Tuesday, July 27, 2004

Almenningssamgöngur, Norður-Kórea og fleira



Vegna umræðna um almenningssamgöngur upp á síðkastið held ég að ég geri grein fyrir afstöðu minni: Lengi lifi almenningssamgöngur.  Ég er fylgjandi því að almenningssamgöngur veiti þjónustu eins og eftirsóknarverðast getur verið fyrir notendur: Stundvíslega, greiðlega og ókeypis.  Ha, lásuð þið rétt?  Já, ókeypis.  Ef almenningssamgöngur væru ókeypis, þá mundi mun fleira fólk nýta sér þær en gerir það nú.  Ef maður gæti einfaldlega stigið inn í strætisvagninn, þessvegna að aftan, án þess að þurfa að borga, þá er ég viss um að strætisvagnar yrðu vinsælli ferðamáti en þeir eru.  Hvers vegna þætti mér það æskilegt?

Fyrir hvern mann sem tekur strætó í staðinn fyrir að aka á einkabílnum, þá er u.þ.b. einum einkabíl minna á götunni.  Það þýðir minni bensín/díselolíunotkun, minni mengun, minni umferð, minni hætta fyrir vegfarendur, lægri tryggingakostnaður, minna slit á umferðarmannvirkjum og þar með minni viðhaldskostnaður, minna slit á bílaflotanum og að bílaflotinn geti að ósekju verið mun minni en hann er.

Í stuttu máli, það væri þjóðhagslega hagkvæmt.

Ef almenningssamgöngur væru ókeypis og í umsjá sveitarfélaganna eða á annan hátt hluti af samneyslunni, og væru auk þess betur skipulagðar (t.d. með fjölbreyttara og sveigjanlegra leiðakerfi og vagnaflota), þá mundi fólk án nokkurs vafa nýta sér það mun meira en það gerir nú.  Áður nefndur árangur mundi síðan spara samfélaginu svo mikið að sparnaðurinn einn mundi hrökkva fyrir kostnaðinum af því að hafa almenningssamgöngurnar ókeypis, og gott betur.



Ég held að sérstaklega mikil ástæða sé til að sporna gegn mikilli jeppanotkun landsmanna.  Ekki það, að ég sé á móti jeppum í sjálfu sér, síður en svo.  Jeppi er gott og þarft farartæki þar sem hans er þörf.  En jeppi innanbæjar?  Hvaða ástæðu hefur maður til að keyra jeppa ef maður fer aldrei svo mikið sem út af malbikinu?  Stöðutákn?  Stöðutákn sem eyðir miklu eldsneyti, er þungt og skapar óþarfa hættu í umferðinni og óþarfa fyrirferð líka.  Ég held að það þyrfti að skoða það, hvernig hægt væri að fá fólk til að nota farartæki í samræmi við það sem það er að fara.

********************

Vegna undirtekta við síðasta innlegg mitt ætla ég að gera nánari grein fyrir afstöðu minni til Norður-Kóreu og málefna hennar.

Eins og sjá má tók ég það fram, að vottaði ekki fyrir því hjá mér, að hafa samúð n-kóreskum stjórnvöldum.  Þau hafa gersamlega rangt fyrir sér í mörgum grundvallarmálum (mannréttindi, herská utanríkisstefna o.fl.), en það er ekki þar með sagt að sjónarmið þeirra séu óskiljanleg.  Eðlilega vilja þau tryggja stöðu sína og völd og þar með hljóta þau að streitast gegn ásælni óvina sinna, svosem Bandaríkjamanna.  Annars hefur vígbúnaðurinn gegn Norður-Kóreu minna að gera með Norður-Kóreu en með Kína.  Hermenn í Suður-Kóreu og Japan gegna fyrst og fremst hlutverki fælingarmáttar gagnvart Kínverjum, en N-Kórea gegnir líka hlutverki fyrir Kínverja.

Ég held að það væri skásti kostur að normalisera tengsl umheimsins við N-Kóreu.  Ég hugsa að borgarar landsins mundu taka réttlætið í eigin hendur ef þeir fengju tækifæri til þess.  Aðstæður eins og ríkja núna spila beint upp í hendurnar á n-kóreskum stjórnvöldum þar eð þau geta í skjóli þeirra komið fram vilja sínum við þegnana í nafni öryggis og nauðsynjar.  Ásakanir Bandaríkjamanna um mannréttindabrot eru að líkindum meira og minna réttmætar.  Hins vegar hafa ásakanirnar lítið með mannréttindabrotin að gera í sjálfu sér.  Mannréttindi eru bara skiptimynt í baráttunni um hagsmunina.  Það sést af því hvernig Bandaríkjastjórn styður dyggilega við stjórnvöld sem brjóta grimmilega á mannréttindum.  Má þar nefna Saúdi-Arabíu, Egyptaland og Ísrael, auk þess sem Bandaríkin sjálf brjóta grimmt á manréttindum jafnt erlendis sem heima fyrir.  Þá má minnast keisarans í Íran, sem steypt var 1979, sem var einhver mesti fantur sem sögur fara af og mun hafa átt heimsmet í mannréttindabrotum á sinni samtíð.  Fjölda annarra dæma mætti tína til.

********************

Það eru nokkrar bækur sem er að verða ansi brýnt að ég lesi.  Ég hef verið að velta því fyrir mér að taka mér frí frá öðru en lestri í nokkra daga.





No comments:

Post a Comment