint og beint leggja niður.

Sagt er að þjóðaratkvæðagreiðsla kosti 200 milljónir.  Ef það skiptist niður á kvartmilljón manna, þá eru það um 800 krónur á mann.  Með öðrum orðum, það kostar okkur jafn mikið að halda eina þjóðaratkvæðagreiðslu og að fara einu sinni í bíó.  Er það svo hræðilega há upphæð?

-------------------------------------

Hannes Hólmsteinn skrifar smá innlegg í Morgunblaðið í dag, sennilega það sjötugasta og sjöunda það sem af er sumri.  Mér er óskiljanlegt að þessum manni skuli vera hampað eins og snillingi meðan maður eins og Elías Davíðsson er í ritbanni.  Nú hefur Morgunblaðið víst rétt til að ráða hvað það birtir og hvað ekki.  Mér finnst það hins vegar undarleg vinnubrögð að gera svona mikið úr því þegar Hannes eys eiturspýjum á báða bóga.  Smábarnalegar og ómálefnalegar árásir á Ólaf Hannibalsson eru til að mynda ekki háskólaprófessor sæmandi.  Hvað sem um Ólaf má segja hlýtur það altént að vera grundvallarkrafa, þegar svona þjóðfélagsumræða er annars vegar, að lágmarksvirðingar gæti í skrifum manna, eða hvað?  Hannes á ekki í fórum sínum svör gegn Ólafi og hvað gerir hann?  Hann breytir bara um umræðuefni.  Ef út í það er farið má segja að Hannes hafi ekki beinlínis manna mest efni á persónulegu skítkasti.

-------------------------------------

Í fréttum RÚV:

SÞ: Ísraelar eiga að rífa múrinn

Allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna samþykkti með yfirgnæfandi meirihluta, ályktun í gærkvöld þar sem Ísraelum er skipað að rífa aðskilnaðarmúrinn, sem þeir eru að reisa kringum lönd Palestínumanna. 

Ályktun um að múrinn 640 kílómetra langi,  sé brot á alþjóðalögum og ólöglega reistur á herteknu landi, var samþykkt með  atkvæðum 150 aðildarríkja, gegn sex en 10 sátu hjá.


Sé skyggnst á heimasíðu Sameinuðu þjóðanna sést þetta:

Voting against the measure were Australia, the Federated States of Micronesia, Israel, the Marshall Islands, Palau and the United States. The countries that abstained were Cameroon, Canada, El Salvador, Nauru, Papua New Guinea, the Solomon Islands, Tonga, Uganda, Uruguay and Vanuatu.



Þetta mundi, á máli neoconservative Bandaríkjastjórnar, sennilega kallast "bandalag" eða "víðtæk samstaða" eða eitthvað þvíumlíkt.  Athygli vekur að á þessum lista er Ísland ekki.  Það þýðir að Ísland hefur, einu sinni, greitt atkvæði á móti aðskilnaðarmúrnum.  Það er nú óvenjulegt en gott.

Eins og fram kemur í frétt Morgunblaðsins er fyrirhuguð lengd aðskilnaðarmúrsins um 640 kílómetrar að lengd.  Ummál Vesutrbakkans í heild er 404 kílómetrar.  Landamæri Vesturbakkans og Ísraels eru allt í allt 307 kílómetrar.  Múrinn er meira en tvöföld sú lengd.  Enn og aftur bendi ég fólki á að skoða þetta góða kort, sem sýnir legu múrsins og hvernig honum er ætlað að skera Vesturbakkann í smáparta.

Ísraelar ætla að sjálfsögðu ekki að láta þessa skýru niðurstöðu hagga við sér.  Stigamannaríkisstjórn Sharons lætur ekki kvikindi eins og SÞ eða „mannúðarsjónarmið“ [les: áróður og samsæri kommúnista og hryðjuverkamanna] segja sér fyrir verkum, en heldur ótrauð sínu striki.  Með væntanlegum stuðningi hins friðelskandi Verkamannaflokks.  Úff...

Arafat virðist vera kominn í hann krappan á Gazaströndinni.  Það er enginn leikur þegar verður til valdatóm.  Mismunandi fylkingar bítast um að fylla upp í það.

-------------------------------------

Paul Harris skrifar um argentínskt spil sem er kannski keimlíkt Matador, en snýst um að maður leikur land og á að safna sem minnstum skuldum í togstreitu við Alþjóða gjaldeyrissjóðinn.  Þetta er spil sem mig langar að prófa!  Óska hér með eftir spænskumælandi sjálfboðaliða sem vill kaupa þetta spil, þýða það á íslensku og spila það við mig!

-------------------------------------

Hin umdeildu samtök PETA sýna myndband, tekið upp á laun, sem sýnir illa meðferð kjúklinga á kjúklingabúi í Bandaríkjunum.  Ógeðfellt, svo ekki sé meira sagt.

No comments:

Post a Comment