Sunday, July 18, 2004

Þessi skoðanakönnun bendir til þess að meirihluti Bandaríkjamanna telji núna að Bandaríkin hefðu aldrei átt að ráðast á Íraq.  Betra er seint en aldrei, býst ég við.  Á sama tíma gefur John Kerry út yfirlýsingar sem styggja ekki valdastéttina í Bandaríkjunum: Bandaríski herinn verði í Íraq ekki skemur en til 2008 og hann kveðst reiðubúinn fyrir "any political move".  Andófsmennirnir Michael Moore og Noam Chomsky hafa báðir lýst stuðningi við að Kerry nái kjöri -- þ.e.a.s. hvatt fólk til að kjósa hann, meinandi að með kjöri hans til forseta fengi hreyfingin gegn stríði útrás og nokkurn hljómgrunn.  Kerry er ekki friðarsinni og ef hann nær kjöri mun hann ekki sitja á friðarstóli frekar en forverar hans.  Því miður.  Stuðningur málsmetandi andófsmanna við hann er afturhaldssamur og grefur undan trúverðugleika þeirra sem málflytjenda framsækni og raunverulegra umbóta.

Þegar ég tala við Bandaríkjamenn hvet ég þá til að veita Bill Van Auken og Jim Lawrence brautargengi í kosningunum.  Þeir bjóða fram fyrir Socialist Equality Party og eru langbesti kostur sem ég hef séð.  Kannski ekki fullkomnir en ekki hef ég séð annan kost betri.

-------------------------------------

Naumast eru það fréttirnar frá Palestínu.  Maður hlýttur að reka upp stór augu, þegar mannræningjar eru farnir að setja heimastjórninni skilyrði og spilltir embættismenn (?) eru fyrst reknir þegar mannræningjarnir krefjast þess?  Nú er palestínska heimastjórnin ekki beysin og hefur reyndar aldrei verið.  Ég er mjög efins um að hún hafi nokkra burði til að koma almennilegum umbótum í höfn, af ýmsum ástæðum.  En það keyrir nú um þverbak ef það er sem virðist, að framsæknar uppstokkanir og umbætur komi frá mannræningjum?  Ég hef ekki nákvæmar fréttir af Frökkunum sem var rænt, en mér þykir bæði einkennilegt og sérstaklega óskemmtilegt ef erlendir hjálparstarfsmenn eru farnir að verða fyrir barðinu á vígamönnum í herbúðum Palestínumanna.  Reyndar svo einkennilegt og óskemmtilegt að ég hlýt að spyrja mig, hvort það hafi verið Palestínumenn eða etv. einhverjir aðrir, sem áttu upptökin að því?  Ekki það, að auðvitað eru svartir sauðir meðal Palestínumanna.

Ísraelar fara annars mikinn í Beit Hanoun á Gazaströndinni um þessar mundir.  Brjóta hús og limlesta fólk og drepa, og skutu nú síðast á bílalest frá Sameinuðu þjóðunum, sem var á leið til borgarinnar með hjálpargögn.

Talandi um Palestínu, þá vil ég benda fólki á að kíkja á þessa skýringarmynd sem Palestine Monitor býður upp á á heimasíðu sinni.  Á myndinni sjást landakort sem sýna landsvæðið sem Palestínumönnum hefur verið ætlað í gegn um tíðina, skýrt og skorinort.

-------------------------------------

Ég var annars að reka augun í opinbera norðurkóreska heimasíðu -- þrátt fyrir alla galla norðurkóresku stjórnarinnar, þá get ég ekki varist áhuga á þessu óvenjulega landi.

Norður-Kórea er þrælvel vopnum búin og getur á augabragði skotið stóra hluta Japans og Suður-Kóreu í sand og ösku.  Sumar eldflaugar þeirra (Taepo-dong-3) drífa alla leið til Alaska.  Norðurkóreski herinn ku vera sá fimmti fjölmennasti í heimi og er ógnvænlegur.  Í stuttu máli sagt, Norður-Kórea er óárennileg.  Bandaríkin geta ekki hætt á það að ráðast á hana með beinum hætti, bæði vegna vígbúnaðar Norðurkóreumanna, og einnig vegna Kínverja.  Kínverjar eiga hagsmuna að gæta í Norður-Kóreu og það er þeim mikilvægt að ríkið hrynji ekki saman.  Reyndar er hættuleg Norður-Kórea líka gagnleg Bandaríkjamönnum.  Meðan hún er trúverðug ógn geta þeir skýlt sér á bak við hana til að viðhalda massívri hernaðarviðveru í A-Asíu og halda Kínverjum í skefjum án þess að vera opinberlega í vígbúnaðarkapphlaupi við þá.  BNA eru með Kína í sigti í praxís þótt þeir séu það ekki að nafninu til.

Ef Bandaríkjamenn eða aðrir óvinir Norður-Kóreumanna fá nóg af ógninni sem stafar af stigamannaríkinu, hvaða leiðir eru þá færar til að draga úr því tennurnar?  N-Kóreumenn hafa lýst því yfir að þeir mundu líta á viðskiptabann sem jafngildi stríðsyfirlýsingar.  Beint stríð er svo gott sem útilokað vegna mutually-assured-destruction ástands á svæðinu.  Eina leiðin sem ég get ímyndað mér að sé fær er að útsendarar mundu komast í innstu raðir stjórnkerfisins og hersins og gera hallarbyltingu, og koma svo í kring þeim breytingum sem yfirmenn þeirra vildu.  Ég held að þetta séu sennilegustu lyktir á hnútnum í Kóreu.  Það þyrftu ekki einu sinni að vera útsendarar Bandaríkjamanna.  Rússar eða Kínverjar gætu allt eins komið til greina.  Ég hugsa að Kim Jong-il sé mjög meðvitaður um þessa hættu og stundi hreinsanir í röðum manna sinna af miklum móð til að afstýra henni.  Hver sagði að það gæti ekki gert mönnum gagn að vera vænisjúkir?

1999 fór þýski læknirinn dr. Norbert Vollertsen til Norður-Kóreu til að leggja heimamönnum lið ef henn gæti.  Þar dvaldi hann í 18 mánuði, varð margs vísari og miðlaði af óhugnanlegri reynslu sinni.  Fróðlega grein um hann og störf hans má lesa hérna.  Auk þess bendi ég áhugasömum á langa en mjög fróðlega ferðasögu Bandaríkjamanns sem fór til N-Kóreu og hafði ýmislegt um hana að segja.

No comments:

Post a Comment