Tuesday, December 21, 2021

Satt, skáldað og logið

Ef maður vill fara varlega ætti maður eiginlega ekki að segja brandara. Ef brandarinn er á kostnað forréttindakarls, þá er það svo dæmigert og gerir konur ósýnilegar, eða aðra minnipoka- eða jaðarsetta.

Nú, og svo er það gagnrýnin um að karlkyns rithöfundur geti ekki skrifað kvenpersónu þannig að hann setji sig í hennar spor. Það sé bara ekki hægt. Sama hlýtur að mega segja um aðra hópa sem eiga aðra lífsreynslu en við forréttindapésar. Gæti ég sett mig í spor blökkumanna eða indíána? Fatlaðra? Hinsegin fólks? Munaðarlausra? Nú, dýra?

Þetta gæti líka virkað á hinn veginn. Getur niðursetningur sett sig í spor húsbóndans svo raunhæft sé?

Það er öruggast að halda sig bara við það sem maður þekkir. Segja sögur frá eigin reynslu, eða eftir tilgreindum heimildum. Enda er skáldskapur bara fancy orð fyrir skrök. Ég ætla að gera orð Ara í Aravísum að mínum: Þið eigið að segja mér satt!

No comments:

Post a Comment