Monday, July 19, 2004

Ef annað skyldi hafa hvarflað að einhverjum, þá vil ég aðskilnað ríkis og kirkju.  Því fyrr, þess betra.  Stjórnmál og trúarbrögð eiga ekki samleið, aldrei, aldrei!  Sama hvort stjórnvöldin eru íslömsk, bókstafstrúar kristin, kaþólsk, hindúísk eða hvaðeina.  Tafarlausan aðskilnað ríkis og kirkju!  Ég tel trú vera á bilinu frá því að vera gagnslaus yfir í að vera skaðleg.  Ég aðhyllist trúfrelsi, ekki spurning, en trú og pólítík ættu að vera stranglega aðskilin.  Svona finnst mér að þetta ætti að vera: Afhelgað og veraldlega ríkisvald skipti sér ekki neitt af trúarbrögðum fólks eða öðrum lífsskoðunum.  Þeir sem telja lífsskoðanir sínar eiga erindi til annarra gera það á eigin forsendum, annað hvort sem einstaklingar eða hópar, eftir því sem þeim þykir tilefni til, á vettvangi grasrótarinnar og óháð afskiptum ríkisvaldsins.  Ég veit að ég er ekki einn um þessa skoðun og held reyndar að skoðanasystkinin séu býsna mörg.  Þarna væri lag að koma á laggirnar þverpólítísku þjóðarátaki um aðskilnað ríkis og kirkju.  SARK - Samtök um aðskilnað ríkis og kirkju - eru að vísu til nú þegar, en mér þætti kannski ástæða til víðari regnhlífarsamtaka.

--------------------------------

Á Múrnum er þessi skemmtilega grein sem ég hvet fólk til að lesa: Matadorkynslóðin.

--------------------------------

Ljótu fréttirnar frá Palestínu eins og oft áður.  Ég held að það hafi ekki verið sterkur leikur hjá Arafat að skipa þennan frænda sinn.  Þessir menn, sem gerðu aðsúg að lögreglu, hertóku eitt hús heimastjórnarinnar og hvaðeina, voru sagðir tilheyra hópi sem "tengdist Fatah-hreyfingu Arafats".  Ég held að eitt sé ljóst: Fatah-hreyfingin er ekki strengjabrúða Arafats ef menn hennar ráðast á menn Arafats sjálfs.  Fatah-hreyfingin hefur ekki getað haldið aðalfund í fjölda ára og raunveruleg völd innan hreyfingarinnar endurspeglast því ekki í embættum hennar.  Ég get ekki sagt hvernig niðurstöðurnar yrðu ef stokkað væri upp í forystu Fatah eftir vilja almennra félagsmanna.  Hins vegar get ég sagt eitt þeim sem ekki vita: Fatah-hreyfingin er ekki bara "hreyfing Arafats" eins og mætti halda af fréttaflutningi.  Fatah er stjórnmálaflokkur, sá stærsti meðal Palestínumanna.  Er Sjálfstæðisflokkurinn "hreyfing Davíðs Oddssonar"?  Skárra væri það nú.  Þarna veikist líka ein tengingin, sem mjög er haldið að okkur: Um Al-Aqsa herdeildirnar, sem ávallt eru sagðar "tengjast Fatah, hreyfingu Arafats".  Ég dreg í efa að Arafat ráði miklu um gang mála innan Al-Aqsa herdeildanna.

--------------------------------

Ekki eru heldur skemmtilegar fréttir frá Íraq.  Þarna getur að líta quislingastjórnina í essinu sínu, að gera það sem til er ætlast af henni: Ljá stríðsglæpum Bandaríkjamanna lögmæti á yfirborðinu.  "Allawi heimilar loftárásir á Fallujah" - hvað er verið að segja með þessu?  Fyrir það fyrsta, Allawi er bandarískur leppur.  Þegar er sagt að Allawi heimili eitthvað mætti skipta "Allawi" út fyrir "Bandaríkjastjórn": Bandaríkjastjórn heimilar loftárásir á Fallujah.

