Wednesday, July 7, 2004

Alveg eru kostulegar brellur ríkisstjórnarinnar með fjölmiðlafrumvarpið. Veruleikafirringin er algjör. Davíð Oddsson lætur eins og naut í flagi, ölvaður af valdhroka og samdauna embætti sínu. Meira að segja G.W. Bush hefur orð á því að hann sé "fastur fyrir og fylginn sér" og "mjög ákveðinn"!

Ég kenni í brjósti um pólítíska andstæðinga mína á hægri vængnum, þ.e.a.s. þá þeirra sem láta píska sig til hlýðni. Ég held að með hliðsjón af því, hvernig ég hallast í pólítík, hafi ég efni á að segja þetta: Það kann ekki góðri lukku að stýra þegar þarf að lemja menn til að halda sig á línunni, hvort sem línan er gefin í Kreml eða Valhöll. Þegar farið er að láta menn tala opinberlega þvert gegn betri vitund, samvisku og sannfæringu, þá er illt í efni.

Það skal enginn segja mér að Sjálfstæðismenn almennt séu hrifnir af þessari aðferð, að skella fram ljótu frumvarpi og ætla sér með ljótum brellum og aflsmunum að koma því í kring. Núna, sem oftar, er ég því feginn að hafa hoppað af lest Sjálfstæðisflokksins á sínum tíma.

Það er reyndar fróðlegt að fylgjast með um þessar mundir, því ríkisstjórninni gengur svo óvenjulega illa að sveipa sitt sanna eðli tjásulegri dulu lýðræðisins eða auðmjúkrar þjónkunar við almenning. Óvenjulega illa. Auk þess gengur óvenju illa hjá ríkisstjórninni að þykjast reka heiðarlegan erindisrekstur í þingsölum.

Ríkisvaldið er verkfæri valdastéttarinnar og borgaralegur stjórnmálaflokkur sem keppir að áhrifum er fulltrúi fyrir straum eða strauma í valdastéttinni, fyrir valdablokkir og hagsmunahópa. Sjálfstæðisflokkurinn er fulltrúi sægreifa og heildsala, meðal annarra. Um þessar mundir þjónar hann, eins og endranær, dyggilega þeim sem stjórna honum, og þar með þeim hagsmunum sem þeir standa fyrir en ekki hagsmunum þess hóps sem í daglegu tali kallast þjóðin. Andspænis þeim stendur önnur valdablokk, hið rísandi veldi Baugsfeðga. Innbyrðis skylmingar borgarastéttarinnar eru háðar fyrir óvanalega opnum tjöldum, og það er fróðlegt að fylgjast með.



-------------------------



Félagið Ísland Palestína og Græna ljósið bjóða til sérstakrar forsýningar fimmtudaginn 8. júlí klukkan 20:30 í Háskólabíói á kvikmyndinni Divine Intervention. Miðasala rennur óskert til neyðarsöfnunar FÍP. Ég hvet fólk að sjálfsögðu til að fjölmenna og taka vini sína með. Ég hef beðið eftir þessari mynd með eftirvæntingu. Burtséð frá því hvaðan hún kemur og um hvað hún fjallar, þá ku hún vera listavel gerð, og hefur enda unnið til verðlauna og verið bönnuð í Ísrael. Nánari upplýsingar hérna.



-------------------------



Nokkrar ábendingar um áhugavert lesefni:



* Lenín: Sósíalismi og trúarbrögð.



Frá World Socialist Web Site:

* Frábær og analýtísk grein um sýndarréttarhöldin yfir Saddam Hússein;

* Sígild grein James P. Cannon um þjóðhátíðardag Bandaríkjanna og Karl Marx.



Frá Power and Interest News Report:

* Readjustment to American Weakness: Signs of a Power Vacuum;

* The Weakness in the White House: The President.



Frá AlterNet.org:

* The Progressive Case for Patriotism;

* Vitnisburður um þjóðarmorð í Súdan;

* Úttekt á umhverfisstefnu Bush-stjórnarinnar.



-------------------------



Í fréttum:

* Össur lætur skína í, með hverjum hann hefur áhuga á að vinna - og þar með hvaða stjórnarmynstri má búast við ef Samfylkingin fær mikið fylgi?

* Stjórn Norður-Kóreu varar þegna sína við skaðlegum áhrifum af smygluðum Biblíum og áróðri kapítalista;

* Ratzinger kardínáli bannfærir John Kerry óformlega.

No comments:

Post a Comment