Tuesday, October 26, 2021

Um málfrelsi

Málfrelsi þýðir að ríkið refsi okkur ekki fyrir að tjá skoðanir okkar. Það þýðir ekki að það megi segja hvað sem er hvar sem er.

Málfrelsi eru þegar settar skorður í lögum og víðar, meðal annars bann við hatursorðræðu. En hvað er hatursorðræða annars? Þarf að vera illur ásetningur að baki? Eða er tillitsleysi kannski nóg? Eins og að taka ekki tillit til tilfinninga sem gætu verið viðkvæmari en hjá manni sjálfum, kannski vegna ævilangrar jaðarsetningar?

Við sem fæðumst með relatíf forréttindi getum ekki ætlast til þess að fólki af jaðarsettum hópum líði eins og okkur með alla hluti. Við getum t.d. ekki bara afskrifað homma sem húmorslausa fyrir að sárna að vera notaðir sem blótsyrði eða efni í grín. Þykir kannski einhverjum ennþá sjálfsagt að "hommar og kerlingar" sé samheiti við væskla og skræfur?

Og ef transfólk kvartar undan því að því líði illa í einhverjum aðstæðum, þá á að hlusta á það en ekki gera lítið úr því eða furða sig á hvað það sé hörundsárt. Eða óttaslegið.

Það er ekki hægt að bjóða fólki upp á að þurfa stöðugt að rökræða tilvistarrétt sinn, þurfa að sitja undir niðrandi orðum, eða þá ásökunum um ofurviðkvæmni þegar það mótmælir, -- og þykjast á sama tíma ekki samþykkja hatursorðræðu.

Mikilvægi málfrelsis snýst nefnilega ekki um heilagan rétt fólks í sterkri stöðu til að hnýta í fólk í veikri stöðu.

(Birtist áður á Facebook.)

No comments:

Post a Comment