Alltaf þegar eru gerðar atlögur að borgurum Fallujah, þá er það undir yfirskyni þess að verið sé að ráðast á "jórdanska hryðjuverkamanninn Abu Mussab al-Zarqawi".  Ég er ekki einu sinni sannfærður um að þessi maður sé til, til að byrja með.  Ef hann er til í alvörunni, þá tel ég sirka 75% líkur á að hann sé bandarískur leppur líka.  Alla vega virðist allt sem hann gerir spila beint upp í hendurnar á Bandaríkjamönnum.  Sú alda ógnarverka sem er eignuð honum gefur Bandaríkjaher "heimild" til að fara sínu fram í nafni óræðs "öryggis".

Hvað með Fallujah?  Þessi borg varð hrottalega fyrir barðinu á bandaríska hernum fyrir nokkrum mánuðum.  Tveir bandarískir "öryggisverktakar" (les: málaliðar) voru drepnir.  Eftir því sem ég kemst næst voru þessir menn ótíndir hrottar sem hefðu aldrei átt að koma til Íraq til að byrja með.  Leitt að þeir hafi verið drepnir, en það er nú samt ekki eins og þetta hafi verið óbreyttir borgarar.  Þungvopnaðir menn, þrautþjálfaðir í hverskyns ofbeldi og ráðnir til að lúskra á heimamönnum.  Ef maður dúsar í fangelsi að ósekju og fangavörður skemmtir sér við að misþyrma honum, hver láir þá fanganum fyrir að reiðast??

En þetta var ekki bara árás á tvo gaura.  Þetta var árás á tvo bandaríska gaura sem gengu erinda heimsveldisins.  Með öðrum orðum, þetta var árás á heimsveldið.  Þar sem drápin nutu almennrar hylli Fallujah-manna var ekki annað hægt en sýna þessum óstýrilátu heiðingjum í tvo heimana.  Við tóku margra daga bardagar þar sem ekkert var gefið eftir.  Í fréttum var látið líta svo út að um frekar fámennt lið útlendinga og Zarqawi-manna væri að ræða, auk saddamista, en í rauninni vörðu íbúar Fallujah borgina sína í örvæntingu fyrir innrásarhernum og andspyrnan var almenn.  Gekk þeim vörnin nægilega vel til þess, að bandaríski herinn féllst á málamiðlanir.  Hvernig datt íbúum Fallujah í hug að þeir væru lausir allra mála?  Kannski datt þeim það aldrei í hug.

Ögrun við yfirburði Bandaríkjanna þarf að svara með viðeigandi hætti: Ofbeldi.  Það var bara tímaspursmál hvenær Fallujah yrði hegnt fyrir að hafa streist á móti innrásarhernum.  Fyrir að hafa barist gegn yfirgangi og fyrir þjóðfrelsi.

 

Í millitíðinni er írösq leppstjórn komin til sögunnar.  Allawi quislingur hefur að nafninu til vald til að "heimila" fyrir hönd írösqu þjóðarinnar, m.a. að Bandaríkjamenn fái olíuvinnslu á silfurfati, auk annarra samninga sem þeir munu hagnast verulega á, og að þeir berji niður mótspyrnu í landinu.  Að nafninu til er það því forseti Íraqs sem er að reyna að halda friðinn í ríkinu, þegar "hryðjuverkamaðurinn Zarqawi" espar til "óeirða" og "brota gegn valdstjórninni".

Fær einhver annar en ég óbragð í munnunn af þessu?  Sumir segja að árásin á Fallujah eigi kannski mest skylt við árás ísraelska hersins á Jenín-flóttamannabúðirnar í apríl í hittifyrra.  Alla vega lærðu Bandaríkjamenn af ísraelskum liðþjálfum og horfðu á kennslumyndbönd gerð um árásina á Jenín.

Ég hef gengið um rústir flóttamannabúðanna í Jenín.  Þær hlutu örlög sem ég óska engu byggðarlagi.

 

Fallujah er skotmark Bandaríkjamanna, ekki vegna þess að Zarqawi sé þar eða Ósama eða David Koresh.  Íbúarnir streittust á móti þegar átti að misnota þá.  Dauðasök.

--------------------------------

 

Franska stelpan sem tilkynnti lögreglu um árás norðurafrískra gyðingahatara á sig viðurkennir að hún hafi verið að skrökva.  Fyndin skröksaga?  Skondin uppákoma?  Lesið þessa grein eftir heiðursmanninn hann Uri Avnery og sjáið hvað ykkur finnst.

No comments:

Post a Comment