Tuesday, July 13, 2021

Geðheilsuvandamálið sem einnig er byggðastefna

Ég hef oft sagt að húsnæðismálin á höfuðborgarsvæðinu séu stærsta geðheilsuvandamál þjóðarinnar. Pólitískt ákveðinn lóðaskortur gerir skort á íbúðarhúsnæði, sem spennir verðið upp eins og hægt er. Skuggalegur fjöldi heimilislausra segir ekki nema hluta af sögunni; miklu fleiri eru á hrakhólum og ná rétt svo að halda þaki yfir höfuðið. Og enn fleiri eru með stöðugar áhyggjur og kvíða -- raunhæfan kvíða -- vegna húsnæðiskostnaðar. Þurfa um leið að vinna meira en þeir ella þyrftu. Haldið þið að börnin fari varhluta af þessu? Þau gera það ekki. Þau taka þetta allt inn á sig, stressið, kvíðann, skortinn, og þau munu taka það með sér inn í fullorðinsárin í formi vandamála. Þess vegna er húsnæðisstefnan, sem hefur verið undanfarin 23 ár eða svo, vaxandi vandamál en fyrir löngu stærsti geðheilbrigðisvandi þjóðarinnar, og á eftir að halda áfram að skapa vanda næstu 75+ árin, sama þótt hann yrði leystur í dag.

Einu sinni var ekki kjallari svo saggafullur eða dimmur, að ekki mætti troða þangað barnafjölskyldu. Svo losnuðu braggarnir og kjallararnir tæmdust. Braggarnir urðu lélegir með tímanum og á endanum var byggt Breiðholt og braggarnir hurfu. Núna er löngu komið að því að byggja nýtt Breiðholt og útrýma ósamþykktu bælunum í iðnaðarhúsunum, og skúrunum í bakgörðunum.

En svo er hin hliðin. Þegar húsnæðisverð er orðið of íþyngjandi á höfuðborgarsvæðinu, þá er auðvitað ein lausn að flytja bara burt. Strax og maður er kominn norður fyrir Hvalfjörð eða austur fyrir Hellisheiði er verðið mun lægra. Að ég nú ekki tali um þegar lengra dregur.

Það væri hreint ekkert skrítið ef fólk gæfist bara upp á borginni og flytti jafnvel lengra burt. Og ég þekki reyndar allnokkra sem hafa gert það eða ætla að gera það. Ef það er byggðastefna, að halda landinu öllu í byggð, þá gæti húsnæðisstefna Reykjavíkur kannski flokkast sem eins konar byggðastefna. Hún hefur þessi óbeinu áhrif, þótt ekki komi til af góðu. Og auðvitað setur hún því um leið skorður, að fólk flytji til höfuiðborgarsvæðisins.

No comments:

Post a Comment